13.04.1954
Sameinað þing: 51. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1688 í B-deild Alþingistíðinda. (3552)

Varnarmálin, samningar um framkvæmd

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Ég bað nú svo að segja jafnsnemma um orðið og hæstv. fjmrh. og gæti nú í raun og veru fallið frá orðinu. Það er víst áreiðanlega hægt að fullyrða, að það, sem hann sagði um ræður og birtingu þeirra, er rétt. Það hefur þráfaldlega komið fyrir, að ráðh. hafa haldið hér ræður á kvöldfundum og afhent ræðurnar um leið til birtingar. Það mun þráfaldlega hafa komið fyrir og hægt að nefna mörg dæmi, og a. m. k. man ég eftir því úr mínum stjórnarferli, bæði um sjálfan mig og aðra, enda má hæstv. fjmrh. gerst um þetta vita, sem allra manna lengst hefur verið ráðh. hér á Alþingi.

En þessi líking, sem hv. þm. valdi hér, er algerlega gripin úr lausu lofti. Líkingin, sem hann tók af enska þinginu, á ekkert skylt við þetta.

Það, sem sá ráðh., fjmrh. Breta, gaf upplýsingar um, þegar hann fór inn í þingsalinn, var um tolla, og sú vitneskja barst að áliti manna, án þess að hann hefði til þess ætlazt, til tengdafólks hans, sem græddi á því stórfé — eða gat grætt — að fá að vita um breytingar á tollalöggjöfinni áður en aðrir fengu að vita um það. Og það er nú dálítið ólíku saman að jafna og undarlegt, að menn skuli velja sér aðrar eins samlíkingar og þessar. Ég vil halda því fram, að það sé ekki neitt í þessari ræðu, sem einn getur fært sér í nyt frekar en annar, þótt svo færi, að hann hefði fengið vitneskju um það, vegna þess að þetta er endurtekning á þeim upplýsingum að verulegu leyti, sem ráðh. gaf áður en hann fór til útlanda.

Það kom svo greinilega fram sem verða mátti að þm. mótmælti raunverulega öllum þeim rökum, sem hann reyndi hér að færa fram, einkanlegast í sambandi við það, að hann tók líkingu af þýðingarmiklu máli, sem voru gefnar upplýsingar um í brezka þinginu. Hann sagði: „Það var ekkert í þessari ræðu um utanríkismál, sem neinu skipti.“ Ef svo hefði verið, að einhver mikilsverð tíðindi hefðu verið í ræðunni, þá hefði það verið vítavert. Og þá erum við komin inn á hitt atriðið, að ef á að dæma út frá því, hvort eigi að mega birta ræður á þennan hátt, eins og upplýst hefur verið að hefur verið gert, þá hefur undir þessum kringumstæðum dómgreind ráðh. verið alveg á réttum stað. Það var ekkert í ræðunni, sem var þannig vaxið, að nokkur gat haft hag af því frekar en annar að fá að vita um það fyrr en aðrir, sem heldur kom nú ekki til, vegna þess að ræðan er haldin um tólfleytið, og það vita allir, að seinasta daginn fylgjast öll blöð með því, sem er að gerast í þinginu, og ég efast ekki um það, að blað hv. þm. gerir það líka. Það er líka komið í ljós, að það hefur annað blað fylgzt gaumgæfilega með því nð óska eftir að fá afrit og það kemur jafnsnemma. Þetta blað, sem hv. þm. hefur náð í prentsmiðjunni, kemur ekki út fyrr en í fyrramálið, kemur jafnsnemma og öll hin blöðin. Blöðin hafa sem sagt sömu aðstöðuna. Fréttin kemur til allra jafnt fyrir þau blöð, sem fylgjast með og vilja fylgjast með. Og það vill ekkert blað fylgjast með, ef það fylgist ekki með seinasta fundi Alþ. og birtir ekki þær fregnir, sem hér eru bornar á borð rétt eftir tólf. Það vita allir, að blöðin hafa aðstöðu til þess að prenta sínar fréttir eftir þann tíma, ekki sízt ef einhverra frétta er von.

Ég held þess vegna, að hvernig sem á þetta mál er litið, þá sé alveg útilokað, að það sé hægt að ásaka ráðh. fyrir það, sem hann hefur gert. Hann hefur gert það, sem er venja. Hann hefur látið birta ræðu, sem auk þess skiptir ekki máli hvort kemur fyrr eða síðar í einu blaði eða öðru fyrir almennings sjónir. Og í þriðja lagi flytur hann hana á þeim tíma, að öll blöðin hafa tækifæri til þess að ná í hana og birta hana. Og mig undrar það stórlega, að hv. þm. skuli bera fram þessar sakir.