13.04.1954
Efri deild: 92. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1737 í B-deild Alþingistíðinda. (3672)

Starfslok deilda

forseti (GíslJ):

Nú hefur hv. Nd. lokið störfum að þessu sinni. Þar hafa verið afgreidd tvö frv., annað frv. til laga um veitingu ríkisborgararéttar, 161. mál, Nd., en tekið þar svo miklum breytingum, að ógerlegt væri að ljúka því máli hér á fundi í kvöld, þótt það væri tekið á dagskrá. Málið yrði sennilega að fara til n., og mundi ekki vinnast tími til þess að ljúka afgreiðslu málsins á þessu þingi; það mál er því ekki tekið á dagskrá hér í þessari hv. d. Hitt málið, sem hefur einnig fengið meðferð í hv. Nd., er frv. til laga um húsaleigu, 125. mál, Ed. Það mál hefur tekið svo víðtækum breytingum, að raunverulega má segja, að hér sé um nýtt mál að ræða. Það mundi einnig þurfa svo langan tíma til athugunar og umr., að sá tími, sem nú er til starfa, mundi ekki heldur duga til þess að afgr. það mál; það mál verður því ekki heldur tekið á dagskrá í þessari hv. deild. — Þar með er þá verkefni þessa fundar lokið, og þetta mun þá verða síðasti fundur þessarar hv. deildar.

Hv. alþingismenn. Það fer nú að líða að þingslitum. Verður þessi fundur hinn síðasti í hv. d. á þessu þingi. Fundargerðir síðustu þriggja funda hafa eigi legið frammi. Vil ég óska eftir leyfi hv. d. til þess að undirrita þær síðar og skoða það samþ., ef enginn mælir því í gegn.

Þetta þing hefur afgr. ýmis merk lög, sem marka munu djúp spor á framfarabraut og skapa á komandi árum betri lífskjör og bjartari framtíð, svo sem raforkulögin, skatta- og tollalögin, lög um smáíbúðalán og ýmis önnur lög snertandi fjárhag og atvinnulíf landsmanna.

Þá hafa verið afgreidd hér í dag lög um happdrætti dvalarheimilis aldraðra sjómanna. Eru þau makleg og virðuleg sumargjöf til þeirra, sem á langri ævi hafa oft hætt lífi sínu öðrum fremur til þess, að hér mætti búa þjóð með vaxandi menningu og framfarir á öllum sviðum, — menn, sem fórnuðu hátíðum og helgidögum, svefni, hvíld og heimilisunaði, vikum og mánuðum saman, til þess að aðrir gætu átt betri daga. Megi þessi sumargjöf verða hinum öldruðu sjómönnum til mikillar gleði og blessunar og veita þeim í elli þeirra mikið öryggi og friðsælar, áhyggjulausar stundir eftir langan og erfiðan vinnudag.

Þetta þing er hið fyrsta, er ég hef verið í forsæti. Mér hefur verið það mikil gleði, hversu hv. dm. hafa auðveldað mér fundarstjórn með því að sýna fram úr skarandi prúðmennsku í öllum málaflutningi, óvenjulega skyldurækni í hvívetna, bæði í störfum sínum í nefndum og á fundum í deildinni, er allt hefur aukið á virðingu þessarar hv. deildar. Fyrir það flyt ég alveg sérstaklega hv. dm. alúðarþakkir. Þeim hv. þm., er nú halda til annarra landa, svo og þeim, er halda til heimila sinna fjær og nær, óska ég góðrar ferðar og góðrar heimkomu. Þeim og fjölskyldum þeirra svo og öllu starfsliði Alþingis óska ég gleðilegra páska og gleðilegs komandi sumars, um leið og ég þakka þeim fyrir veturinn og samstarfið um þingtímann.

Hittumst öll heil við setningu næsta reglulegs Alþingis.