05.03.1954
Neðri deild: 58. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1700 í B-deild Alþingistíðinda. (3568)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Enn þá einu sinni hefur það gerzt eins og nokkuð oft áður á undanförnum árum, að við fáum fréttir um það utan úr heimi, hvað sé að gerast í okkar þýðingarmestu málum. Ríkisútvarpið skýrði frá því núna í hádegisútvarpinu, að fram væru komnar í Danmörku í opinberum blaðaskrifum ákveðnar till., sem dönsk stjórnarvöld hefðu lagt fyrir íslenzk stjórnarvöld í handritamálinu. Blaðið Politiken er sagt hafa skýrt frá því, að till. Dana væru í aðalatriðum á þá leið, að löglegur eignarréttur handritanna skuli skiptast milli Dana og Íslendinga. Í öðru lagi, að vísindastofnun verði komið á fót í Kaupmannahöfn og Reykjavík til rannsókna á norrænum og íslenzkum handritum. Í þriðja lagi, að nefnd vísindamanna skuli til þess valin að skipta handritunum milli íslendinga og Dana. Og í fjórða lagi, að ljósprenta skuli allt handritasafnið og ljósprentuð útgáfa síðan höfð til afnota í báðum vísindastofnununum,Kaupmannahöfn og Reykjavík. Enn fremur var skýrt frá því, að þetta mál hefði verið rætt af forsætisráðherra Dana og menntamálaráðherra Dana, Hans Hedtoft og Julius Bomholt, við Bjarna Benediktsson, menntmrh. Íslands, þegar hann hefði verið í Kaupmannahöfn nú fyrir skömmu.

Nú hefur hæstv. menntmrh. Íslands komið í útvarpið og skýrt frá því, sem hefði gerzt í hans för, en ég minnist þess ekki, að hann hafi minnzt neitt á það, sem hefði gerzt í handritamálinu. Ég minnist þess ekki, að hann hafi minnzt einu orði á handritamálið í þeirri frásögn. Nú hefur Alþingi setið síðan hæstv. ráðh. kom heim, og þingheimi hefur ekki verið gert neitt kunnugt um, hvað þarna væri að gerast eða hvað þarna stæði til boða. Ég hefði talið mjög eðlilegt, að a. m. k. menntamálanefndir þingsins hefðu fengið vitneskju um þetta mál, og þó að það kunni að vera þannig, að ekki hafi þótt hlýða hér að ræða málið opinberlega, sem nú hefur þó verið gert í Danmörku, þá hefði ég talið mjög æskilegt, að málið væri rætt af hæstv. ráðh. og viðhorf þess, eins og þau blasa nú við, kynnt íslenzkum alþingismönnum á lokuðum þingfundi, ef ekki þykir enn hlýða að ræða málið opinberlega. Og ég vil hér með bera fram þau tilmæli við hæstv. menntmrh., þegar nú er komin nokkur vitneskja um málið úti í Danmörku, en svo að segja engin vitneskja hér heima, að það verði rætt á lokuðum þingfundi, ef ekki þykir fært að kynna þingmönnum það öðruvísi.