07.04.1954
Sameinað þing: 45. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 625 í D-deild Alþingistíðinda. (3494)

190. mál, bátasmíðar og innflutningur fiskibáta

Fyrirspyrjandi (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Svo sem kunnugt er, hefur nýsmíði fiskibáta hér innanlands verið næsta lítil nú um nokkurt árabil. Fiskibátaflotinn hefur farið rýrnandi af þeim sökum ár frá ári, allt frá 1947. Af þessu leiðir, að skipasmíðastöðvar í landinu hafa dregizt nokkuð aftur úr tæknilega og skipasmiðir hverfa unnvörpum frá iðn sinni.

Nú er svo komið, að yfir fiskibátaflotanum vofir sú hætta, að skipasmiðastöðvarnar verði þess ómegnugar að annast nauðsynlegustu viðgerðir vegna skorts á skipasmiðum á vissum tímabilum ársins, einkum á meðan vertíð stendur yfir fyrir Suðurlandi.

Skipasmiðir þeir, sem að undanförnu hafa unnið að undirbúningi flotans til veiða fyrir vertíð, standa uppi nær verkefnalausir, þegar þeim undirbúningi er lokið. Viðgerðir á daglegum skakkaföllum bátanna eru þá þeirra eina atvinna, en sökum þess. hve það er óvíst verkefni, horfir nú svo, að á vertíð verði skipasmíðastöðvarnar svo mannlausar, að tiltölulega lítið brot eða skemmd á bát fáist ekki við gert í tæka tíð, svo sem hina brýnustu nauðsyn ber þó til.

Í álitsgerð, sem skipasmiðir í Eyjum hafa gert um vandamál útvegsins og þá um leið sín eigin vandamál, segir m. a., með leyfi forseta:

„Vegna þess, hversu langt er um liðið frá síðustu nýbyggingaframkvæmdum, hafa skipasmíðastöðvarnar tapað miklu af þeim vönu mönnum, lærðum og ólærðum, sem þær höfðu yfir að ráða, og ungir menn hafa nú um skeið ekki ráðizt til náms í þessari iðngrein. Á árunum 1941–47 munu að staðaldri hafa unnið að skipasmíði hér nær 50 manns, en frá 1946 hefur enginn nemandi ráðizt hér til náms í skipasmiði. Sumir þeirra ungu manna, sem á þessum árum námu skipasmíði hér, hafa flutzt burt eða snúið sér að öðrum verkefnum, svo að hér á staðnum eru nú einungis 18 menn með réttindi skipasmíða og þó einungis 15 þeirra, sem vinna við skipaviðgerðir, þegar þeirra þykir þörf.

Þegar þess er gætt, að héðan ganga 70–80 bátar til veiða, liggur í augum uppi, að í undirbúningi vertíða er þetta engan veginn nóg vinnuafl til þess að annast viðgerðir og endurbætur þær, sem svo stór floti útheimtir. Þegar svo þar við bætist, að flestir draga í lengstu lög að hefja framkvæmdir, er óhjákvæmilegt að fjölga mönnum til muna við smíðarnar, ef verða mætti til að öllum nauðsynlegustu lagfæringum yrði lokið í tæka tíð. Sumir þeirra hlaupamanna eru einatt lítt eða ekki vanir smíðum.

Af þeim 18 mönnum hér er réttindi hafa í skipasmíði, eru 9 komnir yfir fimmtugt og þar af 5 yfir sextugt. Hinir eru 29–45 ára gamlir.

Haldi nú fram sem horfir, má fullyrða, að ýmsir þeirra manna og þá sérstaklega hinir yngri, er réttindi hafa og kunnáttu í skipasmíði, leiti fyrir sér um aðra atvinnu og stöðugri, ef fáanleg væri, en óhugsanlegt er, að ungir menn ráðist til náms.

Af framansögðu er fullljóst, að nú brennur þessi kveikur frá báðum endum. Liggur því í augum uppi, í hvert óefni stefnir fyrir skipasmíðastöðvunum og þar með bátaútvegi staðarins í heild, en um þörf útvegsins fyrir skipasmíði verður ekki deilt.

Fyrir utan öll önnur veigamikil rök, sem fram hafa verið færð og öll sanna nauðsyn þess, að Íslendingar byggi sín fiskiskip sjálfir, væru þau fáu atriði, sem bent hefur verið á hér að framan, fullnóg ástæða til, að hið opinbera gerði nú þegar raunhæfar úrbætur í þessum efnum, svo að tryggt verði, að nýsmíði fiskiskipa innanlands geti hafizt svo fljótt sem verða má.“

Undir þessa álitsgerð skrifa nær allir skipasmiðir í Eyjum.

Þessi álitsgerð er í fullu samræmi við þær niðurstöður, sem Iðnaðarmálastofnunin hefur komizt að í sinni merku álitsgerð um athugun á samkeppnishæfni og starfsskilyrðum íslenzks tréskipaiðnaðar, sem birt hefur verið sem opinber skýrsla nú fyrir skömmu, en þar segir í annarri aðalniðurstöðunni:

„Íslenzkum skipasmiðastöðvum er nauðsynlegt að stunda jöfnum höndum viðgerðarvinnu og nýbyggingar til þess að hafa næg verkefni allt árið.“

Það virðist líka vera, að innan ríkisstj. sé nokkur skilningur á þessum hlutum, a. m. k. verður það ráðið af samtali, sem Morgunblaðið átti við hæstv. viðskmrh. og birt er þann 13. okt. s. l., en þar segir ráðh. m. a., með leyfi forseta:

Ríkisstj. telur sjálfsagt, að unnið verði að því, að innlendar skipasmíðastöðvar annist framvegis byggingar fiskibáta fyrir íslenzka útgerð. Er eðlilegt, að iðnaðarmenn og þá ekki sízt Iðnaðarmálastofnunin verði ríkisstj. til leiðbeiningar um það, á hvern hátt skipasmiðastöðvarnar geti unnið þessi verk, án þess að útgerðin sæti mun verri kjörum.“ Þar mun vera átt við: mun verri kjörum en með því að kaupa fiskiskip erlendis frá.

Með tilvitnun til þessa þykir mér nokkuð hafa dregizt, að ríkisstj. legði fram sínar raunverulegu till. til úrbóta í þessu máli. Þess má geta, að frv. það, sem hér liggur fyrir í þinginu til afgreiðslu um breytingar á tollskrá, miðar nokkuð í þessa átt, en er hins vegar ófullnægjandi til þess að hrinda af stað skipasmíðunum. Fyrir því hef ég freistað þess að fá nokkra grg. frá hæstv. ríkisstj. um þessa hluti með því að bera fram þá fsp., sem hér liggur nú fyrir til umr. og er í tveim liðum, þannig, með leyfi forseta:

„Hefur ríkisstj. undirbúið eða hafizt handa um nokkrar þær ráðstafanir, sem verða mættu til þess, að eðlileg nýsmíði fiskibáta geti farið fram hér innanlands? Ef svo er, hverjar eru þá fyrirætlanir ríkisstj.?“

Og í öðru lagi: „Hefur ríkisstj. í hyggju að leyfa innflutning; fiskibáta á yfirstandandi ári?“