25.11.1953
Sameinað þing: 19. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1711 í B-deild Alþingistíðinda. (3587)

Verðgæsla, olíumál o. fl.

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa mörg orð. — Hv. 3. landsk. þm. (HV) var að tala um það hér áðan, að það hefði verið ónákvæmni hjá mér að fullyrða hér s. l. miðvikudag, að olíur væru undir hámarksákvæðum. Það eru flestar olíur undir hámarksákvæðum, — og hvað eru það mörg prósent af olíuinnflutningnum, sem eru ekki undir hámarksákvæðum? Ég hef það ekki hér fyrir framan mig, en ég veit, að það eru örfá prósent, þannig að fullyrðingar mínar í sambandi við olíurnar eru réttar. Og þegar hv. þm. veit það einnig, að álagning á smurningsolíum hefur ekki hækkað síðan ákvæðunum var létt af, þá ferst honum ekki að gera veður út af þessu.

Annars vilja þeir félagarnir, Hannibal og Gylfi; reyna að gera sér mat úr þessum spurningatímum, og það er ekkert óeðlilegt, þótt þeir vilji reyna að afla sér fóðurs, þegar farið er að ganga á forðann. En Gylfi Þ. Gíslason hlýtur að vera það skynsamur maður að skilja, að það er ekki hægt að gera hvort tveggja, að krefjast þess, að eftirlit sé haft með verðlaginu og að ekki sé neinn kostnaður við það.

Gylfi Þ. Gíslason fárast yfir þeirri eyðslusemi, að það skuli vera eytt nú 760 þús. kr. í verðgæzluna. Vill Gylfi Þ. Gíslason gera það að till. sinni, að verðgæzlan verði afnumin? Er það orðin pólitík og stefna Alþfl. að afnema verðgæzluna? Ætla þeir að þjóna fólkinu í landinu með því? Ég held, að Gylfi Þ. Gíslason ætti að reyna að gera sér grein fyrir því, að þessar fullyrðingar hans geta ekki staðizt. — Hann sagði hér áðan, að ég hefði viðurkennt, að það ætti að leggja þessar tölur saman, sem við vorum að tala um hér áðan. Ég sagði: Ef við leggjum þessar tölur saman, þá er ályktunin, sem ég gerði hér s. l. miðvikudag, ekki rétt. Ef við hins vegar leggjum þær ekki saman, þá er það, sem ég sagði, í öllum atriðum rétt. — Og hv. þm., Gylfi Þ. Gíslason, fékk þetta plagg hjá mér s. l. miðvikudag og skrifaði greinina í Alþýðublaðið, sem birtist s. l. fimmtudag, eftir þessu blaði. Og hann virðist a. m. k. þá hafa verið í vafa um það, hvort ætti að leggja tölurnar saman eða hvort það ætti aðeins að gera samanburð á kostnaði skrifstofu verðlagsstjóra 1949 og verðgæzlunni 1952. Þar í liggur munurinn, og það er enginn glæpur, sem hér hefur átt sér stað. Það eru engin vísvitandi ósannindi, sem hér hefur verið farið með. Við Gylfi Þ. Gíslason erum þá báðir jafnsekir, því að við notum báðir þetta sama blað sem heimild, blaðið, sem ég nú er með í höndunum, því að Gylfi Þ. Gíslason skrifaði sína grein í Alþýðublaðið eftir þessu blaði.

Hvað er þá að segja um þetta? Það er ekkert annað en það,að það getur hvort tveggja staðizt. Það getur hvort tveggja staðizt, sem hér hefur verið sagt. Það tekst ekki að gera úr þessu neinar bombur eða að gera mig hér að ósannindamanni, og það er aðalatriðið, að það skuli nú ekki hafa tekizt, og það er líka mikið atriði frá mínu sjónarmiði, að hvorki Gylfa né Hannibal tekst að afla sér fóðurs, jafnvel þótt á forðann sé farið að ganga, því að ég veit það, að sé hætta á því, að þeir sjálfir horfalli, þá verður einhver til þess að hlaupa undir baggann og hjálpa þeim.