24.03.1954
Sameinað þing: 41. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 609 í D-deild Alþingistíðinda. (3478)

222. mál, greiðslugeta atvinnuveganna

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Fyrst hér hafa orðið nokkrar almennar umræður um bátagjaldeyrinn og framkvæmd bátagjaldeyriskerfisins vildi ég leyfa mér að skjóta hér fram nokkrum athugasemdum varðandi það mál.

Þegar rætt hefur verið um bátagjaldeyrinn, höfum við Alþfl.-menn jafnan haldið því fram, að með því að taka upp það kerfi hafi í raun og veru verið tekið upp tvöföld eða jafnvel þreföld skráning á gengi krónunnar. það hafi í raun og veru verið um það að ræða að skrá krónuna á margföldu gengi, þ. e. a. s. lækka krónuna að nokkrum hluta. Þessu hefur ávallt verið harðlega andmælt af formælendum kerfisins, formælendum stjórnarflokkanna, og talið, að þessi ráðstöfun ætti að engu leyti skylt við gengislækkun. Nú vill þannig til, að í skýrslum alþjóðastofnunar einnar, sem Íslendingar eru aðilar að, kemur það skýrt fram, að sú stofnun lítur á málið eins og við Alþfl.-menn, sem verið höfum að gagnrýna kerfið á þessum grundvelli, þegar það hefur borið á góma. Íslendingar eru aðilar að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gefur út miklar hagskýrslur og vandaðar, sem heita „International Financial Statistics“, og er þar um að ræða skýrslur um gengismál og fjármál í öllum þeim löndum, sem eru aðilar að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Í desemberheftinu 1953 segir svo um gengi íslenzku krónunnar: Þar er tilgreint sölugengi hennar eða „selling rate“, í fyrsta lagi 16.32 á dollar, í öðru lagi 20.55 og í þriðja lagi 26.25. Það er m. ö. o. skráð þrenns konar sölugengi á íslenzku krónunni í skýrslum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, og er hér auðsjáanlega um það að ræða, að skráð er sérstakt gengi á krónunni í viðskiptum við clearinglöndin og sérstakt gengi á krónunni í viðskiptum við dollarasvæðið og EPU-svæðið, þar sem kemur til greina 61% bátagjaldeyrisálagið. Það er m. ö. o. reiknað inn í gengi krónunnar. Og tilsvarandi kaupgengi eru skráð 16.26, 18.30 og 21.15 kr. og þá tekið tillit til þess, að útvegsmenn fá ekki bátagjaldeyri á alla upphæð skírteina sinna, heldur aðeins helming þeirra. Í skýringum, sem eru gefnar við þessa gengisskráningu, er glögglega og alveg réttilega skýrt frá því, sem hér er um að ræða, og sagt í lokaorðum, að tvö síðustu gengin, tvö síðustu sölugengin og kaupgengin, þ. e. a. s. sölugengi 20.55 og 20.66, séu raunverulegt gengi, sem sé afleiðing af því kerfi, sem upp hafi verið tekið. Það er sagt, að það fyrirkomulag, sem lýst hafi verið, svo að ég viðhafi ensku orðin úr skýrslunni: „results in the effective rates given above“ þessum tölum, sem ég nefndi.

Hér er það m. ö. o. fengið svart á hvítu, að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, sú merka stofnun, lítur á bátagjaldeyriskerfið sem gengislækkun að hluta á íslenzku krónunni, og skýtur þá dálítið skökku við, ef íslenzku stjórnarvöldin halda fast í þann skilning, að þessar ráðstafanir séu sjálfu gengi krónunnar í raun og veru algerlega óskylt mál.

Ef svo fer nú, sem ýmsir láta sér detta í hug, að gripið verði til þeirra ráðstafana til hjálpar togaraútveginum að láta bátagjaldeyriskerfið einnig ná til hans, þá getur raunar varla svo farið, að langt verði í það, að staðfest verði sú hlutagengislækkun, sem þegar hefur verið framkvæmd með bátagjaldeyriskerfinu, með algerri gengislækkun á krónunni. Væri það vissulega mjög miður.

Vegna þeirra almennu umræðna, sem fram höfðu farið um málið, vildi ég ekki láta hjá líða að skjóta þessum athugasemdum fram.