25.11.1953
Sameinað þing: 19. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1709 í B-deild Alþingistíðinda. (3582)

Verðgæsla, olíumál o. fl.

Björn Ólafsson:

Það er helzt að heyra á hv. 1. landsk., að hann hafi kastað einhverri ægilegri pólitískri bombu hér inn í þingið með þeim upplýsingum, sem hann var að gefa. Var helzt að skilja, að hér væri eitthvert hneykslismál á ferðinni. Ég get ekki séð með bezta vilja, hvar sú hneykslunarhella liggur, sem hann hefur verið að veltast um við þessar umræður. Hæstv. ráðh. gaf tölurnar, eins og þær liggja fyrir, og eins og þær liggja fyrir í upplýsingum hans eru þær réttar. Það sem hneykslar hv. þm. virðist vera það, að ráðh. skuli ekki hafa tekið framræðu sinni, að núverandi kostnaður fjárhagsráðs vegna verðlagsákvarðana hafi ekki verið lagður við kostnað verðgæzlunnar. Auðvitað átti ekki að gera það, vegna þess að það er sitt hver kostnaður. Hitt er svo annað mál, hvort þetta tvennt var sameinað 1949. Það er alveg rétt og þarf ekki að deila um. Það var sameinað þá. Þegar flokksmaður hv. þm. tók við verðgæzlunni, bætti hann við þremur eða fjórum starfsmönnum, vegna þess að honum fannst ekki nægilegur mannafli til þess að afkasta því verki, sem hann ætlaði þá að vinna. Þegar þessu starfi var skipt, fóru — að mig minnir — þrír eða fjórir af starfsmönnum verðgæzlunnar til fjárhagsráðs í þá skrifstofu, sem fjárhagsráð sjálft hefur í sambandi við verðlagsákvarðanir. Eftir voru þá á skrifstofu verðgæzlustjóra 12 menn. Þegar breyting var gerð á hámarksákvæðunum og þau voru að miklu leyti afnumin, þá var þessu fólki fækkað. Nú starfa á skrifstofunni 8 manns. Það getur hver maður lagt saman þessar tölur og gert sér grein fyrir þeim.

Hvers vegna er nú kostnaður við 8 manns á verðgæzluskrifstofunni og þrjá menn á verðlagsskrifstofu fjárhagsráðs um 600 þús. kr. á ári, í staðinn fyrir að áður hafði verðgæzlustjóri eða verðlagsstjóri, fyrir 1949, miklu fleira fólk, sem ekki kostaði nema 560 þús. kr.? Ég hélt, að hv. þm. væri nógu glöggur reikningsmaður til þess að sjá, að hér er ekki um neina eyðslusemi að ræða. Þessu fólki er ekki borgað meira en lög mæla. Á þessari skrifstofu eru ekki nú nema 8 manns, og á hinni skrifstofunni er þrennt, eða samtals 11 manns. Heldur hv. þm., að þessu fólki sé borgað eitthvað meira en öðrum embættismönnum ríkisins, sem eru í svipuðum flokki? Dettur honum það í hug? — Nei, sannleikurinn er aðeins sá, að það hafa gerzt talsvert miklar kauphækkanir á þessu tímabili og kauphækkanir hafa orðið af vísitöluhækkun, sem var afleiðing af gengislækkuninni, eins og við vitum. Þess vegna virðist mjög einkennilegt, að hv. þm. skuli vera að gera hávaða í þinginu út af því, sem hann hefur alls ekki gert sér grein fyrir. Hann er að hengja sig í það, að tvær tölur hafi ekki verið lagðar saman. Það hefur enginn verið að fullyrða hér neitt, og það, sem hann segir, — ja, hvað sannar það? Það sannar, að hann hefur ekki athugað málið, jafnvel þótt hann hafi farið til verðgæzlustjóra klukkan 8 í morgun.