31.03.1954
Sameinað þing: 43. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1677 í B-deild Alþingistíðinda. (3540)

Varnarmálin, samningar um framkvæmd

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Þegar ég sá, að hæstv. utanrrh. var kominn hér í ræðustólinn, og heyrði, að hann vék talinu að samningum þeim, sem hafa verið að undanförnu um breytingar á varnarsamningnum, þá fagnaði ég því og hélt, að Alþingi fengi nú skýrslu um gang þessara mála. Vissulega gladdi það mig að heyra, að þessir samningar hefðu gengið vel og að vonir væru um, að þær kröfur til breytinga, sem íslenzka ríkisstj. hafði gert, næðu sennilega fram að ganga. En svo fengum við ekkert meira að vita, en hæstv. ráðh. sagðist mundu geta gefið þinginu skýrslu um þetta eftir heimkomu sína þann 12. apríl. En nú er mér spurn:

Eru líkur til, að hv. Alþingi sitji að fundum fram yfir 12. apríl, svo að nokkrar vonir séu við það bundnar, að þingið fái vitneskju frá hæstv. ráðh. um þessi mál, áður en það verður sent heim, ef hæstv. ráðh. getur enga skýrslu gefið þinginu efnislega um málið nú. Mér finnst ákaflega litlar líkur til þess, að Alþingi geti gert sér nokkrar minnstu vonir um að fá frekari vitneskju um málið, áður en það verður sent heim, ef ekki er hægt að gefa neina vitneskju um þetta fyrr en eftir 12. apríl. Um þetta langar mig nú til þess að vita og hvort það sé þá enginn möguleiki til, að þingið fái vitneskju um niðurstöðu þessa máls, áður en því verður slitið.