05.03.1954
Neðri deild: 58. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1703 í B-deild Alþingistíðinda. (3573)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Mér skilst á hæstv. menntmrh., að við hann hafi verið rætt um málið sem algert leyndarmál milli danskra stjórnarvalda og hans og hann hafi því ekki haft heimild til að segja frá neinn. En nú virðist mér það viðhorf hafa nokkuð breytzt, þar sem með einhverjum hætti hefur borizt út vitneskja um þessar viðræður og efni viðræðnanna og umræður eru hafnar um þetta í dönskum blöðum. Að vísu er það rétt, að þetta eru danskar till., en það eru danskar till. í íslenzku máli. Og mér finnst það a. m. k. mjög svo óviðkunnanlegt, að umræður séu hafnar í Danmörku um ákveðnar till., sem fara á milli stjórnarvalda, áður en íslenzkir alþm. fái nokkra vitneskju um það og kannske ekki einu sinni íslenzka ríkisstj. í heild.

Ég fagna hins vegar þeirri yfirlýsingu hæstv. ráðh., að hann hefur tjáð þingheimi, að þetta mál muni undireins rætt við Alþingi, skilst mér, þegar heimildir liggi fyrir um það. En þarna er víst, að einhvern veginn hefur lekið út frá dönsku ríkisstj. um þetta mál, því að eitt af því, sem Politiken skýrði frá, var það að þetta mál hefði verið rætt við menntmrh. Íslands, Bjarna Benediktsson. Og þá finnst mér, að málið blasi öðruvísi við. Ég hefði því talið mjög æskilegt, að Alþingi, t. d. á lokuðum þingfundi, hefði fengið vitneskju um það, í hversu ákveðnu formi þetta mál hefur legið fyrir, þegar hann var í Kaupmannahöfn, og hvort danska blaðið fer rétt efnislega með þessi meginefnisatriði málsins, sem ríkisútvarpið íslenzka, sem er undir stjórn hæstv. menntmrh., skýrði frá í dag.