02.10.1953
Sameinað þing: 1. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í B-deild Alþingistíðinda. (3700)

Rannsókn kjörbréfa

Frsm. 3. kjördeildar (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. 3. kjördeild hefur athugað kjörbréf þeirra hv. þm., sem eiga sæti í 2. kjördeild, en þeir eru: Andrés Eyjólfsson, þm. Mýr., Bjarni Benediktsson, 1. þm. Reykv., Emil Jónsson, 5. landsk. þm., Gísli Jónsson, þm. Barð., Guðmundur Í. Guðmundsson, 10. landsk. þm., Gunnar Jóhannsson, 4. landsk. þm., Gylfi Þ. Gíslason, 1. landsk. þm., Halldór Ásgrímsson, 2. þm. N-M., Hannibal Valdimarsson, 3. landsk. þm., — Hermann Jónasson, þm. Str., á sæti í 2. kjördeild, en ég nefni hans kjörbréf síðar, — Ingólfur Jónsson, 1. þm. Rang., Jón Kjartansson, þm. V-Sk., Jón Sigurðsson, 2. þm. Skagf., Lúðvík Jósefsson, 11. landsk. þm., Sigurður Bjarnason, 2. þm. N-Ísf., og Skúli Guðmundsson, þm. V-Húnv.

Ég nefndi það aðeins, að ég mundi minnast sérstaklega á kjörbréf Hermanns Jónassonar, þm. Str., en kjörbréf hinna þm., sem ég hef nefnt, hefur kjördeildin ekkert við að athuga og leggur til, að þær kosningar verði teknar gildar; er ekki kunnugt um, að nein kæra hafi borizt um neina af þessum kosningum. En auk þess, sem ég hef þegar nefnt, er þess að geta, að hér hefur legið fyrir kjörbréf Lúðvíks Jósefssonar, 11. landsk. þm., en hann er ekki mættur hér, og einnig hefur legið fyrir kjörbréf varamanns hans eða 1. varamanns Sósfl., Ásmundar Sigurðssonar. Mér sýnist, – og mun kjördeildin vera því sammála, — að ekkert sé á móti því að taka bæði kjörbréfin gild. Ásmundur Sigurðsson er hér mættur og tekur sæti á Alþingi. Og það virðist vera hægt að taka kjörbréf Lúðvíks Jósefssonar gilt, þó að hann sé ekki mættur enn. Það þarf þá ekki að rannsaka það, þegar hann kemur.

Þá eru tveir þm., sem sæti eiga í 2. kjördeild, en ekki eru mættir hér. Það eru Hermann Jónasson, eins og ég gat um áðan, og Jóhann Hafstein, 5. þm. Reykv. En í stað Jóhanns Hafsteins er mætt Kristín Sigurðardóttir, og hefur kjördeildin athugað hennar kjörbréf, sem ekkert er við að athuga, og leggur til, að það verði tekið gilt. Hvað snertir Hermann Jónasson, sem er fjarverandi og ekki hefur verið lagt fram hans kjörbréf, þá virðist ekki annað ráð en að geyma að taka hans kosningu gilda, þangað til hann mætir hér á þinginu, sem væntanlega verður innan mjög skammstíma.