06.10.1953
Efri deild: 3. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 329 í B-deild Alþingistíðinda. (369)

7. mál, gjaldaviðauki

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ekki get ég neitað því, að mér fannst hæstv. fjmrh. fullstuttorður í framsöguræðu sinni um þetta frv. Efni frv. er, eins og þskj. ber með sér, að þeir tekjuliðir, sem þar greinir, þ.e.a.s. vitagjald, gjöld af innlendum tollvörutegundum og ýmsar aukatekjur, séu hækkaðir um 100–560%, eða fast að því sjöfaldaður sá liðurinn, sem mest er hækkaður. Þetta mun óbreytt frá gildandi lögum að öðru leyti en því, eins og grg. skýrir frá, að niður er felldur sá liðurinn, sem fjallaði um 50% álag á eignarskatt. Er þess getið í því sambandi, að gert er ráð fyrir nýrri heildarlöggjöf um tekju- og eignarskatt samkv. samningum milli stjórnarflokkanna, eins og það er orðað í grg. Á Alþingi 1952, 16. jan., var samþ. þál. um heildarendurskoðun á skattalögum, tekjuskiptingu og verkaskiptingu ríkis og bæjar- og sveitarfélaga, sem ég vildi leyfa mér að lesa upp, með leyfi hæstv. forseta. Ályktunin hljóðar þannig:

„Alþingi ályktar að beina þeirri áskorun til ríkisstj., að hún beiti sér fyrir heildarendurskoðun laga um skatta og útsvör, sem stefni að því, að lögfest verði heilsteypt kerfi skattamála, sem byggist á eðlilegri og samræmdri tekju- og verkaskiptingu ríkisins annars vegar og bæjar- og sveitarfélaga hins vegar. Sé jafnframt við það miðað að ofþyngja ekki einstaklingum, hjónum, félögum og atvinnurekstri í opinberum gjöldum, tryggt samræmi og jafnrétti við álagningu gjaldanna, sem mundi auðvelda eftirlit með því, að framtöl séu rétt. Lögð skal einnig áherzla á að gera skattalöggjöfina svo einfalda og auðvelda í framkvæmd sem frekast er unnt. — Rannsókn málsins og undirbúningi þess skal hraðað svo, að ríkisstj. leggi frv. til l. um málið fyrir næsta reglulegt Alþingi.“

Um 20 mánuðir eru nú liðnir síðan þessi þál. var afgr. á Alþ. eftir mjög rækilegan — skulum við segja — undirbúning af hálfu þáverandi og núverandi stjórnarflokka. Enn hefur ekkert sézt frá þessari hv. n., nema hvað nú upplýsist í grg. með frv. hæstv. ráðh., að vænta megi, að á þessu þingi verði lagðar fram till. eða drög að nýrri heildarlöggjöf um tekju- og eignarskatt samkv. samkomulagi stjórnarflokkanna. En eins og ályktun sú ber með sér, sem ég áðan las upp, þá er ætlazt til þess, að miklu víðtækari endurskoðun á skattamálunum fari fram heldur en sú, sem í því felst að endurskoða eingöngu tekju- og eignarskattslögin. Tekju- og eignarskatturinn nemur ekki að jafnaði nema eitthvað milli 12 og 14% af heildartekjum ríkissjóðins. Hann er því aðeins einn liður í skattakerfi ríkisins og ekki nema brot af heildarupphæð óbeinu skattanna, að ógleymdum útsvörum til sveitarsjóða.

Ég vil nota þetta tækifæri til þess að spyrja hæstv. ráðh., hvenær vænta megi tillagna frá þessari n. samkv. því, sem fyrir hana hefur verið lagt, eða tillagna frá ríkisstj. sjálfri, því að ályktuninni er beint til hennar, — hvenær vænta megi heildartillagna um þetta efni frá hæstv. ríkisstjórn. Það er augljóst, að sá háttur, sem upp hefur verið tekinn og haldið nú nokkur síðustu ár, að leggja 100–700% á þá tekjuliði, sem lögfestir hafa verið í mismunandi tilgangi, getur ekki staðizt. Slíkt skapar gífurlegt ranglæti og ósamræmi í skattalöggjöfinni, sem ekki er viðunandi. Og þó að einhverjar breytingar yrðu gerðar á l. um tekju- og eignarskatt, þá er það kák eitt, ef litið er til þess verkefnis, sem ríkisstj. var falið með ályktuninni, en það var að vinna að því, að lögfest verði heilsteypt kerfi skattamálanna og að endurskoðun fari fram ekki aðeins á sköttum til ríkissjóðs, þ.e.a.s. tollum og beinum sköttum, heldur einnig á útsvörum og tekjustofnum bæjarfélaganna. Ég vil ekki mæla gegn því, að þetta frv. fari í n. og fái eðlilega athugun þar, en ég teldi mikilsvert, að hæstv. ráðh. sæi sér fært að skýra hv. d. frá, áður en hún afgreiðir þetta mál, hversu miði þessu starfi og hvort ekki megi vænta einhverra frekari tillagna frá ríkisstj. eða þeirri n., sem vinnur fyrir hennar hönd að endurskoðun skattakerfisins, áður en þingi lýkur nú í vetur.