02.10.1953
Sameinað þing: 1. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 20 í B-deild Alþingistíðinda. (3509)

Rannsókn kjörbréfa

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég er ekki sérfræðingur í því, hvernig eigi að múta mönnum til að greiða atkvæði, og skal leiða hest minn frá því að ræða um það hér, heldur snúa mér beint að málinu.

Hv. þm. hélt því fram, að ég hefði vitað um það ætíð, að pappírinn við margar undanfarnar kosningar væri ekki góður. Það var ekki rétt hermt, sem hv. þm. sagði um þetta. Í mínum orðum fólst ekki annað en það, að við athugun kom í ljós, að pappírinn var mjög svipaður og sízt lakari að gerð heldur en hann hafði verið um alllangt árabil, og ég óskaði strax eftir athugun á þessu, þegar athugasemdir komu fram; þá óskaði ég skýringar á því, hvernig á þessu stæði. Auðvitað er mér ljóst, að sumir munu halda því fram, að ráðh. hefði sjálfur átt að velja pappírinn. Þannig hefur þetta ekki verið í framkvæmd, heldur hefur sérstökum trúnaðarmönnum verið falið að annast þetta starf ráðuneytisins, eins og svo mörg önnur störf, sem undir ráðuneyti heyra, og er ég ekki með því að bera neinar sakir af mér og allra sízt að bera sakir á aðra, heldur einungis að segja frá því, að með þetta var farið alveg með sama hætti eins og gert hefur verið, að því er mér er tjáð, alla tíð. Og í skýrslu, sem ég hef fengið um þetta, segir:

„Pappír þessi var af svipaðri gerð og pappír sá, sem notaður hefur verið í utankjörfundagögn í öllum kosningum frá lýðveldiskosningunum 1944, ag frá verksmiðjunnar hendi talinn öldungis hinn sami og 1946, en þó dálítið betri í raun og veru, vegna þess að þá var um stríðsframleiðslu að ræða. Ráðuneytið átti því aðeins val um, hvern litinn skyldi nota, og varð rauðbleiki liturinn fyrir valinu. Bláa litinn mátti ekki nota, þar sem hann var síðast, og gula litinn var ekki talið rétt að nota, þar sem hann var notaður í næstsíðustu kosningum.“

Þetta er skýrsla um pappírinn, og við þá skoðun, sem ég hef sjálfur gert á pappírnum, virðist þetta rétt. Ég er enginn sérfræðingur í pappír, en mér virtist það vera rétt, að pappírinn væri mjög svipaður að gerð og verið hefði.

Mjög alvarlegt getur þetta ekki verið, eins og hv. þm. vildi halda fram, úr því að enginn athugasemd hefur komið fram um þetta við undanfarnar kosningar. Það er ekki fyrr en eftir að úrslít eru orðin kunn í þeim kosningum, sem voru háðar í sumar, sem þetta er gert að verulegu umkvörtunarefni: Það var nokkuð farið að tala um þetta manna á milli. Ég heyrði það á kjördag, en ekki fyrr. Það getur verið, að það hafi verið talað um það sums staðar áður. Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að það hefði verið rætt um það á Keflavíkurflugvelli fyrr. Ég hafði ekki heyrt þær umræður, en víst er það, að verulegt blaðamál varð ekki úr þessu fyrr en hv. þm., sá sem hreyfði þessu nú hér fyrst, gerði það að umræðuefni í blaði sínu, eftir að úrslítin í kosningunum voru orðin kunn.

Ég sé í sjálfu sér ekki ástæðu til þess að fjölyrða mikið um þetta. Ég viðurkenni það fúslega, að pappírinn er ekki eins góður og vera ber, og tel, að úr því þurfi að bæta, og skal ekki rekja frekar en ég er búinn að gera orsakirnar til þeirra mistaka. En þó að um mistök sé að ræða, þá vil ég halda fast við það, að sem betur fer hafi það ekki leitt til neinnar misnotkunar, enda eru engin ákveðin dæmi nefnd um það.