13.11.1953
Neðri deild: 22. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 327 í B-deild Alþingistíðinda. (359)

17. mál, Háskóli Íslands

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Það, sem ég vildi segja, á í rann og veru frekar heima utan dagskrár heldur en í því dagskrármáli, sem hér er um að ræða. Ég vildi finna að því, að hér skuli hvert stjfrv. vera til 1. umr. á fætur öðru án þess, að því fylgdi nokkur framsaga af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Að þessu kveður orðið svo mikið, að mér finnst hv. þd. ekki mega láta þetta vera óátalið. Ég hef veitt því athygli, að undanfarna daga hafa fjögur eða fimm stjfrv. verið hér á dagskrá til 1. umr. og þeim vísað til 2. umr. og n. framsögulaust. Mér finnst þetta sýna svo slæm vinnubrögð af hálfu hæstv. ríkisstj., að við það sé ekki unandi alveg þegjandi. Með þessu er hæstv. ríkisstj. að sýna þinginu allt að því lítilsvirðingu, að kynna ekki mál, sem lögð eru fyrir deildina, þótt seinni deild sé, og kannske væri öllu frekar ástæða til þess að gera það einmitt þar. Frá því að ég kom hér á þing, hefur það verið svo að segja föst regla, að stjfrv. sé fylgt úr hlaði, þótt ekki sé nema með nokkrum orðum, til þess að kynna þingheimi málin. En nú á þessu þingi hefur alveg gerbreytt um hvað þetta snertir, og þau eru áreiðanlega ein sjö eða átta, stjórnarfrumvörpin, sem komið hafa til 1. umr. í þessari d., án þess að þeim hafi fylgt nokkurt orð af hálfu ríkisstj. Mér finnst rétt, að hún viti það, að það er ekki öllum hv. þm. sama um það, ef hún sýnir slíkt sleifarlag gagnvart afgreiðslu mála hér á Alþingi.