23.03.1954
Efri deild: 66. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1719 í B-deild Alþingistíðinda. (3616)

Vélræn upptaka á þingræðum

forseti (GíslJ):

Ég vil tilkynna hv. Ed., að út af fyrirspurn frá hæstv. dómsmrh.gær, hvort orð, sem töluð eru í deildinni, gætu tekið þeim breytingum á segulbandinu, að af því kæmu aftur allt önnur orð en töluð hefðu verið inn á það, sem m. a. gæfu í'æðum þingmanna allt annan blæ og allt aðra meiningu, hef ég sem forseti látið fara fram eftirfarandi athugun:

Þann 23. marz 1954, kl. 10.10 fyrir hádegi, voru eftirfarandi setningar talaðar inn á segulband frá ræðustól þingmanna Ed. til þess að fullvissa sig um, hvort þær breyttust að efni til frá því að þær voru talaðar og þar til þær voru aftur fluttar af segulbandinu:

„Geta orð, sem töluð eru úr ræðustól inn á segulband í Ed., breytzt frá því, sem þau eru töluð, og þar til segulbandið skilar þeim aftur? Getur já breytzt í nei eða nokkrar aðrar breytingar átt sér stað, er raskað geti efni ræðunnar?“

Orð þessi voru lesin af mér sem forseta úr ræðustól þingmanna inn á segulband í áheyrn beggja skrifara deildarinnar og hlustað á þau aftur af segulbandinu af okkur öllum og þau þá borin saman við handritið. Kom þá í ljós, að segulbandið skilaði orðunum aftur nákvæmlega eins og þau höfðu verið rædd úr ræðustól. Því upplýsist: Ræður þingmanna breytast ekki, hvorki að orði né efni, frá því að þær eru talaðar úr ræðustól í deildinni og þar til segulband skilar þeim aftur.