13.04.1954
Sameinað þing: 51. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1693 í B-deild Alþingistíðinda. (3556)

Varnarmálin, samningar um framkvæmd

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Mér þykja þessar umræður allkynlegar. Hæstv. utanrrh. flytur ræðu. Svörin, sem hann fær frá þremur forustumönnum stjórnarandstæðinga, eru þessi: Ja, þetta er ræða um ekki neitt. Í þessari ræðu eru engar upplýsingar. Hæstv. utanrrh. er svo elskulegur maður, að við viljum ekki vera að ráðast á hann, en ræðan er um ekki neitt. Svo skeður það „óskaplega hneyksli“, að utanrrh. leyfir sínu blaði og öðrum blöðum, sem hafa haft vit á að biðja um það, að birta ræðuna. Þá rís form. Alþfl. upp hér á Alþingi með ókvæðisorðum, rétt eins og utanrrh. hafi framið einhver fádæma afglöp. — Það hefur ekkert óhapp hent utanrrh. í þessu máli. Allt, sem skeð hefur, er, að form. Alþfl. hefur orðið flokki sínum til leiðinda. En er það nýtt?