11.12.1953
Neðri deild: 37. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 328 í B-deild Alþingistíðinda. (362)

17. mál, Háskóli Íslands

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Á undanförnum árum hefur orðið allmikil aukning á kennaraliði háskólans. Á síðustu þingum hafa samt legið fyrir frv. um stofnun nýrra embætta við háskólann. 1951 lá fyrir þinginu frv. um stofnun tveggja nýrra prófessorsembætta í læknadeild, og á þingi 1952 voru flutt í þessari hv. d. frv. um stofnun prófessorsembættís í lögfræði og annað frv. um stofnun nýs prófessorsembættis í læknadeild. Þessi frv. hafa ekki náð samþykki hér á hv. Alþingi.

Frv. þetta, sem hér liggur fyrir, fjallar um það að stofna eitt nýtt prófessorsembætti í lagadeild háskólans, en forráðamenn háskólans munu hafa hug á því að leita til Alþ. á næstunni um stofnun fleiri nýrra embætta. Frv. þetta er flutt af hæstv. ríkisstj. og mun ríkisstj. öll vilja styðja að framgangi málsins. Við hv. 2. þm. N-M., sem sæti eigum í menntmn., höfum samt ekki staðið að nál., þar sem mælt er með þessu frv., og munum við ekki greiða atkv. með málinu.