13.04.1954
Sameinað þing: 51. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1704 í B-deild Alþingistíðinda. (3578)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Á síðasta fundi í Sþ. var til umr. fyrirspurn, sem ég hafði borið fram til hæstv. viðskmrh., m. a. um kostnað við verðgæzlu eða verðlagseftirlit í landinu. Ég hafði spurzt fyrir um, hver kostnaðurinn hefði verið 1949 og hver hann hafi reynzt 1952.

Hæstv. viðskmrh. veitti greið svör við þessum fsp., en ég hef síðan komizt að raun um, að svör hans við þeim voru röng. Ég kveð mér nú hljóðs til þess að leiðrétta það, sem missagt var í svari hæstv. ráðh. Líta verður það mjög alvarlegum augum, að það skuli gerast, að ráðh. gefi í fyrirspurnatíma upplýsingar, tölulegar upplýsingar, sem reynast rangar við gaumgæfilega athugun á málinu. Ég staðhæfi ekki og get gjarnan á það lagt áherzlu, að hæstv. ráðh. hafi veitt þessar röngu upplýsingar vísvitandi. Ég þekki ekkert það til hans, að ég hafi nokkra ástæðu til að ætla slíkt. En með einhverjum hætti hefur hann misskilið þær upplýsingar, sem fyrir hann hafa verið lagðar, þannig að áheyrendur hans hlutu einnig að misskilja þær. Frá þessum röngu upplýsingum hefur verið sagt í blöðum, og þess vegna tel ég nauðsynlegt að leiðrétta þær og láta hið sanna koma fram.

Hæstv. ráðh. sagði orðrétt í svörum sínum samkv. skýrslum þingskrifara, með leyfi hæstv. forseta:

„Þá spyr hv. fyrirspyrjandi að því, hver kostnaður við framkvæmd verðlagseftirlitsins hafi verið 1949 og 1952. Svar: Heildarkostnaður við skrifstofu verðgæzlustjóra árið 1949 nam 760802 kr. Þar af voru launagreiðslur 560508 kr. En heildarkostnaður við skrifstofu verðgæzlustjóra árið 1952 nam 592900 kr., þar af launagreiðslur 475350 kr. Heildarkostnaður við verðlagsskrifstofu fjárhagsráðs nam árið 1952 195050 kr., þar af launagreiðslur 124976 kr. Áður en embætti verðgæzlustjóra var stofnað, annaðist sama stofnunin, skrifstofa verðlagsstjóra, bæði verðlagsákvarðanir og verðlagseftirlit.“

Og nú koma ályktanir hæstv. ráðherra:

„Nú býst ég við því, að hv. fyrirspyrjandi segi sem svo: Það hefur nú ekki sparazt mjög mikið við það, að hámarksálagning var afnumin á ýmsum vörum. Ósköp lítið hefur nú sparazt, mun hann segja, eða tæpar 100 þús. kr. í launagreiðslum. En 100 þús. kr. eru nú líka peningar.“ Svo mörg voru þau orð.

Fyrrgreindar töluupplýsingar hæstv. ráðh. túlkar hann þannig, að 100 þús. kr. sparnaður hafi orðið við verðlagseftirlitið á þessum þremur árum. Þetta er síðan endurtekið daginn eftir í blaði hæstv. viðskmrh., þar sem segir svo í Morgunblaðinu 19. nóv., að við breytingarnar á verðlagseftirlitinu hafi sparazt um 100 þús. kr.

En staðreyndir málsins eru þessar: Verðlagsstjóraskrifstofan, sem 1949 hafði með höndum bæði verðlagsákvarðanir og verðlagseftirlit, kostaði 760802 kr. 1952 var kostnaður við verðgæzluna 592900 kr. og kostnaður við verðlagsskrifstofuna, sem ekki er meðtalinn í fyrri tölunni, 195 þús. kr. En hæstv. ráðh. mun hafa skilið sínar eigin tölur þannig, að kostnaður við verðlagsskrifstofuna væri innifalinn í kostnaðinum við verðgæzluna, og þess vegna mun hann hafa staðhæft, að kostnaðurinn hafi lækkað um 100 þús. kr. En kostnaður við verðlagsskrifstofuna er ekki innifalinn í tölunni um verðgæzluna, svo að samtals var kostnaðurinn 195:3 við verðgæzlu og verðlagsskrifstofu 787900 kr. Sú tala, sem er sambærileg við kostnað verðlagsstjóraskrifstofunnar 1949 og nam 760802 kr., er 787900 kr., þ. e., kostnaðurinn við verðgæzlu og verðlagseftirlit hefur ekki lækkað um 100 þús. kr., eins og hæstv. ráðh. sagði, heldur hækkað um 27098 kr. Ef teknar eru launagreiðslurnar einar, þá eru þær 1949 560508 kr., en 1952 hjá verðgæzlu 475350 kr. og á verðlagsskrifstofu, sem á að bætast við, 124976 kr., eða samtals 600326 kr. Með öðrum orðum: Launagreiðslurnar hafa ekki lækkað, eins og hæstv. ráðh. sagði, um 100 þús. kr., heldur hækkað um 39818 kr. Þetta eru hinar réttu upplýsingar í málinu.

Efni málsins skal ég ekki ræða. Það er ekki til umr. utan dagskrár. En ég taldi það skyldu mína, fyrst og fremst við Alþ. og síðan við þann almenning í landinu, sem hefur orðið að lesa rangar upplýsingar í blöðum á grundvelli þessarar ræðu hæstv. viðskmrh., að láta þetta koma fram á þeim sama vettvangi og hinar röngu tölur voru fram bornar.