14.04.1954
Sameinað þing: 52. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1741 í B-deild Alþingistíðinda. (3681)

Starfslok deilda

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Hv. alþm. — Eysteinn Jónsson fjármálaráðherra mun verða frá störfum um nokkurra mánaða skeið sakir sjúkleika. Á ríkisráðsfundi í dag var Skúli Guðmundsson alþingismaður skipaður til þess að gegna störfum fjármálaráðherra í fjarveru Eysteins Jónssonar. Ég veit, að allir hv. alþm. taka undir óskir okkar samstarfsmanna hæstv. fjmrh. í ríkisstjórninni um, að við megum hitta hann hið allra bráðasta heilan heilsu.

Vegna fjarveru forseta Íslands hafa handhafar valds forseta Íslands gefið út svo hljóðandi bréf á ríkisráðsfundi í dag:

„Handhafar valds forseta Íslands samkv. 8. gr. stjórnarskrárinnar, forsætisráðherra, forseti sameinaðs Alþingis og forseti hæstaréttar gera kunnugt:

Að vér veitum hér með forsætisráðherra, Ólafi Thors, umboð til þess í voru nafni að slíta Alþingi, 73. löggjafarþingi, er það hefur lokið störfum.

Gert í Reykjavík, 14. apríl 1954.

Ólafur Thors. Jörundur Brynjólfsson.

Árni Tryggvason.

Ólafur Thors.

Bréf handhafa valds forseta Íslands um þinglausnir.“

Alþingi hefur lokið störfum að þessu sinni. Samkvæmt umboði því, er ég nú hef lesið, segi ég Alþingi slitið.