07.04.1954
Sameinað þing: 45. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 631 í D-deild Alþingistíðinda. (3497)

190. mál, bátasmíðar og innflutningur fiskibáta

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það er sýnt af upplýsingum þeim, sem hv. 9. landsk. gaf hér áðan, að það er komið í mjög mikið óefni í sumum stærstu verstöðvum landsins, þegar skipasmíðastöðvar eru búnar að missa lærða skipasmíði svo mjög, að um hávertíðina er ekki hægt að fá framkvæmdar viðgerðir á fiskiskipaflotanum. En þetta var upplýst hér á Alþ., að að þessu stefndi fyrir meir en ári, í byrjun síðasta þings, þegar ég og hv. 5. landsk. þm. (EmJ) fluttum frv. á Alþ. um innlendar skipasmíðar. Í því frv. var lagt til, að niður yrðu felldir allir tollar og söluskattur af efni og vélum í innlend fiskiskip, sem smíðuð væru í íslenzkum skipasmíðastöðvum.

Í sambandi við flutning þessa frv. var það upplýst eftir rannsókn Fiskifélags Íslands, að skipasmiðastöðvarnar væru að verða óstarfhæfar, vegna þess að þær hefðu ekki tekið neinn nemanda í skipasmiðum og þær gætu ekki haldið í stöðugri vinnu hjá sér þeim skipasmíðum, sem þær hefðu haft, þegar ekkert væri verkefnið annað en stopular viðgerðir á fiskiflotanum.

Þetta frv. fékk nú góðar undirtektir. Ég man, að hv. form. Sjálfstfl., núverandi hæstv. forsrh., sagði, að þetta væri mjög þarft og gott frv. og hann og hans flokkur mæltu sterklega með því, að það væri samþ. En það var nú samt ekki samþ., samkvæmt þeirri föstu reglu, í þessu okkar ágæta lýðræðislandi, að ekkert mál, hversu gott sem það sé, ef það kemur frá stjórnarandstöðunni, skuli ná fram að ganga. En það var gert dálítið í þessa átt, því að hæstv. ríkisstj. fékk sér heimild á fjárl. til þess að feila niður alla tolla og skatta af efni í íslenzk skip, sem smíðuð væru í íslenzkum skipasmíðastöðvum, og mætti endurgreiða það, þegar sönnur hefðu verið færðar á, að slíkur bátur hefði verið smíðaður. Þessi niðurfelling virðist nú hafa borið nokkurn árangur til lausnar þessu máli, þar sem núna er upplýst, að það hafi nokkrir bátar verið byggðir í íslenzkum skipasmíðastöðvum og 9 séu í byggingu. En samt er eftir að ganga þannig frá málinu, að íslenzk skipasmíði sé samkeppnisfær við erlendar skipasmíðastöðvar, þar sem verðmismunur er talinn á meðalfiskibátum um 135 þús. kr. Til þess að tryggja smíði 10 íslenzkra báta hér innanlands þyrfti sem sé að verja 1350 þús. kr., og mundi nú einhverjum sýnast, að það væri tilvinnandi til þess a. m. k. að geta haldið svo við kunnáttu í að smíða fiskibáta, að við séum ekki alveg upp á útlendinga komnir með það allt saman og þurfum að fara að flytja inn útlenda skipasmíði til þess að annast viðhaldið á bátunum okkar, en þá væri sannarlega í óefni komið, líkt og þegar við erum farnir að flytja inn íslenzka sjómenn til þess að starfa á bátunum.

Mér finnst, að það þurfi að ganga þannig frá þessu máli, að málið sé að fullu leyst, svo að íslenzkar skipasmíðastöðvar geti fengið unga menn til að læra skipasmíði og haft verkefni og viti það, að þær hafi verkefni fram undan til þess að hafa einhverja fasta skipasmíði í sinni þjónustu, því að annars lendum við í þessu, sem nú blasir við í Vestmannaeyjum og kannske víðar, að ekki sé hægt að fá viðgerðir á bátunum um hávertíðina, af því að lærðir skipasmiðir eru ekki fyrir hendi; eru komnir í aðra atvinnu, vegna þess að þeir hafa ekki átt kost á atvinnunni nema 2–4 mánuði ársins.

Það er alveg augljóst mál, að við verðum annaðhvort að fá fiskibátaflotann okkar endurnýjaðan með smíði innanlands eða með því að flytja báta frá útlöndum. Það var gert á s. l. ári vegna þeirrar margra ára vanrækslu, sem hafði verið í þessum efnum, að halda flotanum við, að kaupa inn 21 bát. En þá kom í ljós, að það vantaði 20 skipshafnir, og varð að flytja þá 300 útlendinga inn í landið til þess að manna þessa báta eða aðra í þeirra stað. Og það virðist þess vegna hafa verið mjög vafasöm ráðstöfun, og a. m. k. deili ég ekki um það, að þessi ráðstöfun hefur ekki verið spor í þá átt að tryggja íslenzkan skipasmíðaiðnað innanlands. Það var spor í öfuga átt með tilliti til þess.

Ég er alveg sammála hæstv. ráðh. um það, að það þarf að gera skipasmíðastöðvunum mögulegt að hafa faglærða menn í sinni þjónustu, og það verður ekki gert með öðru en að gera það öruggt, að skipasmíðastöðvarnar hafi verkefni við nýsmíði auk viðhaldsins, sem til fellur á vissum tímum ársins. Og ég fellst einnig á það, að það muni vera langlíklegasta leiðin að hafa betri lánakjör á vélbátum, sem smíðaðir eru innanlands, heldur en til vélbáta, sem keyptir eru frá útlöndum. En mér finnst bara, að svo alvarlegt sé útlitið orðið, að hæstv. ríkisstj. megi ekki lengi draga að gera skipasmíðastöðvunum ljóst, að þær megi treysta því, að íslenzkur skipasmiðaiðnaður verði gerður lífvænn með t. d. ráðstöfunum í þá átt að tryggja betri lán til innlendra skipa, sem smíðuð eru af Íslendingum sjálfum.