10.04.1954
Sameinað þing: 47. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1662 í B-deild Alþingistíðinda. (3531)

Fjárhagur ríkissjóðs 1953

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að bera fram þakkir til hæstv. fjmrh. fyrir þetta greinargóða og fróðlega yfirlit yfir afkomu ársins 1953, þótt ég hefði haldið og hafi haldið alveg fram að þessu, að það mundi koma með nokkuð öðrum hætti en raun varð hér á, og skal ég víkja að því síðar.

Þegar maður hlýðir á upplýsingar hæstv. ráðh., verður manni ósjálfrátt að hugsa aftur í tímann, aftur til þess, þegar verið var að afgr. fjárl. fyrir 1953. Þá sagði hæstv. ráðh. okkur þm., að það væri með öllu ógerlegt, óverjandi að hækka um eina eða tvær millj. þá upphæð, sem þá var ákveðin til útgjalda, fjárl. væru þannig samin, að meiri líkur væru til þess, að tekjur og gjöld stæðust ekki á, eða réttara sagt næðust ekki þær tekjur, sem áætlaðar væru, heldur en hitt, að tekjurnar yrðu meiri. Nú upplýsir hann að vísu, að hann hafi haft bakþanka um 25 millj. innflutningsgjöld af vélum, sem kann að vera að hann hafi eitthvað drepið á og þá mjög á lægri tónunum eða á nefndarfundum. En hv. þm. muna það án efa allir, hversu það var röggsamlega útskýrt af hæstv. ráðh. þá, að hér væri svo langt gengið í áætlun um tekjumöguleika og skattálögur á þjóðina, að það væri ekki gerlegt, ekki verjandi að fara lengra, þar með væri traust þjóðarinnar glatað úti, allar vonir um peninga þaðan að láni að engu gerðar o. s. frv., o. s. frv. Og án efa hafa hv. þm. trúað þessu, því að allar brtt., sem til hækkunar voru, voru kolfelldar, eins og kunnugt er.

Nú upplýsir hæstv. ráðh., að fyrir góða fjármálastjórn, — geri ég ráð fyrir, hann sagði það nú ekki að vísu, því að hann er ekki raupsamur maður venjulega, — þá hefði nú farið svo, að tekjurnar hefðu farið 21% fram úr þessari naumu áætlun og orðið hvorki meira né minna en 506 millj. og 600 þús. kr. Í sjálfu sér má segja, að þetta séu góð tíðindi, það er rétt. Það er vottur um, að það hefur árað vel og miklir peningar í veitu, og sízt skal það harmað, að svo er. En það sýnir og sannar a. m. k. það, að spádómsgáfa hæstv. fjmrh. er ekki alveg óyggjandi.

Ég hafði frétt af því, að tekjuafgangurinn mundi verða eitthvað svipaður því, sem nú hefur upplýstst, að hann hefur reynzt, og af því leyfði ég mér að draga þá ályktun, að hæstv. ríkisstj. mundi leggja fyrir þetta Alþ. frv. til l. um ráðstöfun á tekjuafgangi ársins 1953. Og ég hygg, að allflestir hv. þm. hafi gert ráð fyrir einhverju slíku, eftir að þeir fréttu, hversu góð útkoma ársins í raun og veru varð. Ég átti því von á því, að hæstv. ráðh. mundi ljúka þessum lestri sínum hér með því að leggja fram till. eða frv. um ráðstöfun tekjuafgangsins.

Listi hæstv. ráðh. yfir umframtekjur, þ. e. a. s. tekjur umfram áætlun á einstökum liðum, var hinn fróðlegasti fyrir þá, sem muna þá hárnákvæmu útreikninga, sem fóru fram hér á þingi af hans hálfu um, hvað gerlegt væri að áætla hæst. Er fróðlegt að sjá, að verðtollurinn hefur ekki orðið 109 millj., eins og var það ýtrasta, sem þanþolið leyfði, eins og hann orðaði það þá; hann varð 143 millj., einar litlar 34 millj. umfram eða um 34%. Og söluskatturinn, sem ómögulegt var að hækka upp í 90 millj. einu sinni úr 89.5 millj., — það var hnitmiðað upp á hundrað þúsund, — hann reyndist nú samt 107.7 millj. Svona mætti lengi telja. Ég tek bara þessi dæmi til að sýna, í hverju hækkanirnar liggja.

En hæstv. ráðh. hefur nú ekki séð ástæðu til að leggja fram neinar till. eða frv. um ráðstöfun umframteknanna, heldur upplýsir hann hér, að hann eða hæstv. ríkisstj. sé í raun og veru búin að ráðstafa þessum tekjum öllum án þess að spyrja Alþ. þar um, að einhverju leyti, held ég að hann hafi sagt, í samvinnu eða samráði við fjvn. Ég veit ekki til þess, að það séu nein lög til þess, að fjvn. hafi neitt að segja um þessi mál öðruvísi en í tillöguformi til hv. Alþ.

En svo kemur það furðulegasta af öllum þessum fróðlegu upplýsingum. Það er, að mér skildist hæstv. ráðh. reikna út, að útgjöldin samkv. fjárlagalið hefðu staðizt alveg prýðilega. Að vísu var nú eitthvað dálítið á reiki prósentuútreikningurinn hjá honum í því sambandi. Mér skilst, að seinast hafi hann verið kominn niður í það, að fjárlagaliður útgjaldanna hafi ekki farið nema 2.6% fram úr áætlun. Að vísu voru nokkur tilbrigði á þeim reikningi, t. d. dæmin sett ýmislega upp, en það er a. m. k. óhagganlegt, að hann taldi, að hækkanir fjárlagaliða útgjaldanna hefðu orðið ákaflega litlar, og virtist telja það bera vott um, að fjármálastjórnin og eftirlitið hefðu verið í góðu lagi, sem það án efa hefur verið, ef ég hef skilið síðasta reikningsdæmið rétt. Á yfirlitinu, sem hér er lagt fyrir, virðist mér þó, að rekstrarútgjöldin hafi farið fram úr áætlun um 31 millj. kr. eða eitthvað á milli 7 og 8%, enda mun ráðh. einhvern tíma hafa nefnt þá tölu, þó að hann hafi fengið lægri töluna út aftur seinna.

Af þessum umframtekjum, tekjum umfram áætlun, 21% eða 88 millj. kr., hafði Alþ. síðasta, sem afgr. fjárl., gert ráð fyrir, að greiddar yrðu samkvæmt 20. gr. afborganir lána um 16 millj. kr. og nokkrar aðrar tilfærslur í eignareikningi. Þessi grein hefur breytzt töluvert mikið í meðförum hjá hæstv. ráðh. Hún hefur breytzt þannig, að hann telur nú, að greiðslur út á eignareikningi 20. gr. hafi numið eitthvað um 56 millj. kr. í stað þess, sem þar var áætlað í fjárl., og þá eru þó eftir, skilst mér, þegar búið er að draga frá það, sem inn kemur á þessum sama reikningi, 33 millj. kr., sem hæstv. ráðh. telur þann eiginlega greiðsluafgang; það sem eftir er af 88 millj. kr. umframtekjunum sem greiðsluafgangur, þegar hann er búinn að teygja 20. gr. þannig, að útgjöldin á henni verða um 56 millj. kr.

Nú skyldi maður halda, að hann léti þó Alþ. eftir að ráðstafa a. m. k. þessum 38 millj. kr., þegar búið er að færa á 20. gr. allt það, sem hann taldi hér upp og samtals nemur um 56 millj. kr. En það er nú eitthvað annað en að það sé uppi á teningnum. Hæstv. ráðh. upplýsti, að ríkisstj. væri nú búin að ráðstafa 36 millj. kr. af þessum 38 millj. kr. og mætti þá telja, að til ráðstöfunar væru um 2 millj. kr.

Hæstv. ráðh. nefndi mjög mikið af tölum, gerði það skýrt og skipulega, eins og hans er vandi, og bið ég afsökunar á því, ef ég skyldi eitthvað hafa ruglazt í reikningunum, en þetta var það, sem mér skildist vera niðurstaðan hjá hæstv. ráðherra:

88 millj. kr. umframtekjur á tekjuliðum fjárl., 84 millj. kr. rekstrarhagnaður, 38 millj. kr. greiðsluafgangur á pappírnum, 2 millj. kr. greiðsluafgangur, sem mætti e. t. v. telja til ráðstöfunar, — þetta eru niðurstöðurnar, sem ég hef fengið út úr upplýsingum hæstv. ráðh.

Ég skal ekki fara út í það, enda ekki hægt eftir þessum stuttu upplýsingum, sem ráðh. gaf um einstaka liði, að meta nauðsyn eða þörf þeirra einstöku útgjaldaliða, sem hæstv. ráðh. taldi upp, en það vil ég fullyrða, að hér er alveg gengið á svig við það, sem teljast verður þingleg háttsemi af hæstv. ríkisstj., að taka sér vald til þess að ráðstafa án samráðs við Alþ. þeim feiknaupphæðum, sem hér er um að ræða. Ég verð að harma það mjög, að þessi háttur er á hafður. Ég taldi það til fyrirmyndar, þegar hæstv. ríkisstj. fyrir nokkru lagði það undir samþykki Alþ., bar fram frv. til laga um ráðstöfun á alveg sérstökum og óvenjulegum tekjuafgangi, og ég vænti þess, sérstaklega af þessum hæstv. ráðh., að hann mundi halda þessum upptekna hætti, en ekki koma hér, þegar liðnir eru fjórir mánuðir bráðum af árinu, og segja: Að vísu fóru tekjurnar 88 millj. kr. fram úr áætlun þingsins, en það er bara búið að ráðstafa þessu öllu; þið skuluð ekki hafa neitt um það að segja.

Í þessu sambandi mætti kannske minnast á frv., sem hefur legið hér fyrir þinginu frá því mjög snemma á þingi. Það er frv. um heimild fyrir ríkisstj. til þess að greiða upp í halla Tryggingastofnunarinnar um 4 millj. kr., þannig að hún þurfi ekki að éta úr þeim sjóði, sem hún hefur safnað á undanförnum árum. Mér var svarað því, þegar ég leitaði eftir undirtektum hæstv. ríkisstj. í þessu efni, að vonir stæðu til og líkur, að af tekjuafgangi ársins 1953, sem ég frétti að væri eitthvað svipað og hæstv. ráðh. hefur upplýst, mætti vænta að þessi upphæð yrði tekin, og ég veit ekki betur en að meðnm. mínir Ed., sem fjallað hafa um þetta frv., hafi talið líkur fyrir slíku og því látið málið liggja. Menn halda kannske, að ég sé nú sérstaklega að ræða um útkomuna vegna þessa eina máls. Það er ekki út af fyrir sig. Ég tel þetta þýðingarmikið mál. En það er ljóst dæmi um það, sem bæði ég og ýmsir fleiri þingmenn hafa gert ráð fyrir, að þessi háttur yrði á hafður um meðferð þessa máls.

Hef ég svo ekki fleira um þetta að segja á þessu stigi málsins. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir mjög greinargóða og glögga skýrslu um útkomu ársins 1953. Ég óska honum til hamingju eftir atvikum með að hafa notið þessa góðæris og aflað þessara miklu tekna. En ég harma það, að hann hefur tekið sér vald til þess, án þess að leita samþykkis Alþ. að öðru leyti en að hafa samráð við fjvn., að ráðstafa þessu mikla fé. Ég tel, að honum hefði borið að leggja fram hæfilega snemma, áður en hann var búinn að eyða fénu, frv. um ráðstöfun tekjuafgangsins fyrir hv. Alþingi.