13.04.1954
Sameinað þing: 51. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1691 í B-deild Alþingistíðinda. (3555)

Varnarmálin, samningar um framkvæmd

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég vil segja hæstv. dómsmrh. það, að það verður honum sízt til sæmdar að vera með dólgshátt í þessu máli, því að hlutur hæstv. stjórnar í málinu er ekki sá, að ráðherranum farist neinn dólgsháttur í því.

Það fer ekkert á milli mála, að það hefði farið bezt á því, að hæstv. ráðh., sem hér flutti skýrslukvöld, hefði haft þau vinnubrögð við í fyrsta lagi að láta öllum morgunblöðum bæjarins í té handrit af sinni skýrslu samtímis. Neiti þeir því, sem neita þora, að það hefði farið bezt á því. En það var ekki gert. Einu blaði var fengin skýrslan í hendur allsnemma í dag, bara hans flokksblaði. Morgunblaðið skyldi koma næst. Önnur blöð skyldu ekki fá neitt af ræðunni að segja á morgun. Þetta er ekki framkoma, sem á að viðhafa um opinbera fréttabirtingu um þýðingarmikil mál frá ríkisstjórninni.

Um svigurmæli hæstv. dómsmrh. um það, að ég hafi beðið með þessa athugasemd af illmennsku, þangað til hæstv. utanrrh. væri vikinn af fundi, vildi ég aðeins segja það, að það er ekki mitt að passa hæstv. ráðh., að þeir tolli í stólunum sínum, meðal Alþ. situr að störfum, og það hefur gengið illa á þessu þingi, að þeir héldu sér við sína stóla, þegar Alþ. væri að afgreiða þýðingarmikil mál. Það hefur farið svo enn, að á lokafundi þingsins hafa þeir ekki getað hangið hér á þingfundi meðan verið er að ræða milljónatugamál, sem þessir hv. virðulegu stjórnarflokkar eru að kasta innþingið eins og í kappleik, í kapphlaupi hvor við annan, sem eru líka mjög óþinglegar aðfarir, hvað sem þeir segja um það sjálfir. Nei, það hefði mátt ætlast til þess, að hæstv. ríkisstj. legði það á sig öll að vera til loka þessa þingfundar, sem er sennilega næstseinasti fundur, a. m. k. í Sþ., en það hefur nú ekki orðið svo, og var vissulega af mér ekki veitt athygli, að hæstv. utanrrh. væri farinn, og ég lét mér ekki detta það í hug. En ég kvaddi mér hljóðs, þegar mér hafði borizt fyrir nokkru blað hæstv. utanrrh., sem var með skýrsluna orði til orðs og staðfesti það, sem ég vissi, að handritið að henni hafði borizt miklu fyrr en öðrum blöðum.

Það þarf enginn mér að segja, að það séu algeng vinnubrögð hjá siðuðum þjóðum að senda ekki frá sér skýrslu samtímis til allra blaða, sem eiga að fá að birta opinberar fréttir, t. d. frá utanríkisráðuneytinu, — að sú regla sé viðhöfð og þyki góðir mannasiðir að afhenda fyrst handrit af væntanlega fluttri ræðu til flokksblaðs síns, síðan til stuðningsflokka stjórnarinnar og láta andstöðuna ekki fá neinn pata af. Þið þurfið ekkert að segja mér það, hæstv. ráðh., að þetta séu mannasiðir hjá öðrum þjóðum, þetta þykir skortur á mannasiðum.

Þá vil ég segja hv. þm. Str. það, þótt leiðinlegt sé, að hann fer hér að tala um annan atburð, sem gerðist í brezka þinginu, heldur en ég sagði frá. Það var ekki að heyra á hv. þm. Str., að það væri sá atburður, sem gerðist þegar Dalton fjmrh. Breta var á leið að ganga inn í þingsalinn, sem hann lagði út af, því að það er upplýst og sannað mál, að það var rannsakað, að enginn hefði haft persónulegan hagnað af vitneskju um það atriði, sem hann hafði sleppt við blaðamann og þar með við blað rétt áður en hann flutti sína ræðu. Og þótti það þó svo óviðurkvæmilegt, að þess var krafizt að hann segði af sér, og ráðh. tók það til greina sem gilda ástæðu og sagði af sér. Það er áreiðanlega einhver annar atburður hjá öðrum ráðh., sem hv. þm. Str. hefur haft í huga, heldur en sá, sem ég skýrði frá. Að líking mín hafi ekkert átt skylt við þetta mál, er mesta fjarstæða, því að ef það er óviðurkvæmilegt af fjmrh. að sleppa vitneskju um atriði úr væntanlega fluttri ræðu við blaðamann og þar með við blað, þá er það náttúrlega enn þá óviðurkvæmilegra að sleppa við blað öllum efnisatriðum þeirrar ræðu, sem stendur til að flytja. Það er margfalt auðvitað. En það er auðheyrt á hæstv. fjmrh., að ekki mundi hann kveinka sér neitt við, ekki mundi hann telja sig brjóta neitt af sér, þó að hann léti vitneskju um upphaf og endi og allt innihald fjármálaræðu, sem hann ætlar að fara að flytja hér í þinginu, uppi við blaðamenn áður en hann flytur ræðuna. Það er alveg bersýnilegt, að hans mannasiðir eru allt aðrir en þeir, sem verða að tíðkast hjá fjármálaráðherrum í Bretlandi. Ef til vill er það bara þegar hann er syfjaður. En það mætti segja mér, að hann hefði bara aðra skoðun á þessu en Bretar og að honum dytti ekki í hug að segja af sér, þó að hann hefði trúað Tímanum fyrir handriti að allri fjárlagaræðu sinni, áður en hann flytti hana, þó að það þætti ekki góð latína í móðurlandi þingræðisins, Bretlandi.

En ég hef fengið að heyra það, að hæstv. ráðherrar, sem hafa talað, hæstv. dómsmrh. og hæstv. fjmrh., eru þeirrar skoðunar, að þeir megi láta í té vitneskju úr fjárlagaræðum og ræðum um utanríkismál til Péturs og Páls, áður en þeir flytji þá vitneskju því þingi, sem á þó fyrst og fremst að fá vitneskju þá, sem þeir hafa að flytja. Og enn fremur telja þeir það alveg sjálfsagðan hlut að gauka að sínum eigin flokksblöðum vitneskju um utanríkismál, en halda sams konar vitneskju leyndri fyrir öðrum málgögnum, sem vissulega eiga þó að eiga sama rétt. Þetta sýnir ekkert annað en það, að mannasiðir hæstv. ríkisstj. á Íslandi eru með allt öðrum hætti en þeir mannasiðir, sem heimtaðir eru af ráðh. í móðurlandi þingræðisins, Bretlandi. Skal ég svo ekki fjölyrða frekar um þetta, en ég held, að það væri full ástæða til þess fyrir hæstv. ríkisstj. að athuga það, hvort hún væri ekki öllu betur sæmd af því að viðhafa önnur vinnubrögð en viðhöfð hafa verið í þessum málum.