25.11.1953
Sameinað þing: 19. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1714 í B-deild Alþingistíðinda. (3591)

Verðgæsla, olíumál o. fl.

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Hv. 1. landsk. hefur alveg alrangt eftir mér, að ég hafi vitnað sérstaklega í framsöguræðu hans. Ég vitnaði almennt í ræður hans, og það er náttúrlega til allt of mikils mælzt, að hann fari að lesa þær allar upp aftur. Þetta, sem hann las upp núna, var mér ósköp vel kunnugt um. En bæði hann og aðrir fyrirsvarsmenn þessa máls, kosningabandalags flokka, hafa hvað eftir annað vitnað í það, að fordæmin væru í Svíþjóð, þrátt fyrir það að Gylfi Þ. Gíslason í framsöguræðunni, eins og ég þakkaði honum fyrir, hefði þurft að leiðrétta grg. frv. um þetta efni. Fyrst er borið fram frv. með grg., svo er flutt framsöguræða og leiðrétt vitleysan í grg., en svo eru haldnar fleiri ræður, þar sem aftur er farið að halda fram vitleysunni úr grg., og það sker úr í þessu máli, — og eftir stendur frumhlaup þessa hv. þingmanns.