24.03.1954
Sameinað þing: 41. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 599 í D-deild Alþingistíðinda. (3471)

222. mál, greiðslugeta atvinnuveganna

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Út af fsp. hv. 8. þm. Reykv. vil ég leyfa mér að gefa eftirfarandi skýrslu:

Hinn 17. des. 1952 var samþ. á Alþ. svo hljóðandi þál.:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta fram fara rannsókn á greiðslugetu og afkomu atvinnuvega þjóðarinnar með það fyrir augum að fá úr því skorið, hversu hár rekstrarkostnaður atvinnutækjanna megi vera, til þess að þeim verði haldið í gangi sem lengstan hluta hvers árs og þeir veiti sem varanlegasta atvinnu. Skal ríkisstj. leita aðstoðar og samvinnu við samtök launþega og atvinnurekenda um framkvæmd þessarar rannsóknar, er skal lokið fyrir 1. nóv. 1953.“

Hvorki fyrrverandi né núverandi ríkisstj. hefur látið framkvæma allsherjarrannsókn á afkomu atvinnuveganna með það fyrir augum að fá úr því skorið, hversu hár rekstrarkostnaður atvinnuveganna megi vera. til þess að þeim verði haldið í gangi sem lengstan hluta árs og þeir veiti sem varanlegasta atvinnu. Samkv. orðalagi till. mun hér aðallega átt við rannsókn á sjávarútvegi landsmanna. Rannsókn þessi er nokkrum vandkvæðum bundin, sem byggist fyrst og fremst á því, að aflabrögð eru æði mismunandi frá ári til árs og útflutningsverð afurðanna og útgerðarkostnaður mjög breytilegur, eins og öllum hv. alþm. er kunnugt um. Niðurstöður slíkrar rannsóknar hlytu af þessum ástæðum að hafa mjög tímabundið gildi. Hins vegar hefur ríkisstj. látið framkvæma nokkur undanfarin ár athugun á rekstri og afkomuhorfum bátaútvegsins og hraðfrystihúsanna vegna hinna sérstöku innflutningsréttinda bátaútvegsmanna.

Allt frá því að tekin var ábyrgð á helztu útflutningsafurðum bátaútvegsins í ársbyrjun 1947, hefur hið opinbera fylgzt með afkomu þessa atvinnuvegar, bæði að því er snertir sjálfa bátana og einnig að því er snertir vinnustöðvarnar eða vinnslustöðvarnar, þ. e. aðallega frystihúsin. Fyrst framan af var nokkrum erfiðleikum bundið að fá um þetta glöggar upplýsingar, en með stofnun reikningsstofu sjávarútvegsins, sem starfrækt er á vegum Fiskifélags Íslands, hefur öll gagnasöfnun í þessu sambandi verið aukin mjög og auðvelduð. Er nú svo komið, að í sambandi við athuganir, sem fram hafa farið nú um undanfarin þrjú ár vegna bátagjaldeyrisaðstoðarinnar, hefur verið framkvæmd ýtarleg athugun á afkomu þeirra aðila, sem helzt eiga hér hlut að máli. Og á niðurstöðum þeirra rannsókna hefur verið byggt, þegar tekin hefur verið ákvörðun um aðstoð þá, sem bátaútveginum hefur verið veitt. Ég hygg, að óhætt sé að telja, að þær athuganir, sem gerðar hafa verið á þessum atvinnuvegi, gefi allglöggar upplýsingar um það, hvers hann er megnugur, miðað við þær aðstæður, sem fyrir hendi eru á hverjum tíma.

Varðandi togaraútgerðina vil ég leyfa mér að segja þetta: Fram til ársloka 1952 gekk togaraútgerðin yfirleitt sæmilega. Hins vegar hefur afkoman orðið slæm, svo að ég ekki segi mjög slæm, á árinu 1953, og er nú svo komið, að staðhæft er, að allir eða nær allir togararnir eru reknir með tapi, og er vá fyrir dyrum í þessum atvinnurekstri, ef ekki finnast einhver úrræði til úrbóta. Félag íslenzkra botnvörpuskipaeigenda hefur leitað til ríkisstj. með þessi vandamál, og hefur ríkisstj. óskað eftir skýrslum og öðrum upplýsingum um hag togaranna.

Um landbúnaðinn vil ég leyfa mér aðeins að geta þess, að samkv. 2. kafla laga nr. 94 frá 5. júní 1947, um framleiðsluráð landbúnaðarins o. fl., þá skal söluverð landbúnaðarvara á innlendum markaði miðast við það, að heildartekjur bænda eða þeirra, sem landbúnað stunda, verði í sem nánustu samræmi við tekjur annarra vinnandi stétta í landinu. Þetta grundvallaratriði hefur verið framkvæmt þannig, síðan lögin tóku gildi, að nefnd, sem skipuð er jafnmörgum fulltrúum frá neytendum og framleiðendum, þremur frá hvorum aðila, hefur árlega samið hinn svokallaða verðlagsgrundvöll, en verðlagsgrundvöllurinn er í rauninni ekki annað en reikningur yfir tekjur og gjöld bús af hugsaðri, nánar tiltekinni stærð, sem talið er nærri því að vera stærð meðalbús í landinu eða yfir allt landið. Endurskoðun á verðlagsgrundvellinum fer þannig fram árlega. Enda þótt verð búvaranna sé þannig hverju sinni í samræmi við kaup og kjör annarra stétta og verðlagsbreytingar, sem verða t. d. á rekstrarvörum landbúnaðarins einnig, þá er tæpast rétt að telja verðlagið beinan mælikvarða fyrir greiðslugetu landbúnaðarins, hygg ég.

Ég vænti, að eftir atvikum þyki þessar skýringar nægja. Þær fela a. m. k. í sér allar þær upplýsingar, sem fyrir hendi eru um málið, hvort sem mönnum þykir, að með því hafi verið fylgt þáltill. að fullu eða ekki. En eins og ég gat um í upphafi minna skýringa, þá er mikill vandi að gera þetta þannig, að öryggi sé í því, einmitt vegna þess, hvað stuttan tíma er við að miða vegna breytileika um aflabrögð og verðlag í aðalútflutningsframleiðslustarfsemi landsmanna.