24.03.1954
Sameinað þing: 41. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 611 í D-deild Alþingistíðinda. (3480)

222. mál, greiðslugeta atvinnuveganna

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Mér þykir hlýða að gera hér nokkrar athugasemdir, áður en þetta mál er tekið út af dagskrá, því þó að hæstv. forsrh. segði áðan, að hér væru mörg stórmál til umr. og þess vegna ætti ekki að eyða tímanum í þetta mál, þá sé ég ekki betur en að hér sé um svo stórt mál að ræða, að það séu varla önnur stærri á dagskránni í dag.

Ég vildi fyrst taka fram, að þó að við þm. séum hér að tala við hæstv. ríkisstj. öðru hverju í spurningatímum, þá finnst mér eiginlega, að það væri heldur verkefni sálfræðinga að rannsaka og athuga hæstv. ríkisstj. á þessum tímum. Hér hafa nokkrum sinnum verið lagðar fram spurningar til ríkisstj. og vitað í sambandi við þær spurningar, að ríkisstj. stóð afar höllum fæti og hafði slæman málstað. Aldrei hefur þó hæstv. ríkisstj. dottið í hug að sýna af sér þann manndóm að kannast við það hreinskilnislega, að hennar málstaður væri slæmur og illur, heldur hefur hún reynt að bera af sér, flækja og þvæla málin sitt á hvað.

Í sambandi við þetta mál t. d. alveg sérstaklega skal það tekið fram, sem þegar hefur verið gert, að 17. des. 1952 var samþ. hér á hinu háa Alþ. þáltill., borin fram af 6 eða 7 hv. þm. Sjálfstfl., og ríkisstj. falið að gera ákveðinn hlut, og í till. voru meira að segja sett tímatakmörk, þannig að ríkisstj. var falið að hafa lokið ákveðinni rannsókn fyrir ákveðinn dag. Svo þegar þessi tímatakmörk eru útrunnin og hæstv. ríkisstj. er spurð, hvort hún hafi lokið þessari rannsókn eða ekki lokið henni, eða hvort hún hafi nokkurn tíma stofnað til hennar, þá eru svörin þau: Nei, að vísu ekki. — Yfirlýstur eindreginn vilji Alþ., m. a. hv. stjórnarfl., hefur verið algerlega hunzaður, en þá er barið í brestina og sagt: Ja, eiginlega var nú engin þörf á þessu, vegna þess að við höfum svo miklar upplýsingar. — Það er sagt eins og hæstv. forsrh. sagði: Við höfum upplýsingar frá reikningaskrifstofu sjávarútvegsins. Við höfum upplýsingar frá framleiðsluráði landbúnaðarins. — Gott og vei. Það er vafalaust rétt, að þeir hafa þessar upplýsingar, en það er bara að athuga í þessu sambandi, að hæstv. ríkisstjórn hefur haft upplýsingar frá reikningaskrifstofu sjávarútvegsins síðan 1947 og frá framleiðsluráði landbúnaðarins síðan 1947 líka og frá 6 manna nefndinni frægu síðan 1942 eða 1943. Allar þær upplýsingar, sem hæstv. ríkisstj. getur því vísað til núna í sambandi við þetta mál, hafði hún, þegar þáltill. sú, sem hér um ræðir, var borin fram og samþ. hér á Alþingi. Þetta vissu þeir þm., sem báru þessa þáltill. fram, og þetta vissi hæstv. ríkisstj., sem við till. tók. En þá taldi enginn maður, að þessar upplýsingar, sem hæstv. forsrh. vísar til núna, væru fullnægjandi. Þá fannst m. a. honum sjálfum, að það væri þörf á þeirri rannsókn, sem hér var samþ. að framkvæma, en ríkisstj. hefur svikizt um — ég segi svikizt um að framkvæma.

Á þetta vildi ég benda, og sömuleiðis vildi ég benda á það, að í till. var tekið alveg sérstaklega fram, að launþegasamtökin skyldu eiga aðild að þeirri rannsókn, sem framkvæma átti. Og þó að hæstv. forsrh. geti nú vísað til reikningaskrifstofu sjávarútvegsins og framleiðsluráðs landbúnaðarins, þá er það ekki nema að mjög takmörkuðu leyti, sem launþegasamtökin hafa nokkuð haft með það að gera eða komið nærri þeim upplýsingum, sem þar eru veittar. Þess vegna hefur það, sem í till. var meginatriði, nefnilega að launþegasamtökin skyldu fá að vita um og rannsaka greiðslugetu atvinnuveganna, algerlega verið sniðgengið.

Ég hef víst ekki tíma til að fara út í fleiri atriði þessa máls á þeim fimm mínútum, sem mér eru hér skammtaðar, en í sambandi við annað mál, sem hefur verið rætt hér í sambandi við þessa fsp., nefnilega afkomu togaranna, vildi ég leyfa mér að beina þeirri fsp. til hæstv. ríkisstj., hvort ríkisstj. hefur nú þegar rætt um þann möguleika að fella gengi íslenzkrar krónu á nýjan leik til þess að koma í veg fyrir stöðvun togaraútgerðarinnar.