02.10.1953
Sameinað þing: 1. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 18 í B-deild Alþingistíðinda. (3507)

Rannsókn kjörbréfa

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil í sambandi við þessar umræður, sem hér hafa farið fram, vekja eftirtekt á því, um leið og ég tek undir þær athugasemdir, sem hér hafa verið fram bornar, að það voru ekki aðeins utankjörstaðaatkvæðagreiðsluseðlarnir, sem kosið var á, sem voru varhugaverðir í þessu sambandi, heldur líka seðlarnir, sem kosið var á í kjördeildunum. Það var strax kvartað yfir því að morgni dags hér í Reykjavík, að þegar menn stungu atkvæðaseðlunum í kassann, þá mátti, ef vel var bjart í stofunni, sjá í gegn. Það þarf þess vegna mjög vel að athuga þetta, ekki aðeins hvað þá atkvæðaseðla snertir, sem kosið er á utan kjörstaða, heldur líka hvað snertir þá, sem kosið er á í kjörstöðunum sjálfum.

Það mun rétt, bæði sem hv. 3. landsk. sagði hér og hæstv. dómsmrh., að við þessu er ekkert hægt að gera héðan af. Það mundi víst enginn leggja til að láta kjósa upp aftur út af þessu. En það er viðvíkjandi því, sem hæstv. dómsmrh. sagði nú síðast um, hvort það hefði nokkurs staðar haft nokkur áhrif. Það verður náttúrlega aldrei hægt að sanna neitt í slíkum efnum. Það er einn einasti kjörstaður, þar sem mikið var kosið utan kjörstaða, þar sem ótti var allmikill út af þessu, því að það fór satt að segja nokkuð snemma að bera á þessu í utankjörstaðaatkvgr., og það var á Keflavíkurflugvelli, þar sem menn af öðrum ástæðum hafa haft ástæðu til þess að óttast sérstaklega, að njósnað væri um skoðanir manna. Almennt vildu menn ekki í blöðum fara að gera mjög mikið úr þessu, því að það var gefið, að það gat bókstaflega orðið til þess að hræða menn. En einna helzt hefði verið hugsanlegt, að þetta hafi haft bein áhrif á atkvæðagreiðslu fyrir þann fjölda, sem vinnur á Keflavíkurflugvelli og á kosningarrétt hér og hvar úti um land, en í þessu sambandi verður náttúrlega aldrei hægt að sanna nokkurn skapaðan hlut, það liggur í augum uppi. Þess vegna er ég alveg sammála því, að héðan af sé ekki um annað að ræða heldur en að reyna að sjá um, að þessi mistök eigi sér ekki stað, og fagna að því leyti þeirri yfirlýsingu, sem hér hefur komið fram um, að úr þessu verði bætt og þetta víti varazt við næstu kosningar, og það þarf að gerast ekki aðeins um utankjörstaðaatkvæðaseðlana, heldur líka um þá, sem kosið er á á kjörstaðnum.