04.04.1954
Sameinað þing: 43. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1679 í B-deild Alþingistíðinda. (3543)

Varnarmálin, samningar um framkvæmd

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Í gærdag, þegar frv. til laga um uppsögn varnarsamningsins var til umr. í Nd. Alþingis, átaldi ég það, að hæstv. utanrrh. skyldi ekki vera viðstaddur slíkar umr., m. a. vegna þess, að ég teldi líklegt, að Alþingi vildi gjarnan fá einhverja vitneskju um það, hvað liði þeirri samningagerð um framkvæmd herstöðvasamningsins, sem nú hefur verið á döfinni í 2 mánuði eða þar um bil. Mér þótti þess vegna mjög leitt, að hæstv. utanrrh., þegar hann kom nú hingað í dag, rétt áður en hann er að leggja af stað af landi brott, skyldi ekki geta gefið um þetta fyllri og ýtarlegri skýrslu en þau fáu orð, sem hann hér sagði. Hins vegar sagðist hann búast við að koma hingað aftur um 12. apríl og gefa þá Alþingi skýrslu. Ég vil mega líta þannig á, að þetta sé yfirlýsing frá hæstv. utanrrh. og hæstv. ríkisstj. um það, að hún ætli ekki ap senda Alþingi heim, fyrr en hún hefur gefið um það skýrslu, hvernig þessi mál standa.