31.03.1954
Sameinað þing: 43. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 620 í D-deild Alþingistíðinda. (3488)

180. mál, togaraútgerðin

Forsrh. (Ólafur Thors):

Út af því, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði nú síðast, þá viðurkenni ég það hiklaust, að það eru fleiri en togaraútgerðarmennirnir, sem eiga sitt undir því, að togaraútgerðin stöðvist ekki. Og það er alveg rétt hjá honum, að höfuðstaðnum mun ekki farnast vel, ef útgerðinni farnast illa. Ég veit einnig, að hann og raunar fleiri fella mig ekki undir sök um það, að ég muni ekki hafa löngun til að létta undir með togaraútgerðinni, eftir því sem ég kynni að hafa vit á og getu til, og væri raunar fæstum skyldara en mér að bera hennar hag fyrir brjósti. Ég segi hins vegar, að mér finnst, að sem ráðherra eigi ég kröfu á því, að útgerðarmenn sjálfir leggi fyrir mig gögn, ekki bara fullyrðingar, heldur gögn fyrir sínum vandkvæðum. Ég veit að sönnu það mikið um útgerð, að ég þarf náttúrlega ekki að líta á marga reikninga til að vita, að útgerðin hefur gengið illa nú undanfarið. En sem ráðherra verð ég að krefjast þess, — og ekki sízt ég, af því að ég hef eiginlega alla mína ævi átt mitt undir því, að togaraútgerðin gengi sæmilega, — að óyggjandi gögn verði lögð á borðið. Ég get ekki látið fella mig undir sök um það, að ég geri till. um örlagaríkar ákvarðanir, fyrr en útgerðarmenn hafa lagt fyrir mig tvennt, skýrslur, sem þeir telja óyggjandi, um sína afkomu, og í öðru lagi að ég hef fengið aðstöðu til að láta þá fjalla um þessar skýrslur sem bæði ég og aðrir telja óvilhalla dómara.

Ég endurtek svo það, að ég tel, að útgerðarmönnum sé það engin ofraun að sjá um það sjálfir, að þeir séu ekki féflettir, a. m. k. ekki af olíusölum. Þeir geta alveg eins myndað einir sín olíufélög, ef þeir telja sig féfletta af þeim félögum, sem þeir sjálfir eiga verulegan hluta í og fengu aðstöðu til að eiga meiri hluta í, ef þeir bara hefðu viljað. Ég þyrði eða gæti hins vegar ekki, vegna þess að ég er útgerðarmaður sjálfur, borið hér fram á Alþ. till. um það, sem hv. 2. þm. Reykv. nefndi, að togaraútgerðin greiddi lægri vexti, eða hvað halda nú þingmenn að þeir mundu segja, ef þeir sæju framan í slíka till. frá Ólafi Thors um það, að togaraútgerðin hefði aðra og lægri vexti í bönkunum heldur en aðrir útgerðarmenn eða annar atvinnurekstur landsmanna? Mundi ég þá ekki fá að heyra einhvern són um það, að þetta væri gamall Kveldúlfs-karl, sem hér væri loksins farinn að sýna sitt innræti, þótt klókur sé!

Ég ann togurunum alls hins bezta. Ég veit, að þeir eru í þröng í bili. Ég hef oft séð, eins og ég segi, rætast vonum fyrr úr fyrir þeim. Ég tel þó, að afkoma þeirra þurfi að sæta rannsókn og eðlilegri meðferð, og það þarf enginn að halda, að ég hafi löngun til að taka léttilega eða gálauslega á þessum málum; þau eru of alvarleg til þess. En ég á kröfu á skýrslum, eins og ég hef sagt, og það er ekki hægt fyrir togaraútgerðarmenn að byggja sínar óskir um úrbætur á meira og minna órökstuddum fullyrðingum án sönnunargagna.

Út af því, sem hv. 8. þm. Reykv., fyrirspyrjandi, sagði, þá hef ég sumpart í svari mínu til hv. 2. þm. Reykv. vikið að því, sem mér þótti ástæða til að gera athugasemdir við í hans ummælum.

Ég vil þó aðeins leiðrétta þann misskilning, ef ég kynni að hafa gefið tilefni til hans, að mér finnist fremur geta komið til mála að fella gengi heldur en að athugaðir séu gaumgæfilega möguleikar til að lækka eitthvað af kostnaðinum við útgerðina. Ég tel einmitt, að gengisfelling sé það síðasta, það allra síðasta, sem til mála má koma í þessum efnum. Og ég mun fyrir mitt leyti vera reiðubúinn til samstarfs við útgerðarmenn, að svo miklu leyti sem geta mín nær, til þess bæði að ræða og gera ráðstafanir, innan eðlilegs ramma, sem gætu orðið þeim til hagsbóta á öðrum sviðum en með gengisfellingu. Ég vil leggja áherzlu á, að það liggi skýrt fyrir. En ég vil einmitt benda hv. fyrirspyrjanda á í tilefni af hans eigin orðum, að þetta mál liggur nú ekki alveg eins auðveldlega og ljóst fyrir og hann annað veifið virðist gera ráð fyrir. Hann segir: Það þarf að athuga olíuverðið, það þarf að athuga vátryggingargjöldin, það þarf að athuga, hvort skipafélögin, sem flytja fiskinn, græði ekki, það þarf að athuga, hvort þeir, sem kaupa fiskinn af togurunum, græða ekki o. s. frv. — Margt annað, sem hann alveg réttilega talaði um, þarf líka að athuga. En ég ætla þeim útgerðarmönnum, sem koma og kæra sín mál fyrir stjórninni, að leggja þessi gögn fyrir stjórnina. Ég ætla okkur að mega spyrja útgerðarmenn: Hvað hafið þið gert til að tryggja ykkur það hæsta verð hjá frystihúsum eða saltendum fyrir ykkar fisk? Hvað hafið þið gert til að tryggja ykkur lægstu vátryggingargjöld? Hvað hafið þið gert til að tryggja ykkur lægsta verð á olíum o. s. frv. — Það er ekki eins og þetta séu vöggubörn eða reifabörn, þessir útgerðarmenn. Þetta eru gamlir og reyndir menn í þjónustu sinni og eiga að kunna sín boðorð sjálfir, og þeir eiga að geta gefið þær upplýsingar.

Mér er sagt, að útgerðarmenn séu ekki sammála um leiðir til úrbóta. Þeir hafa almennt borið fram, eins og hv. 4. þm. Reykv. sagði, óskir um, að bátagjaldeyrir fáist, eða sams konar fríðindi, togurunum til handa. Mér er sagt, að hv. 11. landsk. (LJós) standi að þeirri ásk mjög fast með útgerðarmönnum í þeirra hóp, en í fiokk sinum tali hann á móti því. Þetta þarf allt, eins og ég segi, sinnar athugunar við. En málið er líka svo stórt, að það á ekki að standa á neinum að leggja í það vinnu og manna sízt mér.

Ég viðurkenni, að mannekla háir togurunum mikið. Á sumum hefur þó verið bætt úr þessu með því að fá Færeyinga á togarana. Sjómannafélag Reykjavíkur hefur beitt sér gegn því, þó að sjómannafélögin úti um land hafi samþykkt það, og togararnir hafa notið góðs af því. En það er engum vafa undirorpið, að það varðar mjög miklu, svo að ég segi ekki meira, um afkomu togaranna, að valinn maður sé í hverju rúmi.

Ég skal svo stytta mál mitt. Ég get þó ekki annað en svona upp á gamlan kunningsskap skopazt svolítið að mínum ágæta vini, hv. 4. þm. Reykv., sem hafði nú krækt sér í tvo nýja guði, sem voru alveg óyggjandi. Það var nú ekki hin heilaga þrenning, en það var hin heilaga tvenning; það var nefnilega Mogginn annars vegar og útgerðarmenn hins vegar. Hann sagði: „Útgerðarmenn hafa lýst yfir“ — og svo las hann úr yfirlýsingu útgerðarmanna. Hvað þurfti þá framar vitnanna við? Sá fyrsti, sem skrifar undir þessa yfirlýsingu, er nú úr Kveldúlfi og heitir Kjartan Thors. Það eru nú fleiri að vísu undir henni, en fram að þessu hefur nú ekki Alþfl. að minnsta kosti litið á það sem alveg hreina biblíu, þó að fengist einn og einn útgerðarmaður til þess að segja, að hagur útgerðarinnar væri bágur. — Ég endurtek, að ég hef alltaf trúað útgerðarmönnum ákaflega vel, en ég hef ekki verið eins viss um, að hv. 4. þm. Reykv. gerði það. En úr því að hann er nú búinn að fá þennan átrúnað, þá vil ég vara hann við að hafa aðra guði. Það er nú víst eitt af boðorðunum: „Þú skalt ekki aðra guði hafa.“ Hann trúir þá því, sem útgerðarmenn segja honum, héðan af. — Og einkum ætlast ég til, að hann fylgi þessu boðorði dyggilega hvað Morgunblaðið áhrærir. Menn sáu hann burðast með drápsklyfjar af Morgunblaði upp í ræðustólinn. Ég vissi ekki, hvor ætlaði að hafa það, Mogginn eða þingmaðurinn, þegar upp í ræðustólinn kom, en ég fann, að hann lagði mikið upp úr því, sem þar stóð, og mikið á sig til að geta þulið það yfir okkur hinum, ef okkur skyldi skorta eitthvað á trúna. En það hefur nú aldrei verið hætt við því um mig, að ég tryði ekki Morgunblaðinu.

Ég segi svo það að lokum, að einmitt vegna þess, hve þetta mál er stórt, þá má engan undra, þó að menn vilji fá skýrar skýrslur, þannig að ýtarlegar rannsóknir geti farið fram.