31.03.1954
Sameinað þing: 43. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1678 í B-deild Alþingistíðinda. (3542)

Varnarmálin, samningar um framkvæmd

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég get sagt nokkuð hið sama og hv. 3. landsk., að þegar hæstv. ráðh. kvaddi sér hljóðs til þess að skýra frá því, hvað gengi samningum við Bandaríkjamenn, þá átti ég von á því, að hann segði eitthvað meira en hann á þessu stigi skýrði frá. Ég ætla, að hann hafi tekið svo til orða, að hann teldi sig mega treysta því, að kröfur okkar Íslendinga mundu ná fram að ganga. Ég veit ekki, hvort ég er einn þingmanna um það, en ég verð að segja það fyrir mig, að mér er ekki kunnugt um nema að mjög litlu leyti a. m. k., hverjar kröfur hæstv. ríkisstj. hefur borið fram í þessu sambandi, og það er að sjálfsögðu það, sem þeir þm. mundu spyrja um, sem eitthvað vildu um þessi mál vita.

Alþfl. hefur lagt fram þáltill. um þetta efni, sem ekki hefur fengið afgreiðslu. Ég vil aðeins nefna fjögur atriði úr henni og þætti mjög æskilegt, ef hæstv. ráðh. sæi sér fært að skýra frá því, hvort þessi atriði hafi verið tekin upp í kröfur eða tilmæli Íslendinga. Í fyrsta lagi það; að framkvæmdir samkv. varnarsamningnum yrðu eingöngu unnar af íslenzkum verktökum. Í öðru lagi, hvort ríkisstj. hefur borið fram kröfur eða óskir um styttingu á uppsagnarfresti samningsins. Í þriðja lagi, hvort ríkisstj. hefur hafið undirbúning þess og leitað samninga um það við Bandaríkjamenn að undirbúa okkur undir það, að Íslendingar gætu tekið í sínar hendur gæzlu mannvirkja á vellinum og á radarstöðvum úti um land. Og svo loks, hvað ríkisstj. hefur farið fram á eða gert kröfur um í sambandi við samskipti setuliðsins við íslenzkt fólk.

Mér þætti mjög vel fara á því, ef hæstv. ráðh. gæti skýrt þinginu frá því, hvort ríkisstj. hefði tekið þessar kröfur upp og hvort ætla má, að þær muni ná fram að ganga, en það var það orðalag, sem hæstv. ráðh. notaði um þær óskir eða kröfur, sem ríkisstj. þegar hefði fram sett.