12.10.1953
Sameinað þing: 5. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 379 í B-deild Alþingistíðinda. (412)

1. mál, fjárlög 1954

Ásmundur Sigurðsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Hv. 2. þm. Eyf., sem talaði hér á undan mér, vildi láta skina í það, að haftastefna Framsóknar og íhaldsins hefði eitthvað verið skyld sósíalisma. Ég vil aðeins taka það fram, að sú haftastefna þessara flokka, sem hann ræddi um, var ekki snefil í ætt við sósíalisma, heldur beinlínis tilraun til þess að ívilna gæðingum sínum á kostnað fjöldans, og fjöldinn hefur orðið svo óánægður með hana, að þeir neyddust til þess að slá svolítið af.

Nú eru liðnir nokkrir dagar síðan fjárlfrv. það, sem hér er til meðferðar, var lagt fram á Alþ. Í tilefni þess, að frv. var lagt fram þegar í þingbyrjun, hefur annað aðalstjórnarblaðið hér í bænum séð ástæðu til þess að bera sérstakt lof á hæstv. fjmrh. fyrir þann framúrskarandi dugnað að hafa fjárlfrv. tilbúið svo fljótt eftir nýja stjórnarmyndun. Við samanburð á frv. og fjárl. yfirstandandi árs kemur greinilega í ljós, að frv. er að mestu endurprentun þeirra, að vísu með lítils háttar breytingum einstakra liða, sem leiðir af vísitölubreytingum, og örfáum öðrum. Skal gerð stutt grein fyrir þessu máli í fáum orðum.

Svo sem áður hefur verið, eru skattar og tollar langsamlega mesti hluti ríkisteknanna, eða samtals áætlaðir 325.2 millj. kr. Það er 3 millj. og 800 þús. kr. hærra en á núgildandi fjárl., og er hækkunin á eftirtöldum liðum: Verðtollurinn hækkar um 1 millj., innflutningsgjald af benzíni hækkar um 300 þús., aukatekjur hækka um 3.5 millj., og söluskattur hækkar um 2 millj. Tekjur af rekstri ríkisstofnana eru áætlaðar 95.7 millj. í staðinn fyrir 91.08 á þessu ári, og þar munar mestu um hækkun á tóbakseinkasölu, sem er 4 millj., eða hækkar úr 35 millj. upp í 39. Aðrar tekjuáætlanir breytast mjög lítið.

Um gjöldin skal það helzt tekið fram, að um hækkanir er aðallega að ræða á eftirtöldum gr. og einstökum liðum þeirra: Æðsta stjórn landsins hækkar um 85 þús. Stjórnarráðið hækkar um 1 millj. og 150 þús., utanríkismálin um tæplega 1 millj. og 200 þús., og í sambandi við það vil ég þó geta þess, að meginhluti þeirrar hækkunar er vegna þess, að það var tekið upp stjóramálasamband við Sovétríkin á þessu ári, þar sem svo var nú komið, að ríkisstj. neyddist til þess aftur að taka upp viðskipti þangað, og nú eru þau aftur orðin bezta og stærsta viðskiptaland okkar. Þess vegna neyddist hún til þess að taka þetta stjórnmálasamband upp aftur. Innheimta tolla og skatta hækkar um 1 millj. og 100 þús., samgöngur um 1 millj. og 100 þús., og þar er Skipaútgerð ríkisins áætluð hækka um nærri því 11/2 millj., en styrkur til flóabáta og vöruflutninga lækkar um 350 þús. Kennslumálin hækka um 2.2 millj., sjávarútvegsmálin um 717 þús., raforkumál um 7 millj., félagsmál um 480 þús. Síðan hækka dýrtíðarráðstafanir um 6 millj. og I00 þús. kr. Þetta eru helztu hækkanir, og þó sýna þessar tölur ekki að fullu hlutfallslega hækkun hinna ýmsu liða vegna þess, hve heildarkostnaður þeirra er misjafn.

Þá eru nokkrir liðir, sem lækka í áætlun, og þessir eru helztir: Vega- og brúarmál eru látin lækka um 2 millj. og 200 þús. Vita- og hafnarmál lækka um 1 millj. og 200 þús. Framlag til bókmennta, vísinda og lista lækkar um 260 þús. Landbúnaðarmál lækka um 7 millj. Og eignahreyfingar á 20. gr., þ.e. afborganir lána og eignaaukning ríkisins, lækka um rúmlega 2 millj. og 167 þús. Heildartekjur á sjóðsyfirliti nema samkv. áætlun 430 millj. og 300 þús., en heildarútgjöld 428 millj. og 700 þús., svo að eftir verður hagstæður greiðslujöfnuður, sem nemur 1.6 millj. kr. Hér er um að ræða 6 millj. og 700 þús. kr. hækkun frá fjárl. yfirstandandi árs.

Ég ætla, að þetta yfirlit ásamt því, sem áður hefur verið sagt hér, nægi til þess að sýna þeim, sem á hlusta, þann sannleika, að hér er ekki um neina heildarstefnubreytingu að ræða frá fjármálastjórn fyrri ára. Þeir, sem telja hana til fyrirmyndar, munn því telja slíkt vel farið, en áður en dómur fellur í því máli, er rétt að koma frekar inn á aðra eðlisþætti þessa máls, þá þætti, sem snerta tengsl fjármálastjórnarinnar við hagsmuni atvinnulífsins og afkomu almennings. Fjármálastjórnin verður að dæmast eftir því, hvort hún miðar að því að efla atvinnulífið og framleiðsluna og þar með þjóðartekjurnar eða hún stefnir til hins gagnstæða. Fjármálastjórnin verður enn fremur að dæmast eftir því, hvort hún snertir þannig hag einstaklingsins, að hún reyni að gera öllum fjöldanum svo auðvelt að lifa sem unnt er, eða hún notar vald sitt til þess að ívilna nokkrum útvöldum á kostnað fjöldans. Allt þetta og fleira verður að athugast vandlega, en ekki það eitt, hvort tekjur og gjöld standast á.

Ég hef gefið þær upplýsingar, að af 430 millj. kr. áætluðum tekjum skuli 325 millj. kr. fengnar með sköttum og tollum. Þessir tekjuliðir skiptast í tvo flokka: Í fyrsta lagi beina skatta, sem skattgreiðandinn greiðir beint úr pyngju sinni, svo sem tekju- og eignarskatt. Þessir skattar eru svo hluti hinna opinberu gjalda, er almenningur veit helzt af og helzt valda því óánægju. En hjá okkur eru þessir skattstofnar ekki nema lítill hluti útgjalda miðað við hina óbeinu skatta og tolla, sem teknir eru í vöruverði. Skiptingin er sem næst því, að beinir skattar nemi um það bil 65 millj. kr., en óbeinir skattar og tollar nema um það bil 260 millj. kr.

Nú er það almennt vitað og viðurkennt m.a. af þeim ræðumönnum, sem hér hafa talað á undan mér úr stjórnarflokkunum, að gildandi reglur um álagningu og innheimtu þessara 65 millj. kr. í beinum sköttum eru löngu úreltar og ranglátar í garð hinna tekjulægri stétta í þjóðfélaginu. Þó verður ekki enn þá séð, að á leiðinni sé nein leiðrétting þess ranglætis af hálfu ríkisstj., a.m.k. hafa þær till., sem fram hafa komið frá einstökum þm. þeirra flokka á síðustu þingum, ekki miðað í þá átt.

En svo mikið sem segja má með réttu um ranglæti í innheimtu og álagningu þessara beinu skatta, þá verður það þó mörgum sinnum meira, þegar litið er á hina óbeinu skatta og tolla, sem allir leggjast á vörur eða þjónustu í einhverri mynd, sumir — eins og t.d. söluskatturinn — oftar en einu sinni. Þrír hinir hæstu þessara óbeinu skattstofna nema samtals þessum upphæðum: Vörumagnstollurinn er 24 millj., og það verða að meðaltali 160 kr. á einstakling eða 800 kr. á hverja 5 manna fjölskyldu. Verðtollurinn nemur 110 millj. kr., sem verður að meðaltali 750 kr. á einstakling eða 3750 kr. á 5 manna fjölskyldu. Söluskatturinn, sem áætlaður er 91.5 millj. kr., verður 610 kr. á hvern einstakling, eða 3050 krónur á hverja 5 manna fjölskyldu. Samtals nema þessir þrír tollar því 2251/2 milljón króna, eða 1525 kr. á einstakling, sem verður 7625 kr. á 5 manna fjölskyldu. Og séu teknir allir óbeinir skattar og tollar, sem nema, eins og ég sagði áðan, f60 millj. kr. eða um það bil, þá nemur sú upphæð rúmlega 8500 kr. á hverja 5 manna fjölskyldu. Og ég bið ykkur, hlustendur góðir, að taka vel eftir því og festa ykkur það í minni, að ræðumenn þeir, sem talað hafa hér á undan mér frá stjórnarflokkunum — bæði ráðherra og annar — hafa ekki minnzt á, að ætti að lækka þessa skatta eða þessa tolla, sem leggjast svona á einstaklingana og fjöldann.

Þótt að vísu sé rétt að taka það fram, að þessir tollar koma ekki nákvæmlega jafnt á alla, þá mun samt enginn neita því, að hér er um að ræða gífurlegar álögur, sem neytandinn er látinn greiða í hvert skipti sem hann kaupir eitthvað af sínum lífsnauðsynjum.

Hlutfallstala þessara tolla í tekjuöflun ríkisins hefur mjög hækkað á síðustu árum, einkum við það, að söluskatturinn var upp tekinn, og ég hika ekki við að fullyrða, að hér sé um að ræða hærri tollaálögur á almenningi og nauðsynjum hans en almennt gerist í nágrannalöndum okkar, en þetta er hins vegar mjög þægileg aðferð til þess að taka gjöldin sem allra mest af þeim, sem lægstar tekjurnar hafa. Í verði nauðsynjavara sinna eru þeir látnir greiða féð, án þess að þeir lifa af. Það er enn fremur mjög þægileg aðferð til þess að gefa hvers konar milliliðastarfsemi kost á að græða sem mest á almenningi, því að háir tollar hækka grunnverð vörunnar, sem verzlunarálagning og annar milliliðakostnaður í flestum tilfellum leggst síðan hlutfallslega ofan á.

Það þarf ekki neinn sérlega glöggan skilning á hagkerfi atvinnulífsins til þess að sjá, hvaða afleiðingar og áhrif það hefur á afkomu atvinnuveganna og efnahag almennings, að í tollum skuli hver 5 manna fjölskylda þurfa að greiða 8–9 þús. kr. árlega, og það er fyrir utan alla beina skatta og nefskatta. Auk þess sem hér er um að ræða gífurlega hækkun á beinn útsöluverði fjölmargra nauðsynlegra neyzluvara, sem inn eru fluttar, svo sem vefnaðarvöru, fatnaðar, skófatnaðar og annars því um líks, þá er hér líka um að ræða stórkostlega hækkun á verði fjölmargra hráefna til nauðsynlegrar innlendrar iðnaðarframleiðslu, sem veldur henni erfiðleikum miklum. Þegar svo við bætist, að söluskatturinn leggst á hvers konar þjónustu, sem í té er látin í einni eða annarri mynd, og í mörgum tilfellum oft á sama hlutinn, þá fer að skiljast, hve gífurlega stór þáttur þessi tollaálagning er í hinu almenna verðlagi og verðbólgu, sem nú virðist vera orðið bannfært orð í ræðum og ritum stjórnarflokkanna á Íslandi.

En hvaða áhrif hefur svo þessi stefna í skatta og tollamálum á afkomu ríkisins sjálfs og þjóðarhaginn yfirleitt? Hún hlýtur að hafa þau áhrif að stórauka kröfur launþega allra til hærri launa. Hún hlýtur að hafa þau áhrif að auka til stórra muna framleiðslukostnað hverrar einustu vörutegundar, sem framleidd er í landinu. Hún hlýtur að hafa þau áhrif að minnka til stórra muna kaupgetu almennings og þrengja þannig markaðsmöguleika fyrir innlenda framleiðslu, svo að verulegur hluti hennar virðist óseljanlegur. Og síðast en ekki sízt hefur hún þau áhrif, að hin beinu útgjöld ríkisins sjálfs hækka um marga milljónatugi með þörf fyrir hvers konar hærri launagreiðslur og önnur útgjöld í sambandi við hvers konar þjónustu, sem ríkið lætur í té. Samnefnari þess alls verður svo enginn annar en verri afkoma atvinnuveganna, verri sölumöguleikar á útflutningsvörum okkar erlendis, þar af leiðandi minni framleiðsla og minni þjóðartekjur. Að taka hátt á níunda þús. kr. í tollum af hverri einustu 5 manna fjölskyldu í landinu að meðaltali, það er fjármálapólitík, sem víða hlýtur að segja til sín í afkomu þjóðarinnar allrar.

Við sósíalistar höfum hvað eftir annað bent á þessar staðreyndir á undanförnum árum. Annaðhvort hefur því verið látið ósvarað eða svarað með þeim skætingi, að við heimtuðum aðeins útgjöld og framlög frá ríkinu án þess að vilja sjá því fyrir tekjum á móti. Vitanlega er þetta blekking, því að auk þess sem við höfum margsinnis fært rök fyrir því, hafa enn fremur legið fyrir opinberir, hagfræðilegir útreikningar um, að með afnámi ákveðinna verðhækkunartolla mundi verðlag og vísitala lækka stórlega og útgjöld ríkisins þar með. Við höfum enn fremur bent á þá leið að þjóðnýta ýmsar framleiðslugreinar, sem vitað er að gefa framleiðendum sínum ofsagróða, svo sem t.d. sælgætis- og gosdrykkjaframleiðslu og fleira því um líkt. Það væri sannarlega engu minni ástæða til þess, að ríkið tæki hluta tekna sinna af slíkri framleiðslu, heldur en af sölu áfengra drykkja, og það væri sannarlega miklu meiri ástæða til þess, að ríkið tæki nokkurn hluta tekna sinna með því að framleiða sjálft þessar vörur og nota gróðann sjálft af þessari framleiðslu, heldur en að taka hátt á níunda þús. kr. af hverri 5 manna fjölskyldu í óbeinum tollum og óbeinum sköttum.

Það má náttúrlega nefna marga fleiri þætti, s°m hafa verkað á atvinnulífið og hag einstaklinganna svipað og tollapólitík ríkisstj., sem ég hef hér verið að lýsa, en ég hef kosið að halda mér að mestu við þetta atriði, þar sem fjárlfrv. er hér til umræðu. Gengislækkunin, bátagjaldeyriskerfið og verzlunarokrið allt í sambandi við það talar sínu máli um stjórn stjórnarflokkanna á atvinnumálum þjóðarinnar. Það er t.d. frægt orðið, þegar sjálfur verðgæzlustjóri birti þær upplýsingar, að á vörumagni, sem gaf bátaútveginum 700 þús. kr. í bátagjaldeyri, tók ríkið á þriðju milljón í tollum og verzlunarkerfið á þriðju milljón í álagningu, svo að þegar öll kurl komu til grafar, þá var útsöluverðið hér heima rúmlega ferfalt innkaupsverðið. Það sér hver heilvita maður, hvaða áhrif slíkt hefur á afkomu atvinnulífsins, enda var svo komið vorið 1951, að þáverandi ríkisstj. studd af sömu flokkum sem þessi — var að gefast upp við að reka þjóðarbúskapinn þrátt fyrir hundruð millj. kr., sem hún hafði fengið í erlendu gjafafé, og þrátt fyrir hundruð millj. kr., sem hún hafði tekið af erlendum lánum á stjórnarárum sínum, þótt þau væru ekki mörg. Þrátt fyrir yfirgnæfandi magn framleiðslutækja var þá atvinnuleysi orðið gífurlegt, m.a. fyrir það, að innlend framleiðsla hafði á ýmsum sviðum verið eyðilögð með innflutningi sams konar vara erlendra og útflutningsframleiðslan lá óseld vegna einokunarhafta, sem á henni hvíldu.

En líklega hafa þeir stjórnmálagarpar, sem hér réðu, huggað sig við það, sem máltækið segir, að þegar neyðin er stærst, er hjálpin næst. Vissulega barst þeim viss tegund hjálpar frá þeirra eigin sjónarmiði. Hitt er svo annað mál, hvort slíkt verður hjálp fyrir íslenzku þjóðina, hefur verið eða verður, þegar til lengdar lætur.

Einmitt þegar stjórnarskútan var að lenda í strand vorið 1951 í atvinnuleysi og kreppu, var endurnýjuð krafan um herstöðvar hér, þrátt fyrir það að friðartímar væru, sama krafan sem kveðin hafði verið niður af allri þjóðinni einhuga árið 1945, enda var ekki þorað að bera málið undir dóm þjóðarinnar, ekki einu sinni þorað að kalla saman reglulegt Alþingi til þess að láta það fjalla um málið, heldur voru þm. þriggja flokka, sem kenna sig við lýðræði, kallaðir á klíkufund til þess að samþykkja að afhenda Ísland undir hernaðarmannvirki og þjóðin látin standa frammi fyrir gerðum hlut, þegar hún fékk þessa frétt. Svo mikil var lýðræðisást lýðræðisflokkanna þá, að ekki treystu þeir sér til að beita heiðarlegri aðferðum. Og hverjar eru svo afleiðingarnar að verða af þessum aðgerðum? Hverjar eru horfurnar í atvinnulífi þjóðarinnar og í menningarlífi hennar nú?

Ég veit ég fæ það svar frá ríkisstj. og hennar fulltrúum, að atvinnuleysinu hafi verið útrýmt. Því hefur verið útrýmt á þann hátt, að í tuga- og hundraðatali hafa heimilisfeðurnir og aðrir, sem orðið hafa að leita frá heimilum sínum, frá Ísafirði, Siglufirði, Seyðisfirði og fjölmörgum öðrum stöðum víðs vegar um landið, flykkzt suður á Keflavíkurflugvöll til þess að fá atvinnu við uppbyggingu hernaðarmannvirkja þar til þess að geta framfleytt fjölskyldum sínum heima. Og næsta stigið, sem þegar er orðið áberandi, er auðvitað það, að fjölskyldan flytur á eftir, ef tekst að útvega einhverja grottakompu til þess að hola henni inn í. S.l. vetur voru í vinnu á Keflavíkurflugvelli að minnsta kosti 3000 manns. Á þessu sumri mun bæði hafa fjölgað þar mikið, auk þess sem framkvæmdir slíkar eru hafnar annars staðar á landinu, og það mun áreiðanlega ekki of mikið sagt, að í vinnu, sem viðkemur setuliðinu á einhvern hátt, sé nú orðið um það bil 6000 manns víðs vegar um landið. Þá er það jafnframt vitað, að það, sem enn þá hefur skeð, er aðeins byrjun á því, sem koma skal, ef þjóðin sjálf tekur ekki í taumana, því að það, sem nú gerist, virðist aðeins vera byrjun á því herstöðvakerfi, sem byggja skal hringinn í kringum landið.

En hvað þýðir það, ef 6000 manns eru þegar í vinnu fyrir hernaðinn, hvað þá ef meira verður? Fiskimannastéttin öll er tæp 6000. Bændastéttin öll er tæp 6000. Verður hernaðarvinnan bráðlega orðin langsamlega stærsti atvinnuvegur þjóðarinnar á Íslandi á fáum árum og Ísland á fáum árum orðið að Möltu Norður-Atlantshafsins, einmitt þegar líkurnar fyrir styrjöld virðast sífellt vera að fara minnkandi og styrjöld þeirri, er notuð var sem átylla — að vísu heimskuleg átylla — til þess að réttlæta hernám Íslands, er lokið?

Samkvæmt nýjustu manntalsskýrslum er það greinilegt, að með sömu fólksfjölgun hjá þjóðinni eins og nú er mun henni fjölga um ca. 5O þús. á næstu 15–17 árum, þ.e., eftir þann tíma verður hún orðin um 200 þús. Þetta þýðir það, að á næstu 15–17 árum verður að sjá þessum nýja hóp fyrir húsnæði, auk þess sem byggja þarf og endurbæta fyrir þann fjölda, sem þjóðin telur nú. Aðeins vegna þessa nýja hóps æskufólks, sem á þessum árum bætist við, mundi þurfa 10–12 þús. nýjar íbúðir. Þetta þýðir enn fremur það, að á þessum fáu árum þarf að byggja upp nýtt atvinnulíf, sem veitt getur um 50 þús. nýs æskufólks lífsskilyrði við íslenzka framleiðslu, sem tryggð er á hagnýtingu íslenzkra náttúrugæða. Það þýðir enn fremur það, að á þessum fáu árum þarf þjóðin að reisa nýjar menningarstofnanir, skóla, félagsheimili, sjúkrahús o.fl., svo að þessi nýi, stóri hópur æskulýðs geti eignazt í uppvextinum þau skilyrði til vaxtar og þroska, sem ein eru trygging fyrir því, að hann geti borið uppi íslenzkt menningarþjóðfélag, byggt á erfðum þjóðlegra verðmæta. Og allt þetta verður að byggjast upp á ekki lengri tíma auk þess, sem á skortir fyrir þann fjölda, sem nú býr í landinu.

Hverjar eru svo framtíðarhorfurnar í þessum efnum, ef sú þróun heldur áfram, sem nú á sér stað í sívaxandi mæli, sú þróun, að íslenzk byggðarlög víðs vegar um land missa fólk í tuga- og hundraðatali til þeirra starfa að reisa víghreiður fyrir erlendan her? Hverjar eru framtíðarhorfur fyrir bæði hinn uppvaxandi og óborna æskulýð, ef vinnuaflið, dýrmætasti auður þjóðarinnar, á í vaxandi mæli að fara þessa leið, ekki til að byggja hús yfir Íslendinga sjálfa, heldur til að byggja heilar borgir yfir herlið herraþjóðarinnar, eins og nú er verið að gera á Keflavíkurflugvelli, ekki til að leggja vegi og byggja brýr í samræmi við þarfir íslenzkra atvinnuvega, heldur vegna hernaðarmannvirkja, eins og t.d. hefur skeð í Austur-Skaftafellssýslu í sumar, ekki til þess að byggja fiskihafnir, heldur herskipahafnir, ekki til þess að vinna við íslenzk framleiðslutæki til að framleiða lifibrauð handa þjóð, sem er efnalega sjálfstæð og örugg um afkomu sína af eigin framleiðslu, heldur til að vinna skítverk fyrir herraþjóðina, sem fengið hefur land af okkar landi til þess að gera að landi af sínu landi, eins og núverandi forsrh. komst einn sinni vel að orði, enda sannleikanum samkvæmt?

Fyrir örfáum dögum birtu sum dagblöð Rvíkur þá fregn, að útgerðarmenn hér á Suðurlandi hefðu nýlega haldið fund og rætt þar í fullri alvöru það vandamál að útvega vinnuafl á bátaflotann. Varð niðurstaða þeirra sú, að leita bæri eftir erlendu vinnuafli til að manna fiskiskipin.

Geta nú stjórnarvöld þessarar þjóðar látið sér vel líka þá þróun, að íslenzka vinnuaflið fari til að gera landið að víghreiðri, en atvinnutækin séu rekin með erlendu vinnuafli í staðinn, en það ber ekki á öðru en að þau stjórnarvöld, sem hafa kallað þetta ástand yfir, ætli að láta sér það vel líka, að það haldi áfram í vaxandi mæli, a.m.k. virðast þeir ræðumenn stjórnarflokkanna, sem hér hafa talað á undan mér, ekki vera mikið óánægðir með ástandið. En það vildi ég segja þeim, sem þykjast bera sérstaklega fyrir brjósti viðhald landsbyggðarinnar og sífellt hafa á reiðum höndum slagorðin um það, að þeir vilji láta byggja landið allt, að með þeim ráðstöfunum, sem þeir hafa gert til þess að skapa þessa þróun, hafa þeir unnið dyggilega að því, að fleiri hreppar en Sléttuhreppur í Norður-Ísafjarðarsýsuu hljóti þau örlög að verða niðurlagðir sem hreppsfélög og byggðir hluta þjóðfélagsheildarinnar. Og meðan þeir ekki öðlast manndóm til þess að játa sínar eigin yfirsjónir, snúa við og reyna að kveða niður þann draug, sem þeir hafa vakið upp, þá halda þeir dyggilega áfram að vinna að því marki, að fleiri íslenzkar sveitabyggðir og sjávarþorp líka verði skilin eftir auð og yfirgefin sem vottur um afrek stjórnmálaflokkanna þriggja, er samþykktu að gefa erlendu herveldi land af okkar landi til að gera að landi af sínu landi vorið 1951.

Örlög Sléttuhrepps virðast þó hafa komið sér vel fyrir íslenzku ríkisstj., þegar hún nýlega leyfði Atlantshafsbandalaginu að gera árás á Ísland í tilraunaskyni. Hún hefði líklega lent í vandræðum með að hlýða húsbændunum, ef ekki hefði staðið svona sérstaklega á með þennan hrepp. Allt það brambolt varð að vísu að athlægi hjá þjóðinni, svo álappaleg var framkvæmdin á þessari tilraunaárás mesta herveldis og mesta hernaðarbandalags, sem mannkynssagan greinir frá, á varnarlaust land. Mun mörgum hafa orðið hugsað til hinnar fornu sagnar Snorra Sturlusonar um vernd hinna íslenzku landvætta, þegar útvarpið flutti hina snjöllu lýsingu Skúla Skúlasonar á hinum hlægilegu mistökum þessara herferða. En við skulum þá heldur ekki gleyma því, að ef áfram heldur á sömu braut og nú, þá geta fljótlega orðið til fleiri slíkir eyðistaðir, sem ríkisstj. gæti vísað húshændum sínum á, næst þegar þeir þurfa að nota Ísland fyrir hernaðarlegt tilraunaskotmark. Ef nógu margir staðir verða úr að velja hringinn í kringum landið, þá getur kannske þrátt fyrir hollustu og vilja allra góðra landvætta mátt finna einhvern stað, þar sem skotmörkin sjást fyrir þoku, einhverja staði, þar sem stormur ekki hindrar sjálfan aðmírálinn í því að komast út í sitt eigið skip, einhverja staði, þar sem íslenzkt brim ekki nægir til þess að halla herfleytunum 35° frá lóðréttu, svo að allt fari út um þúfur.

Tímans vegna verð ég að láta þetta nægja um þennan þáttinn, horfurnar í atvinnulífi þjóðarinnar, ef ekki verður breytt hér til. En hvað ætli segja megi um hinn þáttinn, ómenninguna, sem af hersetunni leiðir?

Á síðasta þingi flutti sjálfur utanrrh. þær upplýsingar, að hundrað íslenzkar stúlkur væru á svörtum lista hjá herliðinu á Keflavíkurflugvelli vegna ásóknar inn á völlinn. Þessar upplýsingar gaf ráðh. rétt eins og um ómerkilega smáfrétt væri að ræða, og stjórnarblaðið Tíminn komst svo smekklega að orði, að íslenzkir lögreglumenn og amerískir hermenn stæðu á verði í flugvallarhliðinu til varnar þessum ófögnuði, en það var ekki verið að láta í það skína, að þetta ástand væri setuliðinu að kenna. Það veit orðið hver maður, a.m.k. hér í Rvík, að það er verið að eyðileggja líf fleiri hundraða íslenzkra stúlkna með því að skapa ástand, sem raunverulega mátti teljast óþekkt á Íslandi áður, og fyrir dómstólum hafa sannazt dæmin um það, að einstakir aðilar gera sér það að gróðalindum í stórkostlegum mæli að efla þetta ástand. Og þess gerast nú dæmi enn fremur, að unglingar eru farnir að ganga vopnaðir um götur Reykjavíkur og skjóta á fólk á almannafæri. Og það sér hver maður, sem skilja vill, hvaðan þau áhrif eru, sem þvílíku framferði valda.

Eitt er það þó enn þá, sem ekki verður komizt hjá að minnast á í sambandi við þetta, og það er það afsiðunar- og ómenningarútvarp, sem yfir þjóðina dynur á hverju kvöldi frá útvarpsstöð hersins á Keflavíkurflugveili. Í íslenzkum lögum um útvarpsrekstur er svo ákveðið, að engum sé heimilt að reka útvarp hér nema íslenzka ríkinu. Þrátt fyrir það er það gersamlega látið afskiptalaust af íslenzku ríkisstj., þótt frá ólöglegri útvarpsstöð á Keflavíkurvelli hljómi á hverju kvöldi í fyrsta lagi ómerkilegasta tegund tónlistar, í öðru lagi talað mál, sem nálega eingöngu fjallar um morðsögur, þjófnaði og annan glæpaóþverra. Ekki þarf að reka þessa starfsemi vegna amerískra hermanna, nema hún eigi að vera sérstakur þáttur í þeirra andlega uppeldi, annars gætu þeir sannarlega hlustað á útvarp vestan um haf. Nei, það mun ekki siður gert til þess að venja íslenzkan æskulýð, sem mestar líkur eru til að glæpist á að hlusta á þetta að staðaldri, við áhrif þessarar amerísku ómenningar. Og á hverju kvöldi er svo kórónan sett á þennan óþverra með því að þruma íslenzka þjóðsönginn, „Ó, guð vors lands“, frá þessari ólöglegu stöð út yfir heiminn eins og til þess að undirstrika það, að seint muni ofboðið þjóðarstolti Íslendinga.

Það alvarlegasta í þessum málum öllum er þó ef til vill það, að í þjóðfélaginu eru þýðingarmiklir aðilar og voldugir, sem hafa beinna hagsmuna að gæta í sambandi við það, að þetta ástand haldist og eflist. En hverjir eru það? Ekki er það hinn íslenzki sjómaður. Hann á það á hættu að verða að leggja bátnum vegna þess, að ekki fáist menn til að róa honum. Ekki er það heldur hinn íslenzki verkamaður. Með tveimur gengislækkunum er búið að lækka svo kaup hans gagnvart dollaranum, að hann vinnur aðeins fyrir helmingi þess, sem áður var. Það er ekki heldur hinn íslenzki bóndi. Hann á það á hættu, að þjóðfélagsþróunin undir þessum kringumstæðum hreki hann af jörðinni sinni í þjónustu herraþjóðarinnar, sem nú ræður Íslandi. Og óglæsilegast er það þó fyrir hinn uppvaxandi og óborna æskulýð, sem inn í þjóðfélagið kemur á næstu árum og áratugum, að eiga uppeldi sitt, menningarþroska, atvinnu og framtíð alla undir þessu ástandi. En það eru aðrir, sem græða. Það veit hver einasti maður, að voldugustu fésýslumenn stjórnarflokkanna og stjórnmálaleiðtogar þeirra eru komnir á bólakaf í hvers konar viðskipta- og fjármálabrall í sambandi við hersetuna og allar framkvæmdir herliðsins hér, og það er vitað, að á þessu hirða þeir milljónagróða, meiri en þekkzt hefur á Íslandi nokkru sinni fyrr. Ég minntist á það áðan, að fyrir dómstólunum hefði það verið sannað, að vissir aðilar hafa gert sér skækjulifnað að féþúfu. Hitt eru þó miklu stórkostlegri gróðalindir, sem vitað er að auguðustu menn stjórnarflokkanna og helztu foringjar þeirra sitja við í sambandi við framkvæmdir herliðsins hér. Voldugustu og auðugustu öflin í þjóðfélaginu, persónugerð í þessum stjórnmálaleiðtogum og gróðabrallsmönnum þessara flokka, eru að mala sjálfum sér gull úr afturför og erfiðleikum íslenzkra atvinnuvega og niðurlægingu þjóðarinnar í sambandi við þetta ástand allt.

Það er staðreynd, að fjöldi manns er nú að opna augun fyrir þeirri hættu, sem framtíð íslenzku þjóðarinnar er búin, ef þessu heldur áfram, en fjöldi af því fólki horfir ráðalaust á ástandið og spyr bara: Hvað getum við gert? Þessu fólki og öðrum, sem ekki er blint fyrir því, sem er að gerast, vil ég segja þetta:

Það er til ein leið — en ekki heldur nema sú eina — til bjargar í þessu máli. Það er sú leið, að allir, sem sammála eru um þetta, taki höndum saman í baráttunni fyrir því að fá erlenda herinn burt af Íslandi. Þeir, sem af heilum hug vilja vinna að því máli, mega aldrei láta skoðanaágreining um önnur mál hafa neikvæð áhrif á samstarfsvilja sinn og samstarfsþrótt við alla, sem geta orðið samherjar í þessu, hvað sem á kann að greina um skoðanir á öðru. Allt annað veikir málstaðinn og verður aðeins til að skemmta andstæðingum okkar, sem telja sér því fremur óhætt að ganga lengra, ef andstaðan er sundruð. En hitt er jafnvíst, að ef það tekst að sameina í nógu samsteypta fylkingu allan þann stóra hóp, sem hefur yfirsýn yfir horfurnar nú, takist að fá þá fylkingu til starfs um að vekja fleiri, auka skilning, krefjast réttar og heimta Ísland fyrir Íslendinga, þá mun þar skapast afl, sem bæði Alþingi, ríkisstj. og erlent herlið munn verða undan að láta.