31.03.1954
Sameinað þing: 43. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 625 í D-deild Alþingistíðinda. (3491)

180. mál, togaraútgerðin

Forsrh. (Ólafur Thors):

Ég vil út af þessu, herra forseti, aðeins segja það, að meginatriði þessa máls er, að ríkisstj. segir: Við verðum að fá óyggjandi skýrslur frá útgerðinni sem grundvöll undir þær aðgerðir, sem útgerðin telur þurfa að gera, áður en við hverfum að nokkrum ráðum í þessum efnum. — Ef hv. 4. þm. Reykv. eða aðrir hv. alþm. telja sig bæra um að bera fram ráð til úrbóta án frekari upplýsinga, geta þeir gert það. Og þeir eru alveg eins bærir um það eins og við. Menn fá engar vitranir, þó að þeir setjist í ráðherrastól, það hlýtur þessi hv. þm. að vita, því að hann hefur sjálfur í mörg ár setið í ráðherrastól. Þessir hv. þm. eru alveg eins bærir um og við í ríkisstj. að gera sér grein fyrir, að hagur útgerðarinnar stendur illa í bili. Þeir eiga sama aðgang að útgerðarmönnum og ríkisstj. á, og ef þeir telja þetta svona auðleyst allt saman, hví í ósköpunum bera þeir þá ekki fram till. á þinginu um, hvað gera skuli, og binda hendur okkar? Og því fremur, ef þeir telja, að við sitjum á svikráðum í þessum málum, ætlum annaðhvort ekkert að sinna málinu og höfum engan áhuga fyrir neinu í því eða að svíkjast aftan að þinginu, þegar það er farið heim.