13.04.1954
Sameinað þing: 51. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1704 í B-deild Alþingistíðinda. (3576)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Pétur Ottesen:

Mig langar til að nota það tækifæri, sem hér gefst nú utan dagskrár, til þess að beina fyrirspurn til hæstv. utanrrh., sem á þó ekkert skylt við þá skýrslu, sem hann var að gefa hér. Til skýringar á þessari fsp. minni vil ég taka þetta fram:

Ég þykist sjá það, að forlög þáltill. um Grænlandsmál, sem ég flutti á öndverðu þingi, verði þau, að málið verði ekki tekið á dagskrá nú til endanlegra úrslíta. Hins vegar er komið fram nál. um málið og lagt til að vísa því til ríkisstj., og þar er lagzt á þá sveif, að Íslendingar eigi rétt til Grænlands og að ríkisstj. hefji um það samninga við stjórn Danmerkur, að þessi réttur Íslendinga verði viðurkenndur. Hins vegar er það samkv. till. allshn. látið bíða ákvörðunar næsta þings, hvað gera skuli, ef Danir verða ekki við þessum kröfum Íslendinga. En það felst í till. minni, að Alþ. taki nú um það ákvörðun, að þá skyldi málinu skotið til úrskurðar alþjóðadómstólsins í Haag. — Með tilliti til þess, að eigi lítur út fyrir, eins og ég hef fyrr greint, að til úrslita dragi um þetta atriði að þessu sinni, leyfi ég mér að beina þeirri fsp. til hæstv. utanrrh., hvort treysta megi því, að að því sem til hans kasta kemur verði ekki af hálfu ríkisstj. farið að gera neina samninga við dönsk stjórnarvöld, er talizt geti afsal eða skerðing á rétti Íslendinga til Grænlands, meðan óútkljáð er um réttarstöðu þess.