12.11.1953
Efri deild: 19. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1249 í B-deild Alþingistíðinda. (3701)

82. mál, sauðfjársjúkdómar

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Ég hef nú því miður þá afstöðu, gagnstæða við hv. síðasta ræðumann, að ég hef ekkert að þakka hv. landbn. fyrir afgreiðslu í þessu máli. Einstök atriði hef ég þó að þakka frsm., sem ég mun koma að seinna.

En út af því síðasta, sem hv. 1. þm. Eyf. var að segja hér í sambandi við tvö ráðherrabréf, þá gæti nú auðveldlega ráðh. sá, sem ritaði síðara bréfið, hv. þm. Str., upplýst það, hvort í því komi fram nokkur úrskurður snertandi umráðarétt eða eignarrétt á landi því, sem hér er um að ræða. Ég lít svo á, að það bréf út af fyrir sig beri ekki í sér neinn úrskurð. Hins vegar var hitt bréfið ráðstöfun á landinu, og ég hef það að þakka hv. frsm. m.a., að hann sagði, að hreppsstjórinn í Hálshreppi hefði ráðstöfunarrétt á þessu landi f.h. kirkjujarðasjóðs, og það hygg ég hið rétta í málinu, að nú sé það í raun og veru kirkjujarðasjóður, sem eftir eðli málsins sé eigandi landsins, því að prestur Akureyrarkirkju hefur fengið úrskurðuð laun í stað landsréttar.

Hv. frsm. sagði, að það stafaði engin veikindahætta af því, að búendur í Hrafnagilshreppi notuðu Bleiksmýrardal fyrir fé sitt. En nú er það svo, að það bréf, sem landbrh. gaf út og heimilaði eða úrskurðaði Hrafnagilshreppi upprekstur á Bleiksmýrardal fyrir árið 1953, byggði á bréfi frá sauðfjársjúkdómanefnd, sem óskar eftir því, að úrskurður fáist um þetta, af því að ekki megi upphefja varnir vestan Hrafnagilshrepps, sökum þess að enn sé ekki hægt að vita, nema smitun kunni að hafa borizt með fé frá Hólmavík á svæðið vestan þessarar girðingar, austan Héraðsvatna, og þá er það vitað mál, að hættan af því svæði austur á við er fyrst og fremst fyrir jaðarinn að austan, þ.e. Hrafnagilshrepp. Og bændur í Fnjóskadal litu svo á, að með því að heimila Hrafnagilshreppsbúum upprekstur í þeirra land, þá væru þeir að hættunni til settir á sama svið og Hrafnagilshreppur, en Eyjafjarðará mundi ella hamla ágangi fjárins úr Hrafnagilshreppi og fjarlægja þá hættunni. Þetta er því ekki hárrétt ályktun hjá hv. 1. þm. Eyf.

Hv. frsm. sagði, að Hálshreppurinn væri einn þeirra hreppa í landinu, sem hefðu óþrjótandi afréttarland. Og það er rétt, að Hálshreppur hefur mikið afréttarland, en hann er þannig settur, að hann getur ekki notað fyrir alla sína bæi nema ákveðin afréttarsvæði. Á Flateyjardalsheiði er sá góði afréttur, sem frsm. minntist á, en hann geta tæplega notað nema norðurbyggjar dalsins. Hreppurinn er skorinn sundur að endilöngu með svonefndri Fnjóská. Báðum megin árinnar að norðan er notaður afrétturinn á Flateyjardalsheiði, en syðri hluti hreppsins notar og þarf að nota, ef rétt er á haldið, afréttarlöndin fram með ánni, vestari hlutinn að vestan og austari hlutinn að austan. Og þeir viðáttumiklu dalir, sem frsm. minntist á, eystri Bleiksmýrardalur, Timburvalladalur og Hjaltadalur, eru austan árinnar. Þess vegna koma þeir ekki að notum nema austurbyggjum, en vesturbyggjarnir þurfa að nota vestari Bleiksmýrardal og sérstaklega meðan ekki er búið að brúa Fnjóská frammi í dalnum, eins og þó er gert ráð fyrir að kunni að verða; þar er brú á brúalögum ætluð. Og ef það verður niðurstaðan, sem ekki er nú ólíklegt, af því að n. fylgist vel að í málinu, að frv. þetta verði samþ., þá vil ég vænta þess, að þeir, sem það samþykkja, verði stuðningsmenn þess, að áin verði brúuð, svo að vestari byggjarnir geti vikið fyrir þeim, sem leyfður er uppreksturinn samkv. frv., og notað eystri afréttinn.

Þá er eitt, sem ég vildi þakka hv. frsm. fyrir, og það er það, að hann viðurkennir, að ágangur geti orðið að fé Eyfirðinga út með Fnjóská í heimalönd þeirra, sem búa vestan árinnar. Og hann sagði, að það væri vandalaust að girða fyrir dalinn. Ég vil skilja það svo, að hann telji, að girðingarskyldan fylgi með upprekstrinum og þeir, sem áganginn væntanlega veita, eigi að girða. Eitt sinn var það, að girðing var sett þarna upp, en hún er nú fyrnd orðin og niðurbrotin. Ég vil þess vegna lýsa því yfir, að ég treysti því, að það megi gera kröfu til þess, að Eyfirðingar girði fyrir ágang sinn, ef þeir fá með lögum rétt til þess að reka þarna austur á Bleiksmýrardal.

Hv. frsm. sagði, að það væri sjálfsagt að veita Hrafnagilshreppsbúum þennan rétt, af því að þá vantaði upprekstrarland, en ekki Fnjóskdæli, og þess vegna sjálfsagt að samþykkja þetta frv. En ekki er það nú sjálfsagðara en það, að hv. 1. þm. Eyf. upplýsti, að rn. væri ófúst að kveða upp úrskurð í annað sinn um rétt þeirra til upprekstrar. Ég skil það svo, og það verður ekki öðruvísi skilið en svo, að rn. hafi fundizt þetta allvafasamt. Og mér þykir reyndar töluvert djarft, ef allir hér í þessari hv. d. telja svo sig kunnuga aðstæðum, að þeir telji einboðið að setja um þetta lagaákvæði, úr því að rn. taldi þetta svo vafasamt, að það vildi ekki kveða upp úrskurð í annað sinn.

Þá vildi ég minnast aðeins á brtt. Ég hef það sama við hana að athuga og 1. þm. Eyf., að hún heimilar upprekstur svipaðrar fjártölu og áður. En þannig er nú háttað í Hrafnagilshreppi, að þar hefur búnaður mjög breytzt og bændur hafa tekið upp kúabú, en fækkað sauðfé. Ég tel það nokkuð opna löggjöf að heimila þeim upprekstur eins og á fyrri árum ótakmarkað, ef þeim skyldi þóknast að fjölga fé sínu, en fækka nautpeningi, þar sem Fnjóskdælir aftur á móti hafa þá aðstöðu, að þeir geta ekki breytt til í búnaði, og Hálshreppur hlýtur um ófyrirsjáanlega framtíð að leggja áherzlu á það að fjölga sauðfé sínu, eftir því sem landkostir leyfa. Ég ætla ekki að flytja neina brtt. við þessa umr., en áskil mér rétt til þess að flytja um þetta brtt. síðar, nema n. vilji taka það upp að ákveða upprekstrarheimildina við tiltekna fjártölu, elns og rn. gerði í úrskurði sínum s.l. ár. Ég teldi það réttara en að hafa uppreksturinn svona takmarkalausan eins og hann verður með þessu orðalagi. Af því að búnaðarhættir hafa breytzt, þá er þetta óeðlilega ótakmarkað. Enn fremur er ég að velta því fyrir mér, hvort ekki væri rétt að flytja brtt. í þá átt, að Hálshreppsbúar gætu skotið máli sínu til úrskurðar um það, hvort þeir geta ekki orðið fyrir búkreppu af of mikilli skerðingu á landi því, sem tilheyrir þeirra sýslu og þeirra hreppi, með þessum ákvæðum.