24.03.1954
Sameinað þing: 41. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 608 í D-deild Alþingistíðinda. (3477)

222. mál, greiðslugeta atvinnuveganna

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins út af þeim umræðum, sem hér hafa orðið, og þeim yfirlýsingum, sem fram hafa komið frá hæstv. ríkisstj., benda hv. alþm. á, hverja reynslu við höfum í sambandi við lausnir á málum eins og þeim vandamálum, sem nú standa yfir fyrir togaraútgerðina.

Hæstv. forsrh. minntist á, hvernig séð hefði verið fyrir smáútveginum, fyrir vélbátaútveginum. Hvernig var það gert? Það var gert með því, að daginn eftir að Alþingi var sent heim. 7. marz 1951, þá var 8. marz gefin út reglugerð án lagaheimildar um að leggja álögur á þjóðina, sem núna nema hátt upp undir 100 millj. kr. á ári. Það var beðið þangað til búið var að senda Alþingi heim, og þá var ekki beðið boðanna lengur. Daginn eftir var gefin út ólögleg reglugerð, og í 3 ár er síðan búið að innheimta af alþýðu beint líklega 200–300 millj. kr. á ári, en til útvegsins um 100 millj. Það hefur verið dýr innheimta á bátagjaldeyrinum.

Ég vildi leyfa mér að spyrja hæstv. ríkisstj.: Eigum við kannske von á svona afgreiðslu núna, að daginn eftir að Alþingi sé sent heim, þá verði gefin út reglugerð um togaragjaldeyri?

Ég vil minna á, einmitt út af því, sem hv. 4. þm. Reykv. var að spyrja að hér áðan, af hverju það væri engin endurskoðun á bátagjaldeyrinum eða öðru slíku, að ég veit ekki til þess, að það sé vani, ef eitthvað er tekið með ófrjálsum hætti, að það séu sérstakar endurskoðanir á slíku. Bátagjaldeyririnn hefur aldrei stuðzt við nein lög, aldrei verið innheimtur í sambandi við nein lög, verið ólöglegur allan tímann, og það er ekki vani að endurskoða það fé, sem þannig er fengið. Ríkisstj. er enn ekki farin að koma þessu í lag, og hefur hún þó meiri hluta hér á Alþ. til að gera hvað sem hún vill. Ég vildi þess vegna aðeins skjóta þessu fram. Ég álít fyrir mitt leyti, að aðferð eins og togaragjaldeyrir í viðbót við bátagjaldeyrinn sé algerlega óþolandi, auk þess sem hann sé ólöglegur, og það nái ekki nokkurri átt að ætla að leysa vandkvæði togaraútgerðarinnar, sem eru mikil, með því að hlaða þannig nýjum byrðum á herðar alþýðu í viðbót við þær, sem þegar eru fyrir. En ef á að fara hina leiðina, að skera niður vextina hjá bönkunum, sem græða tugi milljóna, lækka verðið á olíunni, veiðarfærum, lækka vátryggingu eða annað slíkt, sjá um, að hærra verð sé gefið af hálfu hraðfrystihúsanna og fiskhringanna, þá þarf til alls þessa aðgerða Alþingis. Það þarf til alls þessa lög, þannig að mér sýnist, að hæstv. ríkisstj., ef hún ætlar ekki að leysa málið með togaragjaldeyri, eftir að þingið er sent heim, verði að reyna að gera eitthvað nú þegar á þessu þingi, ef hún hefur þá hug á að gera eitthvað í þá áttina að skera niður gróðann við hringa- og bankavaldið í landinu. Það er ekki um nema þessar tvær leiðir að velja. Og ég er ákaflega hræddur um, að ef sú leiðin verður ekki valin að skera niður gróða hringa- og bankavaldsins og létta þannig á togaraútgerðinni, þá verði það hin leiðin, sem ríkisstj. fer, nema hún ætli að láta togaraútgerðina stöðvast, en því hef ég hins vegar ekki trú á.

Ég vildi aðeins skjóta þessu fram hér út af þessum umræðum, sem hérna hafa orðið um þetta þýðingarmikla mál, sem vissulega ætti að koma fyrir þingið öðruvísi en í sambandi við fsp. og 5 mín. ræður í sambandi við það.