07.04.1954
Sameinað þing: 45. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 627 í D-deild Alþingistíðinda. (3495)

190. mál, bátasmíðar og innflutningur fiskibáta

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Fsp. þær á þskj. 609 frá hv. landsk. þm. (KGuðj), sem hér eru til umr., eru ef til vill eðlilegar í sambandi við það, sem fram hefur farið áður um bátasmíði og innflutning báta.

Eins og kunnugt er, hafa bátasmíðar legið niðri undanfarin 3–4 ár hérlendis, engir bátar smíðaðir á árunum 1950–52, en á seinni hluta s. l. árs var nokkuð hafizt handa í þessu efni, og eru nú í smíðum 9 fiskibátar í 8 skipasmíðastöðvum. Má þess vegna segja, að þetta sé nokkur framför frá því, sem var, á meðan ekkert var byggt, og hygg ég, að flestir geri sér ljóst, að þessu verður ekki kippt í lag öllu í einu, m. a. vegna þess, að það er rétt, sem hv. þm. sagði hér áðan, að skipasmíðastöðvarnar hafa vegna verkefnaleysis misst marga af sínum föstu starfsmönnum og fagmönnum og eru sumar hverjar í dag, þótt þær hefðu öll önnur skilyrði, ekki starfshæfar, vegna þess að þær hafa ekki menn. Þess vegna þarf engan að undra það, þótt ekki sé enn kominn sérstakur fjörkippur í bátasmíðar innanlands, það hlýtur að eiga nokkurn aðdraganda.

Hv. ræðumaður vitnaði í ummæli mín 13. okt., sem birtust í Morgunblaðinu, þar sem ég hélt því fram, að ríkisstj. mundi vinna að því, að bátar verði hér eftir byggðir innanlands. En ég segi það sama nú. Ríkisstj. hefur unnið að því frá því í haust að koma þessum málum á það stig, að þetta geti orðið, og hún mun halda áfram að gera það, þannig að stefnir að því, að innan tiltölulega lítils tíma verði unnt að byggja bátana innanlands, en hætt kaupum erlendis frá.

S. l. haust var gefið leyfi fyrir 21 fiskibát til landsins, og ég man ekki, hvort hv. fyrirspyrjandi fjandskapaðist út í þetta, en ég man, að hans flokkur og Þjóðviljinn gerðu það. En innflutningur þessara báta var alveg nauðsynlegur vegna þess, að bátafloti landsmanna hafði rýrnað úr hófi fram og við stóðum frammi fyrir þeirri staðreynd, að ef ekki væri strax bætt úr þessu með því að leyfa innflutning á bátum, þá hlyti framleiðslan að dragast saman, því að bátasmíði innanlands hlaut að hafa nokkurn aðdraganda, og mér hafa sagt bátasmiðir, að það taki a. m. k. eitt ár að smíða hvern bát. Jafnvel þótt unnið hefði verið að því strax á s. l. hausti að smíða 20 eða 30 báta innanlands, þá hefði enginn af þeim bátum verið til nota á yfirstandandi vertíð. Nú vil ég upplýsa hv. fyrirspyrjanda um það, að 10 af þessum bátum hafa farið til Vestmannaeyja, og það eru líkur til, að þessir bátar afli á yfirstandandi vertíð ekki aðeins fyrir þeirri upphæð, sem látin var í erlendum gjaldeyri fyrir bátana, heldur kannske tvöfalt þeirri upphæð. Hefði nú verið nokkur búmennska í því að neita Vestmanneyingum og öðrum á s. l. hausti um þessa báta og láta þá vera í landi og halda að sér höndum og hætta að afla þjóðinni gjaldeyris? Ég held ekki. Og ég er alveg sannfærður um það, að Vestmanneyingar eru ekki þakklátir kommúnistum og öðrum þröngsýnum mönnum, sem skömmuðust út í stjórnarvöldin á s. l. hausti fyrir leyfisveitingar á þessum bátum. Hitt er svo allt annað mál, að það ber að stuðla að því, að bátarnir verði byggðir innanlands, og sú skýrsla, sem hv. þm. las hér upp úr áðan frá Iðnaðarmálastofnun Íslands, er til orðin vegna þess, að ég lagði fyrir, að Iðnaðarmálastofnunin gerði þessa athugun. Þessi skýrsla hefur töluverðan fróðleik að geyma og talsverðar upplýsingar að færa, og má töluvert af þessari skýrslu læra. Ríkisstj. mun byggja á þessari skýrslu sínar athuganir og það, sem hún nú hugsar sér að gera, til þess að bátasmíðar geti orðið innanlands meira en verið hefur.

Ég veit ekki, hvort það er ástæða til að þreyta hv. þm. á því að fara að lesa hér upp skýrslur og sízt vegna þess, að það er hægt að ganga að þeirri skýrslu. sem nú liggur fyrir frá Iðnaðarmálastofnuninni. En sé miðað við vissa stærð báta, sem byggðir eru innanlands, en það eru bátar 60–70 tonn og kannske allt upp í 100 tonn, þá má reikna með, að 29% af bátaflotanum séu innanlandsbyggðir bátar. Mest var byggt á árunum 1945 og 1946. En eins og ég sagði áðan, þá var ekkert byggt á árunum 1950–52. Byggingarkostnaður innanlands er nokkuð hár, eins og kunnugt er, eða allt upp í 20 þús. kr. á tonn. Sé reiknað með, að dregnir séu frá tollar, söluskattur og bátagjaldeyrir, þá kostar samt báturinn með vél og öllu saman um 20 þús. kr. á tonn, ef hann er byggður innanlands.

Ég veit um einn mann, sem er að láta byggja innanlands, og hann gengur ekki að því gruflandi, að báturinn verður dýrari fyrir það. En hann segir: Ég vil heldur þennan bát, vegna þess að ég fylgist með byggingunni og þessi bátur verður vandaðri og betri en innfluttur bátur. — Hann vill það heldur, þótt hann verði nokkru dýrari en útlendur bátur. Eigi að síður verður að keppa að því, að innlendir bátar verði að verði til ekki miklu hærri en útlendir bátar. En hvernig á að fara að því? Einn liðurinn eru tollarnir, bátagjaldeyririnn og söluskatturinn. Mér finnst sjálfsagt, að það verði endurgreitt af bátum, sem eru smíðaðir innanlands. En samkvæmt skýrslu Iðnaðarmálastofnunarinnar er það ekki nóg. Samkvæmt þeirri skýrslu munar samt á heimabyggðum bát og innfluttum bát 2300 kr. á tonn eða á 50 tonna bát 135 þús. kr. Og það er nokkuð mikill munur. Það hafa komið fram till. um það, að þennan verðmun ætti að greiða beint úr ríkissjóði. Það eru vitanlega ýmis tormerki á því að gera það, þótt ýmsum muni ekki blöskra sú upphæð, sem árlega færi í það. Ef gert væri ráð fyrir, að byggðir væru innanlands árlega 20 bátar og að það þyrfti að gefa með hverjum bát auk tolla og söluskatts og bátagjaldeyris 135 þús. kr., þá eru það 2.7 millj. kr. Ég veit, að ýmsir mundu segja: Þetta er ekki sú upphæð, að menn þurfi að láta sig sundla yfir því. — En spurningin er, hvort þetta er hin rétta braut, sem ber að stefna að. Það eru þessar meðgjafir, sem oftast nær lenda í vandræðum og hlaða utan á sig, og nauðsynlegt er, ef hægt væri að finna einhverja aðra leið en þessa.

Til þess að auðvelda bátasmíðar innanlands þyrftu bátasmíðastöðvarnar að hafa meira verksvið en þær hafa nú. Og ríkisstj. er með það í athugun, hvernig á að leysa þá þörf. Hv. fyrirspyrjandi undrast yfir þeim seinagangi, sem hefur verið hjá ríkisstj., að hún skuli ekki hafa nú á borðinu öll ráð til þess, að þetta mál sé leyst. En ef þetta væri svona auðvelt eins og hv. fyrirspyrjandi hyggur, þá væri það alveg óafsakanlegt að hafa nokkurn tíma látið skipasmíðastöðvarnar hætta. Þær hættu skipasmíðum vegna hinna margháttuðu erfiðleika, sem þær gátu ekki yfirstigið. Og ef nú er verið að vinna að því að brúa þetta bil og yfirvinna þessa erfiðleika, þá held ég, að það sé ósanngjarnt af fyrirspyrjanda og öðrum að lýsa óánægju sinni yfir, að eftir tiltölulega fáa mánuði skuli ekki hnúturinn vera algerlega leystur. Þeir, sem kaupa fiskibáta, hvort sem þeir eru innlendir eða erlendir, hafa fengið lán úr fiskveiðasjóði. Þeir hafa fengið 50% af kostnaðarverði bátsins með 4% vöxtum til 20 ára. Þeir hafa fengið 25% vaxta- og afborgunarlaust í 5 ár, síðan hafa þeir greitt afborganir í 5 ár, en enga vexti, en svo vexti og afborganir í næstu 5 ár, eins og af 1. veðréttar láni. Þetta eru góð kjör, sem fiskveiðasjóður hefur gefið, en það, sem fiskveiðasjóð vantar, er aukið fé, til þess að hann geti innt þessar greiðslur af hendi. Og ef menn eru sammála um það að létta eitthvað undir með nýsmiði báta, þá fyndist mér það engin fjarstæða, að lánskjörin úr fiskveiðasjóði til innlendra báta væru betri en til þeirra báta, sem væru keyptir erlendis frá. Á þann hátt væri hægt að brúa bilið a. m. k. að nokkru, eða þessar 2300 kr. á tonn, sem ég nefndi áðan. Þetta er sem sagt til athugunar, og fyndist mér það vera eðlilegt, að bátar, sem væru byggðir innanlands, fengju þannig betri lánskjör en þeir bátar, sem væru fluttir inn.

Við vitum, að það hafa margir áhuga á því að efla fiskveiðasjóðinn af þessari brýnu nauðsyn, og er það í undirbúningi og athugun, hvernig það megi gerast, svo að lánaþörfinni verði fullnægt.

Ég veit ekki, hvort það er ástæða til þess að fara öllu fleiri orðum um þennan lið till. Ég vænti þess, að hv. fyrirspyrjandi sé eftir atvikum ánægður með þær upplýsingar, sem ég nú hef gefið, að ríkisstj. er að vinna að þessu máli, hefur hug á því að leysa þetta, hefur fullan skilning á því, að það er nauðsynlegt, að bátasmíðastöðvarnar séu starfandi, ekki sízt vegna þess, að það þarf þó alltaf að láta viðgerðir báta fara hér fram, en viðgerðir á bátum hljóta að verða dýrari og jafnvel óframkvæmanlegar hér, ef ekki eru bátasmiðir og bátasmíðastöðvar starfandi. Þetta er öllum ljóst.

Um annan lið till., hvort ríkisstj. hafi í hyggju að leyfa innflutning á bátum á yfirstandandi ári, þá get ég upplýst hv. fyrirspyrjanda um það, að innflutningur á bátum hefur ekki verið leyfður síðan í haust, að undanteknum einum bát til Vestmannaeyja, — ég held, að skipstjórinn heiti Þorvaldur Guðjónsson. Hann missti bátinn í fárviðri, og til þess að hann gæti nú farið á vertíð í Vestmannaeyjum og notað þann mannskap, sem hann var búinn að ráða til sín, þá var honum veitt leyfi til þess að nota vátryggingarféð til kaupa á nýjum bát, en hann gat fengið ágætan bát fyrirvaralaust í Þýzkalandi. Sá bátur er nú að veiðum í Vestmannaeyjum, og ég vænti þess, að hv. fyrirspyrjandi sé ekki óánægður með þessa ráðstöfun. Önnur leyfi hafa ekki verið veitt síðan á s. l. hausti, og það er mjög til athugunar hjá ríkisstj. að veita ekki leyfi fyrir útlendum bátum, heldur gera mögulegt að byggja bátana innanland,s og uppfylla þá rýrnun og þá eðlilegu aukningu á bátaflotanum, sem nauðsynleg er, með því að byggja þá innanlands. Hitt getur vitanlega alltaf átt sér stað. að það sé nauðsynlegt, t. d. ef bátur ferst, að veita einhverjar undanþágur frá þessu, en það er óhætt að fullyrða og upplýsa það, að enn hefur ekki verið tekin nein ákvörðun um að flytja inn báta á þessu ári.