09.12.1953
Efri deild: 30. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 330 í B-deild Alþingistíðinda. (372)

7. mál, gjaldaviðauki

Frsm. (Lárus Jóhannesson):

Herra forseti. Í frv. þessu, sem er gamall kunningi, fer ríkisstj. fram á það, að henni verði heimilað að innheimta með viðauka eins og undanfarin ár ýmis gjöld og skatta til ríkissjóðs, mismunandi háum eftir eðli gjaldanna. Í undirbúningi fjárlagafrv. fyrir yfirstandandi ár hefur verið gert ráð fyrir þessu, og er þetta endurnýjunarheimild að öllu leyti, en þó felld úr heimild til þess að innheimta með 50% viðauka eignarskatt, þar sem gert er ráð fyrir nýrri löggjöf um það efni á þessu þingi.

Fjhn. hefur athugað frv. þetta og er sammála um að leggja til, að það verði samþ. óbreytt við þessa umr. N. gerir þann fyrirvara, að fyrir henni liggur frv. til l. um aukatekjur ríkissjóðs og stimpilgjöld, og ef þau frv. skyldu verða samþ. fyrir áramót, þá falla niður b- og e-liðir. En þar sem búast má við, að svo verði ekki, úr því að svona áliðið er, er lagt til, að frv. þetta verði samþ.