05.10.1953
Neðri deild: 2. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í B-deild Alþingistíðinda. (3526)

Kosning fastanefnda

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Mér sýnist svo augljóst, að vart geti orkað tvímælis, að hér sé um mistök að ræða, og það geta legið mjög eðlilegar ástæður til þeirra mistaka, þar sem við nú erum að enda við kosningu í fjórum nefndum og flokkarnir höfðu þá annað listanafn heldur en nú. Það er þess vegna ekkert óeðlilegt, þótt slík mistök geti komið fyrir. — Ef hér er um vilja ákveðins þingmanns að ræða um að styðja Sósfl. í þessa n., þá kemur sá vilji væntanlega fram, þótt kosið sé aftur. Ég trúi hinu ekki um hv. þm., Einar Olgeirsson, að hann sæki fast að komast í nefnd af slysni. Aðalatriðið er, að ef vilji er fyrir hendi um að kjósa Sósfl., þá kemur hann alveg fram, þótt þetta verði sannprófað aftur. M.ö.o.: Ef á að sannprófa, hvort um vilja þingsins er að ræða, þá er rétt að láta kjósa aftur. Vilji menn hins vegar sigla inn á slysni, þá má halda dauðahaldi í þessa slysni og ná nefndarsæti með því, en ég hefði ætlað hv. þm. stoltari mann en svo, að honum þætti líf liggja við að krækja sér í nefndarsæti á slysni.

Ég er ekkert minnugur maður, en eitthvað rámar mig í, að orka þætti tvímælis einhvern tíma — og ekki fyrir löngu — hvort bókstafur ætti að lesast með einum hætti eða öðrum, og þá var talið rétt að kjósa um, enda þótt flestir læsir menn teldu, að glöggt væri, hver bókstafurinn væri, en menn sögðu: Við skulum skera úr, svo að ekki orki tvímælis. — Það þótti þingheimi hið rétta frelsi í þessum efnum, og svo er enn. Ég mælist því eindregið til, að hæstv. forseti haldi fast við þann úrskurð, sem hann kvað upp.