13.04.1954
Sameinað þing: 51. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1694 í B-deild Alþingistíðinda. (3558)

Varnarmálin, samningar um framkvæmd

Hermann Jónasson:

Ég vil aðeins leiðrétta það, sem er alls ekki rétt hjá hv. 3. landsk. þm., að ræðan hafi verið afhent snemma í dag, því að hún var nú ekki tilbúin fyrr en kl. 9 í kvöld. Ég kom hér ofan í þing kl. rétt 10 mínútum fyrir 9, og þá var verið að ljúka við að láta vélrita hana, svo að hún hefur ekki verið afhent snemma í dag. Það fer nú eitthvað milli mála. — Í annan stað, um þann brezka fjmrh., sem ég ætla nú ekki að fara að ræða um frekar, enda gaf hæstv. fjmrh. skýringar á því í samræmi við það, sem ég talaði áðan, þá er það rétt og er sama dæmið. Við vitum ósköp vel um það, að það var meðráðh. þess manns, sem varð einnig að taka afleiðingunum af því vegna grunsemdar, sem kannske hefur sannazt að var ekki á neinum rökum byggð, um hagnað tengdasonar hans, og muna menn eftir því, að hann fór út úr þinginu á þann hátt, sem var eftirminnilegur í frásögnum.

Það er enn fremur uppvíst, að þetta, sem hér hefur gerzt, er regla. Ég er alveg viss um, að ef hv. 3. landsk. þm. leitar umsagnar þeirra ráðh., sem hafa verið í ráðherrastóli, þá er þetta regla, að ræðurnar eru fengnar flokksblöðunum, og það hefur meira að segja verið regla lengi á Íslandi, að hin blöðin hafa ekki fengizt til að birta þær, svo að vandinn hefur ekki verið mikill. Vanalega hafa þau birt stuttan úrdrátt, ef eitthvað hefur verið birt. Ég hygg, að þegar Alþfl. hafði ráðh. í stjórn, þá hafi þetta verið þeirra regla alveg eins og annarra ráðh., og ég staðhæfi áreiðanlega ekki of mikið, þó að ég segi, að þeir hafi notað þessa sömu reglu. Ég veit, að ég hef notað þessa reglu í mörg ár og aldrei neinum manni dottið hug að finna að því.

Svo kemur nýtt í ljós, sem ég var nú hissa á að hv. þm. skyldi koma fram með aðfinnslur út af, eftir að hann hafði þó haft vitneskju um það. Hann segir: Ég bað sjálfur um afrit, en það voru ekki fleiri eintök til. — Hann fer þannig sjálfur fram á það, sem hann er að deila á ráðh. fyrir að gera. Og það stendur ekki á öðru en því, að það eru bara ekki fleiri afrit til til þess að afhenda, að hann lendir ekki í því að fremja það sama brot sem hann er að ákæra ráðh. fyrir að hafa framið.

Ég held því, að við nánari athugun á þessu máli sé ekki undir neinum kringumstæðum hægt að staðhæfa það, heldur þvert á móti, að ráðh. hafi gert neitt, sem ekki var viðeigandi. Og ég tel alveg rétt, þegar svona ásakanir koma fram, að því sé rækilega svarað, ekki sízt þar sem ráðh. er fjarverandi og hafði enga ástæðu til þess að vera hér við þessar umr., vegna þess að hann er ekki þm. og það eru atkvgr. um einstök mál, sem ekki voru mikils háttar, eins og við sáum.