27.10.1953
Neðri deild: 11. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1697 í B-deild Alþingistíðinda. (3563)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Forsrh. (Ólafur Thors):

Ég skal nú ekki fara að hafa nein afskipti af því, að hér er varið einum degi í viku og stundum fleiri til þess að ræða um fyrirspurnir, sumpart gerðar til þess að vekja athygli ríkisstj. á vissum hlutum og sumpart til að vekja athygli á sjálfum fyrirspyrjendunum; það mun nú ekki vera sjaldgæfara.

Út af þeirri fyrirspurn, sem hér hefur komið fram, vil ég aðeins segja það, að á þingi Sameinuðu þjóðanna sitja fyrir utan aðalfulltrúann, sendiherra Íslands í Washington, fulltrúar fyrir Framsfl. og fyrir Sjálfstfl. Þessir menn hafa að venju allmikið vald yfir því, hvernig atkvæði eru greidd í einstökum málum. Mér er ekki kunnugt um, hvort þeir hafa leitað umsagna utanrrh. um svör eða atkvæðagreiðslur í því máli, sem hér er spurzt fyrir um, en ég veit hitt, að undir ríkisstj. hefur það ekki verið borið, og ég vil, að það komi hér ljóst fram, að í öllum stærri háttar málum er það ríkisstj., sem tekur ákvarðanir í utanríkismálum. Ég ætla, að séu slíkar fyrirspurnir til þess ætlaðar að vekja athygli ríkisstjórnarinnar á einhverju sérstöku, en ekki fólksins á fyrirspyrjanda, þá sé rétt, að þær séu bornar fram í því formi, að ríkisstj. geti fengið tilefni til þess að athuga þær og taka sína afstöðu til þeirra svara, sem gefa þarf, en ekki í því formi, sem hér er gert.