24.02.1954
Sameinað þing: 35. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í D-deild Alþingistíðinda. (3692)

126. mál, höfundaréttarsamningur

Lárus Jóhannesson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins, áður en málið fer til nefndar, benda nefndinni á, hvort ekki væri nauðsynlegt að taka þetta mál upp á miklu breiðari grundvelli. Ég held, að það hafi verið nokkuð misráðið, þegar við gengum í Bernarsambandið. Ég held, að þeir hagsmunir, sem við höfum verið að verja, hafi orðið til þess, að okkar hagsmunir hafi orðið fyrir borð bornir. Ég er ekki einn af þeim mönnum, sem álíta, að menn eigi að gera sig seka í svonefndum ritstuldi, sem er náttúrlega ekkert sannnefni, en við verðum að reyna að vita fótum okkar forráð, áður en víð stígum ákveðið spor.

Ég hef orðið var við það, að það hafa verið heimtuð óeðlilega há þýðingarlaun af okkur hér á landi, samanborið við fólksfjölda og samanborið við það, sem við fáum greitt fyrir þau fáu verk, sem hafa verið þýdd af okkar tungu. Í sambandi við mál, sem er í hæstarétti núna, hafa komið nokkrar upplýsingar um ritlaun, sem einn íslenzkur höfundur hefur fengið. Það kemur í ljós, að fyrir þýðingarrétt á bók í Ítalíu, sem er 40 milljóna þjóð, hefur hann fengið greidd 40 £. Fyrir rétt á bók í Suður Ameríku allri hefur hann fengið greidd 40 £. Aftur á móti hefur iðulega verið krafizt af okkur 50 £ fyrir þýðingu erlendra bóka á íslenzku. Í því sama máli er einnig upplýst, að ein bók hans mun hafa komið út í Norður-Ameríku og gefið af sér, af því að upplag hennar var mjög stórt, allt upp í 100 þús. dollara. En hvað höfum við svo fengið heim, Íslendingar fyrir það? Af þessum um 100 þús. dollurum fara 80 þús. í milliliðina, 20 þús. koma til höfundarins, en af þeim fara 10 þús. í skatta. Þetta er frá Bandaríkjunum, og var þó engin vernd þar, heldur álíta öll sæmileg útgáfufyrirtæki sjálfsagt að greiða fyrir þýðingar án tillits til milliríkjasamninga um það efni.

Við vitum það eða höfum heyrt um það a. m. k., að útvarpið hér sé látið greiða mikið á annað hundrað þús. kr. — ef til vill meira — fyrir flutningsrétt á erlendum tónverkum, sem réttar njóta. Hvað ætti það að vera hlutfallslega hjá milljónaþjóðum?

Ég vildi biðja n. að athuga þetta mál mjög vandlega og athuga það um leið, hvort ekki væri réttara fyrir okkur að vera alls ekki í Bernarsambandinu, heldur gera sérsamninga við þau ríki, sem við viljum hafa menningarsamband við. Í þessu sambandi vil ég benda á, að það hefur verið okkur ekki einungis til óþæginda, heldur til skammar, að við höfum ekki fengið yfirfærslu á þeim peningum, sem við höfum samið um að greiða fyrir þýðingarrétt. Ég man eftir því, að ég samdi um að greiða fyrir þýðingarrétt á einni bandarískri bók 100 $, sem ég fékk ekki um langan aldur leyfi til yfirfærslu á, og ég fékk í því sambandi skammarbréf frá firmanu, sem ég samdi við. Í bréfi þessu var sagt við mig: Hvað eruð þið að ónáða okkur með að gera samning upp á 100 $, sem þið svo ekki fáið leyfi til að greiða?

Ég vildi aðeins vekja athygli n. á þessu, áður en málið fer til hennar, því að þetta er mál, sem áreiðanlega þarf að athuga mjög nákvæmlega. Ég held, að við höfum verið nokkuð fljótir á okkur að stíga þau spor, sem stigin hafa verið.