14.12.1953
Sameinað þing: 25. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 494 í B-deild Alþingistíðinda. (3702)

1. mál, fjárlög 1954

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Að formi til eru það fjárl., sem nú eru til umræðu, og þó að þau segi ekki allt, þá eru þau þó með vissum hætti spegillinn af hinu pólitíska og efnahagslega ástandi í landinu.

Þetta eru langhæstu fjárlög í sögu þjóðarinnar. Það er raunar engin ný bóla; það er sett met á hverju ári. Síðan 1946 hefur upphæð fjárl. meira en fjórfaldazt, ef bátagjaldeyrisskatturinn er talinn með, sem að vísu er ekki færður á fjárl., en á þar vitaskuld heima.

Upphæð fjárl. er þó ekki það, sem mestu máli skiptir, heldur hlutfallið milli hinna ýmsu tekjustofna og útgjaldaliða. Á hverju ári lækka framlög til verklegra framkvæmda hlutfallslega. Sem dæmi má nefna, að síðan 1946 hefur framlag til vegamála lækkað úr 16.3% í 8.75% af útgjaldaupphæðinni. Ríkisbáknið þenst að sama skapi út með ódæmum, sömuleiðis niðurgreiðslur og styrkir, þrátt fyrir gengislækkunina og allar þær ráðstafanir, sem áttu að binda endi á þetta fyrirkomulag.

Niðurgreiðslurnar eru komnar upp í 50 millj. kr., og nú stendur til að setja á stofn nýtt ráðuneyti, eins konar hermálaráðuneyti, sem verður dýrasta ráðuneyti, sem sögur fara af á Íslandi. Það mun kosta 1 millj. kr. fyrsta árið.

Þá er að athuga, hvernig þessum útgjöldum er jafnað niður á landsfólkið. Á næsta ári munu tollar og óbeinir skattar, þar með talinn ágóði af einkasölum og bátagjaldeyrisskattur, nema samtals eitthvað á milli 400 og 500 millj. kr. og þó nær 500 milljónum. Á hverja fimm manna fjölskyldu munu tollar og óbeinir skattar nema ekki minna en 12 þús. kr. að meðaltali og 15 þús. kr., ef ágóði af einkasölum er talinn með. Ég bið menn að athuga, að þetta er meðaltal. Vitaskuld greiða ekki allir jafnt, en tollar af neyzluvörum koma þyngst niður á stórum fjölskyldum. Ég bið afsökunar á því að þurfa að taka fram svona sjálfsagðan hlut, en það er háttur auðvaldsflokkanna að snúa út úr eins og strákar á gelgjuskeiði, vegna þess að málstaður þeirra þolir ekki rökrænar umræður. Við þetta bætist svo nefskatturinn til trygginganna, en hann nemur nú 1362 kr. á hvern kvæntan mann í Reykjavík. Nú er víst, að þessi nefskattur verður stórhækkaður á næsla ári. Mörgum finnst hinn stighækkandi tekjuskattur nógu þungbær, en hann er þó ekki meira en rúmlega 1/10 af öllum útgjöldunum. Þessa óskaplegu skatta, sem samtals nema yfir 16 þús. kr. að meðaltali á hvert 5 manna heimili, eru menn að greiða í hvert skipti, sem þeir fara í búð til þess að kaupa sér föt og fæði og aðrar nauðsynjar.

Af þessu má sjá, hversu gífurlegri verðhækkun tollarnir valda. Þó eru ekki öll kurl komin til grafar með þessum tölum. Við þetta bætist álagning á tollana, sem er engin smáræðisupphæð. Enn þá er í fersku minni athugun sú, sem gerð var ekki alls fyrir löngu á kostnaðarliðum vörumagns, sem kostar 71/2 millj. kr. í útsölu. Innkaupsverðið var innan við 2 millj., tollar og verzlunarálagning tæpar 5 millj. og bátagjaldeyrisskattur 700 þúsundir.

Þetta ásamt gengislækkuninni hafa verið þær aðferðir, sem valdhafarnir hafa notað til þess að lækka kaup verkamanna og þar með vinnutekjur alls vinnandi fólks í landinu, bæði til sjávar og sveita, bænda og annarra millistétta.

Frá 1947 til 1952 lækkaði kaupmáttur vinnulauna um nálega þriðjung, og þó hefði þessi kauplækkun orðið miklu meiri, ef ekki hefði tekizt að hamla nokkuð upp á móti henni með mörgum fórnfrekum verkföllum, og sum þeirra urðu mjög hörð og langvinn, t.d. mánaðarverkfall 1947 og þriggja vikna verkfall 20 þúsund verkamanna 1952. Þrátt fyrir þetta hefur kaup íslenzkra verkamanna lækkað um helming, reiknað í dollurum, horið saman við kaup verkamanna í Bandaríkjunum. Átta stunda vinnudagurinn er ekki raunverulegur lengur, vegna þess að vinnulaun fyrir átta stundir nægja engan veginn til framfærslu fimm manna heimilis.

Ástæðan fyrir þessari gífurlegu kjararýrnun er núverandi skipun Alþingis. Á þessu má sjá, að það varðar almenning ekki litlu, hvernig Alþingi er skipað. Getur nokkur alþýðumaður, sem lætur sig hag heimilis síns nokkru varða, látið það afskiptalaust? Getur nokkur alþýðumaður varið það fyrir samvizku sinni að stuðla að því með atkvæði sínu, að stétt hans sé þannig rúin og rænd og árangurinn af fórnfrekri baráttu kynslóðanna smám saman að engu gerður?

En hvar á að taka féð? munu stjórnarherrarnir spyrja. Því er til að svara, að meðan ekki er greiddur eyrir í toll af öllum þeim varningi, sem hernámsliðið flytur inn, og setuliðið greiðir ekki eyri í skatt, þarf ekki að kvarta um féleysi. Það er líka þarflaust að barma sér yfir féleysi, meðan heildsölum og olíufélögum eru afhentar ómældar fjárupphæðir af öllum þeim vörum, sem ríkisstj. flytur inn frá Sovétríkjunum. Af þessum vörum er greiddur tugmilljónaskattur blátt áfram fyrir enga þjónustu. Farmgjöld af olíu frá Sovétríkjunum eru t.d. lægri en áður. Heimsmarkaðsverðið hefur ekki hækkað. Samt er olían seld á sama verði og áður. Ef Bandaríkjamönnum og íslenzkum gæðingum þeirra væru ekki gefnar slíkar stórgjafir á kostnað almennings, væri hægt að afnema bæði söluskattinn og bátagjaldeyrisskattinn, og það væri vandalaust að afla fjár til nauðsynlegra verklegra framkvæmda og til eflingar atvinnulífsins í landinu. Væri hins vegar hernámsliðið látið víkja úr landi, horfið frá þeirri stefnu í efnahags- og utanríkismálum, sem mótuð er og ákveðin í höfuðborg Bandaríkjanna, en tekin upp sú stefna, sem tryggt gæti fullnýtingu allra íslenzkra framleiðslutækja og hverjum Íslendingi atvinnu við arðbær störf, þá væri fjárhag ríkissjóðs einnig fullborgið.

Ég hef nú í örfáum orðum lýst afleiðingum hinnar amerísku stefnu undanfarinna sex ára fyrir hið vinnandi fólk á Íslandi. Það hefur að vísu hallað ört undan fæti, en þó er þetta aðeins byrjunin, ef haldið verður áfram á sömu braut. Hverjar eru horfurnar, ef hinni amerísku stefnu yrði fylgt eftirleiðis?

Við skulum þá fyrst líta á, hvernig ástandið var s.l. vetur, áður en hinn mikli viðskiptasamningur við Sovétríkin var gerður. Samkv. upplýsingum stjórnarvaldanna sjálfra voru 2/3 hlutar ársframleiðslunnar af frystum fiski óseldir. Verðið á þeim fiski, sem við seldum til Bandaríkjanna, var aðeins brot af framleiðsluverði. Dæmi eru til þess, að seldir voru farmar til Bandaríkjanna á verði, sem var talsvert miklu lægra en meðgjöf ríkissjóðs. Það var því frekar um gjöf en venjuleg viðskipti að ræða. Eins og sakir standa, gefur salan til Sovétríkjanna um það bil helmingi hærra fiskverð en salan til Bandaríkjanna. Aðalviðskiptaland okkar á Marshallsvæðinu, Bretland, hafði sagt okkur viðskiptastrið á hendur. Við gátum engan ísfisk selt nema lítils háttar til Þýzkalands. Horfurnar í saltfisksmarkaðslöndunum voru yfirleitt óglæsilegar. Það var búið að leggja blátt bann við framleiðslu fisks. Íslendingum var bannað að vinna við aðalframleiðslu sína, sem er undirstaðan undir lífi þjóðarinnar og menningu. Ef ríkisstj. hefði ekki verið neydd til þess, sem hún hafði stritazt á móti í sex ár, að gera verzlunarsamning við Sovétríkin, þá mundi fiskframleiðslan hafa stöðvazt að miklu leyti og mikill þorri Íslendinga hefði aðeins átt tveggja kosta völ, að vera settir niður á Keflavíkurflugvelli eða ganga atvinnulausir, og fjöldi manna hefði raunar aðeins átt einn kost, atvinnuleysið.

Hagspeki Marshallstefnunnar á öllum sviðum atvinnulífsins var í samræmi við þetta sjálfskapaða ástand í undirstöðuatvinnuvegum landsmanna. Mjög mikil rýrnun varð á bátaflota landsins, en samtímis var nýsmíði í innlendum skipasmíðastöðvum lögð niður. Til þess að fullnægja brýnustu þörfum þarf að byggja a.m.k. 800 íbúðir á ári í Rvík. Í stað þess hafa aðeins verið byggðar um 300 íbúðir. Mikill hluti íslenzks iðnaðar var lagður í rústir. Markaður fyrir landbúnaðarafurðir þrengdist stöðugt vegna minnkandi kaupgetu. Með tilbúinni lánsfjárkreppu var Íslendingum bannað að vinna og framleiða, sækja sjóinn, afla sér nýrra atvinnutækja, byggja yfir sig hús.

Hernámsflokkarnir klifa stöðugt á því, að við séum á áhrifasvæði Bandaríkjanna og Bretlands. Þess vegna eigum við engan annan kost en að fylgja valdboði þessara landa og haga allri okkar stefnu samkv. því í pólitískum, atvinnulegum og viðskiptalegum efnum. Þess vegna verður atvinnulíf okkar að vera algerlega háð þessum löndum. Þess vegna verðum við að fylgja þeim í einu og öllu á alþjóðavettvangi. Þess vegna verðum við að leyfa þeim ótakmörkuð afnot herstöðva í landi voru. Þess vegna verðum við að gerast þátttakendur í styrjöld með þeim, ef til ófriðar skyldi draga.

Hvað bíður okkar, ef þetta væri satt?

Öllum ber saman um, að ný kreppa sé að hefjast í Bandaríkjunum. Ekkert virðist geta stöðvað skriðuna nú, eftir að vopnaviðskiptum í Kóreu er hætt. Hagkerfi auðvaldsins á sínu hæsta og síðasta stigi þolir ekki frið til lengdar. Þessi kreppa mun flæða yfir allt áhrifasvæði Bandaríkjanna. Þeir, sem muna kreppuna árin eftir 1930, eiga auðvelt með að gera sér í hugarlund, hvað þetta mundi þýða fyrir Ísland, og eru horfurnar nú þó miklu ískyggilegri en þá. Fiskafurðir okkar, sem nú eru í lágu verði, mundu hrynja í verði. Nú eru þær lítt seljanlegar í þessum löndum. Ef kreppu ber að höndum, munu þær verða að heita má óseljanlegar. Afleiðingin yrði efnahagslegt hrun. Hörmungar atvinnuleysisins og hungurvofan mundu á ný gista heimili verkamanna. Bændur mundu flosna upp af búum sínum vegna þverrandi kaupgetu fólksins í bæjunum. Fjöldi millistéttarmanna mundi verða gjaldþrota og missa eignir sínar.

Og ef nú það ráð yrði upp tekið í höfuðstöðvum auðvaldsins, sem jafnan hefur verið fangaráð gegn kreppunum, ný styrjöld — hvað þá? Ég skal taka það fram, að í þetta skipti standa miklar vonir til, að það takist að afstýra því, vegna styrkleika hins sósíalistíska heims og andstöðu almennings í auðvaldslöndunum. En ekki er það dyggð okkar íslenzku valdhafa að þakka. Sjálfir hafa þeir lýst því margsinnis yfir, að þeir hefðu það eftir beztu heimildum, að ný stórstyrjöld væri á næsta leiti. Og ef ógæfan skyldi dynja yfir, hver verða þá örlög íslenzku þjóðarinnar?

Herstöðvar Bandaríkjanna eru miðsvæðis á þéttbýlasta hluta landsins, þar sem meira en helmingur íslenzku þjóðarinnar á heima. Einn af aðdáendum Bandaríkjanna, Jóhann Sæmundsson prófessor, lýsti því fyrir almenningi í ræðu sinni 1. des. s.l. samkv. opinberum bandarískum heimildum, hvernig vopn nútímans mundu nægja til þess að valda hryllilegum hörmungum á öllu þessu svæði í einni svipan. Árás á sjálfar herstöðvarnar mundi nægja til þess að leiða hættu tortímingarinnar yfir allt svæðið. Og þetta kalla þeir vernd. Það er ólíklegt, að nokkur stjórnmálamaður sé svo blindur af ofstæki eða hafi tekizt að stinga samvizku sinni svo rækilega svefnþorn, að hann viti það ekki, að lið Bandaríkjanna hér á landi getur enga vörn veitt, heldur aðeins boðið tortímingunni heim, enda auðsætt hverjum heilvita manna með opin augu, að þegar herstöðvar eru settar miðsvæðis í mesta þéttbýlinu og engar ráðstafanir gerðar til varnar fólkinu, ekki svo mikið sem eitt loftvarnabyrgi, svo að nokkuð sé nefnt, þá er ekki verið að vernda líf Íslendinga, heldur á að fórna lífi þeirra, vegna þess að land þeirra er þannig í sveit sett á hnettinum, að þaðan má fara til árása gegn hverjum þeim aðila í Evrópu, sem Bandaríkin kynnu að lenda í styrjöld við. Enginn fer dult með þetta í Bandaríkjunum sjálfum. Það er hægt að nefna fjölda tilvitnana úr bandarískum ritum, þar sem því er lýst yfir umbúðalaust, að lífi þjóðar eins og Íslendinga verði að fórna til þess að bægja hættunni frá Bandaríkjunum. Það er erfitt að komast hjá þeirri ályktun, að til séu íslenzkir stjórnmálamenn, sem vilja beinlínis, að íslenzka þjóðin færi þessa fórn fyrir auðvaldsskipulagið í heiminum, sem vilja, að hún verði leidd á blótstallinn til friðþægingar því goði, sem þeir tigna. Hitt er jafnvíst, að kjósendur þeirra vilja það ekki. En þá taka þeir líka á sig þunga ábyrgð með því að trúa slíkum mönnum fyrir örlögum þjóðar sinnar.

Í stuttu máli: Ef sú kenning væri rétt, að Ísland yrði að vera háð Bandaríkjunum og lúta vilja þeirra efnahagslega og pólitískt, vegna þess að það sé af náttúrunnar hendi á áhrifasvæði þeirra, þá eru aðeins tveir möguleikar fram undan: efnahagslegt hrun eða tortíming.

Er það samboðið þessari þjóð að sætta sig við slík örlög? Nei, það er henni ekki samboðið. Kenningin um áhrifasvæði Bandaríkjanna sem einhverja óumflýjanlega náttúrustaðreynd er falskenning. Við erum á því áhrifasvæði, sem við höfum sjálfir valið, og það eru til aðrir kostir.

Kreppan mun aðeins ná til auðvaldslandanna. Sósíalistísku löndin snertir hún ekki. Þvert á móti mun kaupmáttur fólksins fara ört vaxandi í þessum löndum og síauknir möguleikar fyrir viðskipti við þau, ekki sízt fyrir okkur Íslendinga. Mikil viðskipti við sósíalistísku löndin munu einnig hafa hagstæð áhrif á viðskipti okkar við önnur lönd. Viðbrögð auðvaldslandanna í Vestur-Evrópu við kreppunni munu alveg vafalaust verða kapphlaup um stóraukin viðskipti við sósíalistísku löndin. Það ríður á fyrir okkur Íslendinga að verða ekki með seinni skipunum, að verða ekki afskiptir í þeim leik. Ég held því ekki fram, að kreppan í auðvaldslöndunum muni samt sem áður ekki koma við okkur Íslendinga, en hún þarf ekki að valda neinu hruni, ef við högum okkur skynsamlega. Við höfum t.d. ekki efni á að ala áfram þann stórgróðalýð, sem nú lifir afætulífi á íslenzku þjóðinni, og við höfum heldur ekki efni á að láta undir höfuð leggjast að hagnýta allt vinnuafl þjóðarinnar á eins arðbæran hátt og kostur er, og við höfum ekki efni á að láta auðlindir landsins liggja ónotaðar.

Við þurfum ekki að leyfa Bandaríkjunum herstöðvar í landi voru. Við getum hvenær sem er sagt þeim að fara heim. Við þurfum ekki að taka þátt í styrjöld með þeim. Við þurfum ekki að gerast meðsekir þeim um hryllilegustu múgmorð allra tíma. Við getum á ný lýst yfir ævarandi hlutleysi okkar í ófriði. Við getum lagt okkar lóð á metaskálarnar til þess að koma á sáttum milli stórveldanna, til þess að koma í veg fyrir glæpinn mikla: nýja styrjöld. Við getum krafizt þess í nafni alls þess, sem mönnunum er heilagt, að friðhelgi okkar verði virt. Við getum skírskotað til samvizku heimsins, og sú skírskotun mundi finna hljómgrunn í hjörtum hundraða milljóna um allan heim. Á þessum siðferðislega vettvangi mundu hlutföllin snúast við. Við mundum verða stórveldi og Bandaríkin umkomulaus og smá.

Á þessum grunni er reist sú stefna, sem Sósfl. markaði með stefnuskrá þeirri, sem birt var almenningi fyrir kosningarnar í sumar. Hún byggist á bjartsýni og trú á íslenzku þjóðina, framtíð hennar og veglegt hlutverk. Í samræmi við þessa stefnuskrá hafa þingmenn flokksins þegar flutt mörg frv. og till. á þessu þingi. Þeir hafa fyrst af öllu flutt frv. um uppsögn hernámssamningsins. Þeir hafa flutt frv. um aukningu togaraflotans og smíði togara innanlands. Er þar lagt til, að keyptir verði til landsins 8 fullkomnir togarar og jafnframt hafin smíði togara hér á landi. Fyrst um sinn verði gerðir samningar um smíði tveggja slíkra skipa af fullkomnustu gerð. Þá flytja þeir frv. um lán úr fiskveiðasjóði til bátasmíða innanlands, annað frv. um ráðstafanir til þess, að stofnlánadeild sjávarútvegsins geti haldið áfram starfsemi sinni, og hið þriðja um útvegun stofnfjár til Búnaðarbanka Íslands, að upphæð 60 millj. kr., til þarfa landbúnaðarins. Þá flytja þeir mikið frv. um raforkuframkvæmdir, sem gerir ráð fyrir miklu átaki til þess að fullnægja raforkuþörf hinna ýmsu landshluta með stórum og smáum raforkuverum, og þessar framkvæmdir miðaðar við það, að þær geti orðið arðbærar og grundvöllur að iðnaði. Samtímis skal hafinn undirbúningur að stórvirkjun í Þjórsá. Þá flytur flokkurinn frv, að lagabálki um byggingu íbúðarhúsa. Samkvæmt því frv. skal hver íslenzkur ríkisborgari hafa rétt til að byggja sér íbúð og njóta til þess ákveðinnar aðstoðar hins opinbera. Frv. þetta tekur upp aftur öll ákvæði laganna frá 1946, sem hernámsflokkarnir hafa fellt úr gildi, og mörgum merkum nýmælum er bætt við. Samkv. kaflanum um útrýmingu heilsuspillandi íbúða ber bæjar- og sveitarfélögum að byggja nægilegt af íbúðarhúsum til þess að fullnægja þörfum þeirra, sem í slíkum íbúðum búa. Ríkissjóður skal lána 75% af byggingarkostnaði slíkra húsa með 3% vöxtum og auk þess 1/10 hluta byggingarkostnaðar vaxtalaust til 50 ára. Þá er ákvæði um rétt manna til lána úr veðdeild Landsbankans. Helmingur af tekjum tóbakseinkasölu skal að nýju renna til byggingar verkamannabústaða, og Byggingarfélag alþýðu í Reykjavík, sem svipt hefur verið réttinum til bygginga, skal fá þann rétt að nýju.

Þá flytur flokkurinn mörg frv. um hagsmuna- og réttindamál alþýðu. Í fjórða sinn flytur hann frv. um atvinnuleysistryggingar og í áttunda sinn frv. um hvíldartíma á togurum, enn fremur frv. um þriggja vikna orlof og frv. um, að þriðjungur af kaupi sjómanna á fiskiskipum skuli vera skattfrjáls, og loks frv. um, að persónuiðgjöld almannatrygginganna, þar með talin iðgjöld sjúkrasamlaga, skuli falla niður, en tilsvarandi upphæð greiðist beint úr ríkissjóði. Þetta mundi létta af hverju alþýðuheimili þungum nefskatti, sem nemur t.d. í Reykjavík og víðar 1362 kr. á ári fyrir hjón.

Allt þetta er raunhæft og framkvæmanlegt. En skilyrði fyrir því er, að tekin verði upp ný stefna í efnahagsmálum þjóðarinnar í samræmi við það, sem ég hef áður sagt, að horfið verði frá hinum fjarstýrðu bandarísku stjórnarháttum og tekin upp sjálfstæð stefna í samræmi við hagsmuni Íslands í nútíð og framtíð.

Hið algera gjaldþrot Marshallstefnunnar hefur valdið því, að hernámsflokkarnir hafa haft nokkra tilburði til undanhalds. Bæði Alþýðufl. og Framsfl. hafa t.d. talað allhátt um nauðsyn þess að endurskoða hernámssamninginn. Það hefur verið gerður viðskiptasamningur við Sovétríkin, og stjórnarflokkarnir lofuðu hátíðlega að afnema hið illræmda fjárhagsráð. Þetta er þó meira í orði en á borði. Endurskoðun hernámssamningsins, þar sem núverandi ríkisstj. Íslands og Bandaríkjastj. væru samningsaðilar, gæti engu breytt, sem máli skiptir. Meðan hið ameríska herlið er hér á landi, fer það sinn fram, hvað sem öllum samningum líður, eins og dæmin sanna. Samningurinn við Sovétríkin er þegar í mikilli hættu. Heildsalarnir eru mjög tregir að kaupa hinar umsömdu vörur frá Sovétríkjunum, vegna þess að þeir geta lagt enn meira á vörur frá öðrum löndum, og í viðskiptunum við Sovétríkin kemur enginn dulinn ágóðahlutur í erlendum gjaldeyri til greina. Á þessu má sjá, hvernig saman koma hagsmunir íslenzkra gróðamanna og Bandaríkjanna. Loforðið um afnám fjárhagsráðs reyndist vera fals eitt. Frv. ríkisstj. er í rauninni þess efnis, að breytt er um nafn á fjárhagsráði. Fyrirkomulagið helzt, aðeins nafninu er breytt. En æðsta stjórn efnahagsmálanna skal vera í höndum umboðsstofnunar Bandaríkjanna á Íslandi, sem ber nafnið Framkvæmdabanki Íslands.

En þetta undanhald í orði sýnir þó hinn mikla þunga almenningsálitsins. Fyrir þrotlausa baráttu og upplýsingastarfsemi Sósfl. allt frá því að Keflavíkursamningurinn var gerður 1946 til þessa dags er þjóðin að vakna. Og nú ríður á að reka flóttann. Ráð afturhaldsins er að reyna að sundra þeim fylkingum, sem eru að rísa til andófs. Þess vegna leggur Sósfl. megináherzlu á að sameina þessar fylkingar í samstilltri sókn og vörn, hvað sem öllum öðrum ágreiningsmálum líður. Við höfum gert ítrekaðar tilraunir til þess að fá Alþfl. til að taka upp samstarf við Sósfl. um brýnustu hagsmunamál verkalýðsins. Við höfum reynt að fá Þjóðvfl. til þess að taka höndum saman við okkur til þess að sameina alla þjóðholla Íslendinga í eina fylkingu í þjóðfrelsisbaráttunni. Báðir hafa þessir flokkar þverneitað öllu samstarfi og hrópað eins og fávitar gömul og gatslitin vígorð Morgunblaðsins. Ég veit, að þetta er gert í fullri óþökk við alla hina mörgu fylgjendur þessara flokka, sem eru svo heilbrigðir á sálinni, að þeir geta hugsað rökrænt, ótruflaðir af hinum sefasjúka hávaða. Hvenær hafa verkamenn látið mismunandi skoðanir á því, hvort Morgunblaðið eða Þjóðviljinn segði sannara um ástandið í Sovétríkjunum, sundra samtökum sínum í verkfallí? Það væri ekki ónýtt fyrir atvinnurekendur, ef hægt væri að beita slíku bragði. Þessi afstaða forustumanna Alþfl. og Þjóðvfl. er bezta þjónustan, sem hægt er að láta afturhaldinu í té eins og sakir standa. Samstarf alþýðunnar í hagsmunabaráttunni og allra andstæðinga hernámsins í þjóðfrelsisbaráttunni er lífsnauðsyn fyrir íslenzka alþýðu og fyrir íslenzku þjóðina. Þess vegna verður hún að komast á, hvað sem sviksömum og misvitrum foringjum líður. Til þess verður að finna ráð. Hinn óbreytti kjósandi verður að koma vitinu fyrir þessa foringja, og ef það tekst ekki, þá er aðeins eitt ráð eftir skilið: að fylkja sér um þann flokk, sem af alhug berst fyrir samstarfi, hvað sem öllum ágreiningi, sem ekki snertir kjarna málsins, líður, að fylkja sér um Sósfl. Og það er öruggasta ráðið, ráð, sem er alveg víst að dugir.

Verkamenn, bændur, menntamenn, Íslendingar, snúum bökum saman á örlagastundu.