24.03.1954
Sameinað þing: 41. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 599 í D-deild Alþingistíðinda. (3470)

222. mál, greiðslugeta atvinnuveganna

Fyrirspyrjandi (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Á fundi Sþ. fyrir hálfum mánuði gerði ég nokkra grein fyrir fsp. þeirri, sem prentuð er hér á þskj. 426 og nú er til framhaldsumræðu. Hæstv. forsrh., sem mun hafa ætlað að svara fsp., var þá ekki viðstaddur, og bárust því engin svör frá hæstv. ríkisstj. Umr. um fsp. var því frestað.

Ég sé nú ekki ástæðu til að endurtaka það, sem ég áður sagði um gildi slíkrar rannsóknar sem þeirrar, er hér um ræðir. Ég ætla, að það sé hv. alþm. ljóst, eins og raunar hefur komið fram í afstöðu þeirra til málsins með samþykkt þáltill. á sínum tíma. Ég vil aðeins rifja það hér upp, að á Alþ. 1952 fluttu sex hv. alþm. till. til þál. um að fela ríkisstj. að láta fara fram rannsókn á greiðslugetu atvinnuvega þjóðarinnar, með það fyrir augum að fá úr því skorið, hve hár rekstrarkostnaður atvinnutækjanna megi vera, til þess að þeim verði haldið í gangi sem lengstan hluta hvers árs og þeir veiti sem varanlegasta atvinnu. Var svo fyrir mælt í till., að ríkisstj. skyldi leita aðstoðar og samvinnu við samtök launþega og atvinnurekenda um framkvæmd þessarar rannsóknar. Skyldi rannsókninni lokið fyrir 1. nóv. 1953.

Þar eð ekkert hefur komið fram um það af opinberri hálfu, hvort rannsókn þessari sé lokið, og þaðan af síður, hverjar orðið hafa niðurstöður rannsóknarinnar, hef ég leyft mér að bera fram þá fsp., er ég vil nú lesa, með leyfi hæstv. forseta:

„Hefur ríkisstj. látið framkvæma rannsókn þá á greiðslugetu og afkomu atvinnuvega þjóðarinnar, sem samþykkt var í Sþ. 17. des 1952 að fram skyldi fara og lokið fyrir 1. nóv. 1953? Sé rannsókn þessari lokið, hver varð í megindráttum niðurstaða hennar? Sé rannsókninni enn ekki lokið, hvenær má vænta þess, að henni ljúki og gerð verði grein fyrir niðurstöðu hennar?“