25.11.1953
Sameinað þing: 19. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1708 í B-deild Alþingistíðinda. (3581)

Verðgæsla, olíumál o. fl.

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Mér þykir vænt um, að hæstv. viðskmrh. skuli hafa tekið þann kostinn að játa missögn sína, en ekki hinn, að berja höfðinu við steininn og staðhæfa, að upplýsingar mínar séu ekki réttar. Í ræðu hans fólst alger játning á því, að ummæli hans á miðvikudaginn var um lækkun á kostnaði verðgæzlunnar voru röng. Ályktun hans var röng, byggð á misskilningi á þeim tölum, sem honum höfðu verið fengnar og hann las upp. Þetta get ég út af fyrir sig metið við hæstv. ráðherra.

Um bollaleggingar hans um málið að öðru leyti skal ég ekki ræða, þar sem mér skildist á hæstv. forseta, að efni málsins væri hér ekki til umr., þótt hæstv. ráðh. hafi hins vegar rætt það allmikið í sinni ræðu. — Hann sagði, að því hefði verið skotið að sér rétt í þessu, að einn af starfsmönnum fjárhagsráðs nú, Hermann Jónsson, hafi áður, 1949, einnig verið á launum hjá fjárhagsráði. Eins og ég skaut fram í, er þetta rangt. Mér er þetta mál allt mjög vel kunnugt og veit það, að Hermann Jónsson var starfsmaður hjá verðlagsstjóra á verðlagsskrifstofunni, þangað til síðasta breyting var gerð á fjárhagsráðslögunum og skipulaginu var breytt. Þá var hann fluttur ryfir til fjárhagsráðs og þar með yfir á launaskrá þess. Laun hans eru því innifalin í þeirri tölu, sem ráðh. nefndi sem kostnað við verðlagsskrifstofuna.

Varðandi hitt, að rétt hefði verið að láta þessar upplýsingar bíða til næsta miðvikudags, svo að ráðh. gæti búið sig betur undir svarið, verð ég að segja, að það er algerlega ástæðulaust. Ég hygg, að ráðh. hafi skilið fullkomlega, hvað hér er um að ræða, og sjái fullljóst, að honum skjátlaðist á miðvikudaginn var. Það var því alveg ástæðulaust að fresta því um viku að játa, að honum hefði skjátlazt. Ástæðan til þess, að ég vildi ekki sætta mig við neinn slíkan frest, er sú, að ég veit með óyggjandi vissu, að það, sem ég sagði um þetta, var rétt. Þá vissu hef ég frá sjálfum starfsmanni og trúnaðarmanni hæstv. ráðh., verðgæzlustjóranum. Ég gerði mér erindi til hans, þegar ég fékk grun um, að þetta væri rangt, og spurði hann sömu spurninga sem é.g spurði hæstv. ráðh. og fékk játandi svar við þeim, þ. e., að það væri rangt, sem fram hefði komið í ræðu viðskmrh. s. l. miðvikudag, og að það væri rangt, sem stóð í blöðunum á grundvelli hans ræðu. (Gripið fram í: Má ég skjóta inn í, hvenær spurði þingmaðurinn verðgæzlustjóra?) Í morgun, kl. hálf tólf í morgun. Það tók ekki langan tíma. Ég gerði mér erindi til hans og lagði þá spurningu fyrir hann, hvort þessar tölur væru ekki eins og ég las upp áðan, og kvað hann já við því. Með tilliti til þeirra staðreynda, að ég vissi, að það var engar upplýsingar hægt að færa fram, sem gætu hnekkt staðreyndunum, sem ég bar fram, sá ég enga ástæðu til þess, að um nokkurn frest væri hér að ræða, og taldi rétt að bera málið fram þegar í stað. Það má ekki líða meira en vika frá því að villandi eða rangar upplýsingar eru gefnar hér á hinu háa Alþ. þangað til þær eru leiðréttar, ef kostur er á að leiðrétta þær þegar í stað.