24.03.1954
Sameinað þing: 41. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 601 í D-deild Alþingistíðinda. (3472)

222. mál, greiðslugeta atvinnuveganna

Fyrirspyrjandi (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forsrh. fyrir þær upplýsingar, sem hann nú gaf. Það kemur í ljós, eins og hann glögglega gat um, að engin allsherjar rannsókn á hag og afkomu höfuðatvinnuvega þjóðarinnar hefur verið framkvæmd, eins og þó var ætlazt til með till., og það virðist ekki einu sinni hafa verið ætlun hæstv. ríkisstj., hvorki fyrrverandi né núverandi, að láta framkvæma slíka allsherjarrannsókn. Hæstv. forsrh. talaði um það, að það sé verulegum vandkvæðum bundið, og að slík rannsókn hafi ekki gildi nema um takmarkaðan tíma vegna breytilegs ástands atvinnuveganna, og er það að vissu leyti rétt, sérstaklega að því er varðar sjávarútveginn, því að þar eru breytingarnar hvað örastar og sveiflurnar hvað mestar.

En ég er þeirrar skoðunar, að athuganir slíkar sem hugsaðar eru í till. þurfi að fara fram með nokkuð skömmu millibili, að ég ekki segi nokkurn veginn að staðaldri. Það er svo mikið atriði fyrir allan þjóðarbúskapinn að vita með svo mikilli vissu sem hægt er, hvernig sakirnar standa hjá hverjum atvinnuvegi, að það er engin vanþörf á því, að þarna sé að staðaldri haldið uppi mjög rækilegum athugunum, einmitt í þá átt, sem till. mælti fyrir um.

Í grg. fyrir þessari þáltill., sem samþ. var í desembermánuði 1952, er m. a. um það rætt, að ástæða sé til framhaldsrannsóknar á hag ákveðinna atvinnugreina, þegar það sýndi sig, að þær gætu ekki staðið undir því að greiða sómasamlegt kaupgjald og væru ekki samkeppnisfærar við aðrar atvinnugreinar. Þetta er vissulega nauðsyn, sem allir hljóta að viðurkenna, og það er þá alveg sérstaklega eins og nú er ástatt varðandi togaraútgerðina, sem þessi nauðsyn er afar brýn.

Ég mun nú ekki á þeim fáu mínútum, sem ég hef hér til umráða, fara út í að ræða almennt um hag og ásigkomulag togaraútgerðarinnar, þess gefst væntanlega kostur innan skamms að ræða það svolítið nánar, en ég vil leggja á það áherzlu, að allar þær þjóðir, sem vilja undirbyggja þær opinberu aðgerðir, sem þær gera varðandi atvinnuvegi sína, telja nauðsynlegt að framkvæma undirstöðu- eða grundvallarrannsóknir á hag og afkomu atvinnuveganna. Ég vil aðeins nefna sem dæmi til fyrirmyndar frændþjóð okkar Norðmenn og þó e. t. v. alveg sérstaklega Svía, sem gert hafa mikið að þessu og telja ekki kleift að leggja út í neinar stórfelldar opinberar aðgerðir til þess að rétta við hag eins eða annars atvinnuvegar án þess að hafa áður látið framkvæma undirstöðurannsóknir. Hagstofa Íslands og þær aðrar stofnanir, sem vinna að upplýsingum ýmsum í sambandi við atvinnuvegina, leggja ýmislegt hráefni upp í hendurnar á þeim, sem síðan þurfa að framkvæma þessar rannsóknir, vinna úr „materialinu“ og leggja síðan niðurstöðurnar fyrir þá aðila, sem loks eiga að ákvarða um, hvað gera skuli. Ég vil mega vænta þess, að þessu mikilvæga atriði, undirstöðurannsóknum, sérstaklega þó varðandi höfuðatvinnuvegi þjóðarinnar, verði gefinn meiri gaumur hér eftir en hingað til, og ef sú till., sem samþ. var á Alþ. 1952, og þessi fsp. mættu verða til þess. að þessu nauðsynjamáli verði gefinn. nokkuð meiri gaumur hér eftir en hingað til, þá tel ég það vel farið.