12.10.1953
Sameinað þing: 5. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 387 í B-deild Alþingistíðinda. (414)

1. mál, fjárlög 1954

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Það er auðheyrt, að landsk. þm. Ásmundur Sigurðsson er gramur yfir því, að herir lýðræðisþjóðanna æfa sig í því, hvernig mæta skuli árásum frá mesta herveldi heimsins, ef því skyldi þóknast að hefja árásir á þjóðirnar á vesturhveli jarðar. En þessi hv. þm. verður að sætta sig við að fá því ekki ráðið, að þjóðir Vestur-Evrópu biði annað sinn hver í sínu horni aðgerðalausar árása ofbeldismannanna. Sú tíð er liðin, að menn geri það. En þetta minnir menn á það, þegar hv. 2. þm. Reykv. fyrir stríð krafðist þess einu sinni, að hingað yrðu pöntuð brezk herskip til verndar Íslandi, af því að von var á þýzku skipi í heimsókn.

Það má mikið vera, ef mönnum blöskrar ekki frammistaða hv. stjórnarandstæðinga í þessum umr. Það vottar ekki fyrir minnstu tilraun hjá talsmönnum stjórnarandstæðinga, neinum þeirra, til þess að gera nokkra minnstu grein fyrir því, hvernig þeir vildu hafa fjárl., ef þeir mættu ráða, en það er það, sem þeir eiga að gera í þessum umræðum, ef nokkur mannræna væri í þeim. Þeir minnast ekki á, hvernig þeir mundu vilja hafa gjaldahliðina, því síður hvernig ætti að afla teknanna. Ég er viss um, að þetta er einhver aumasta stjórnarandstaða í heimi.

Talsmaður Þjóðvfl. flutti hér fyrst heimspekilegan inngang fyrir sínu erindi. Aðalefnið í þessum heimspekilega inngangi var, að fjárlfrv. væri dautt bókhald. Dautt bókhald! Hver skilur þetta? Er það dautt bókhald að verja 59 millj. til samgöngumála; er það dautt bókhald að verja 58 millj. til kennslumála; er það dautt bókhald að verja 55 millj. til atvinnumála; er það dautt bókhald að verja 55 millj. til tryggingamála, svo að aðeins séu tekin fjögur dæmi: Hvað á svona talsmáti að þýða hér á hv. Alþingi?

Þá hlóð þessi hv. þm. saman illyrðum, talaði um mútur og þjófnað og annað í því sambandi, sagði, að ég hefði visvítandi lagt fram ár eftir ár falskar áætlanir um tekjur á fjárl. til þess að sölsa undir mig og aðra í stjórninni fjárveitingavaldið úr höndum Alþingis. Þetta var efnið. En hvað er það rétta í þessu? Það rétta í þessu er, að það hafa aldrei verið minni umframgreiðslur á síðustu áratugum, ekki fáum, heldur mörgum, tiltölulega heldur en þann tíma, sem ég hef farið með þessi mál. Ef hér ætti að viðhafa einhverjar umr. um þetta, þá væri það sönnu næst að taka fram, að ég hef unnið talsvert að því að færa Alþ. aftur það fjárveitingavald, sem ýmsir aðrir höfðu gert þó nokkuð til að draga úr höndum þess. Það er hrein fávizka að fárast yfir því, þótt fyrir komi, að tekjur fari 10–15% fram úr áætlun, eins og þessi þm. gerði og raunar líka hv. landsk. þm. Hannibal Valdimarsson. Reynslan sýnir sem sé, að ef tekjurnar eru ekki sæmilega varlega áætlaðar, þá verður ævinlega greiðsluhalli, af því að það er ómögulegt að sjá öll útgjöld fyrir, eins og ég gerði ýtarlega grein fyrir í fjárlagaræðu minni. Varðandi tekjuáætlunina 1951 sérstaklega, þá vita það allir menn, að þegar þau fjárl. voru sett um haustið 1950, þá vissum við ekki, hvort okkur mundi takast eða að hve miklu leyti okkur mundi takast að gera verzlunina frjálsa á árinu 1951. Við höfðum ekki hugmynd um, hvort við mundum fá frá Greiðslubandalagi Evrópu framlag í því skyni eða ekki. Þetta eru því allt rakalaus stóryrði og fullyrðingar. Það var ómögulegt fyrir nokkurn mann að vita um það, þegar fjárl. fyrir 1950 voru afgr., hverjar mundu verða tekjur ríkissjóðs 19'51, hvort þar kæmu til aukatekjur fyrir framlag frá Greiðslubandalagi Evrópu eða ekki.

Þá hlóð þessi hv. þm. saman, eins og ég sagði, fjölda illyrða; talaði um misnotkun á ríkisfé og að stórfé væri lagt fram til þess að halda völdunum. Nú skyldi maður halda, að þessi hv. þm. hefði gert einhverja ofur litla tilraun til þess að rökstyðja þessi gífuryrði. En það fór nú ekki fyrir því. Hann talaði að vísu um, að það væru of margir bifreiðarstjórar, sem ækju fyrir stjórnarráðið. Það er atriði, sem má ræða við hv. þm. síðar, þegar tækifæri gefst til, en lítil stoð er slíkt tal fullyrðingum hv. þm. Þá minntist hv. þm. á í þessu sambandi, að það hefði verið tekinn upp í stóreignaskatt skúr, sem hefði orðið að engu verðmæti fyrir ríkissjóð, sagði, að þetta væri svo alvarlegt brot hjá tveimur ráðherrum, að draga ætti þá fyrir landsdóm, eins og tveir finnskir ráðherrar hefðu verið dregnir fyrir landsdóm. Það var tekið skúrræksni upp í stóreignaskatt, af því að það varð að gera það lögum samkvæmt, af því að sá, sem kom með skúrræksnið, hafði rétt til þess að láta það upp í stóreignaskattinn, óumdeilanlegan löglegan rétt, og það var ekkert um annað að gera en að taka við skúrnum. Þetta mun nánar koma fram síðar, því að mér skilst, að hér hafi nú komið fram fyrirspurn á Alþ. í mörgum líðum um mörg og flókin atriði bara til þess að geta talað um þennan skúr. Hann kemur því áreiðanlega til umræðu hér síðar. Þetta er það eina, sem þessi hv. þm. í jómfrúræðu sinni, fullri af illyrðum, nefnir til að finna þeim orðum sínum stað, að ráðherrarnir verji stórfé bara til þess að halda völdunum, og lætur liggja að mútum og þjófnaði í því sambandi. En þessum hv. þm. datt ekki í hug frekar en hinum að gera grein fyrir því, hvernig hans flokkur, sem er þó nýr af nálinni, vildi hafa fjárlögin. Um slíkt var ekki að ræða. Til þess var víst enginn tími. Það voru bara 30 mín., sem hann hafði, og svo allir hinir sínar 30 hver.

Hv. landsk. þm. Hannibal Valdimarsson flutti sína ræðu mjög í sama dúr og talsmaður Sósfl. Eitt var það, sem mér fannst sérstaklega einkennilegt við ræðu hv. landsk. þm. Hannibals Valdimarssonar, og það var þetta: Hann deildi hörðum orðum á mig og aðra fyrir hækkun skatta og tolla, af því að það væru hærra áætlaðar tekjur nú af söluskatti og tollum heldur en áður hefði verið. Og þetta kallaði hv. þm. skattahækkanir núverandi fjmrh. Nú vildi ég spyrja hv. þm. — hann getur svarað því seinna: Mundi hann telja það skattalækkanir mínar, ef það drægjust svo saman viðskipti hér, kæmi slík kreppa, að tekjur ríkissjóðs lækkuðu að óbreyttum sköttum og óbreyttum tollum? Mundi hann kalla það skattalækkanir fjmrh.? Ég held ekki. Ég held, að hann mundi ekki kalla það skattalækkanir fjmrh. Og þá á hann ekki heldur að gera hitt. Ég verð að segja, að það er furðulegur málflutningur að deila á ríkisstj. og stjórnarstefnuna fyrir það, að viðskipti og þjóðartekjur aukast þannig, að ríkistekjurnar aukast af sjálfu sér, án þess að nokkuð séu hækkaðir skattar og hækkaðir tollar. En það er það, sem hefur gerzt, og það er það, sem þessi hv. þm. dregur sjálfur fram í sínu máli og sýnir fram á. Skattar og tollar hafa ekki verið hækkaðir, en tekjur af þeim hafa vaxið, af því að viðskipti og framleiðsla í landinu hafa yfirleitt aukizt og vaxið. Fyrir þetta á ekki að deila á ríkisstj. Fyrir þetta á að þakka. Þetta er ráðningin á þeirri gátu, að fyrrverandi stj. og núverandi stj. geta komizt af án þess að hækka skattana og tollana, þó að ríkisútgjöldin hafi farið vaxandi og það ekki aðeins í krónutali, heldur hafa ný verkefni þar komið til.

Þá er þessi hv. þm. enn að tala um sparnaðinn og að ég vilji ekki spara. Ég vissi svo sem, á hverju var von. Ég setti undir þennan leka í fyrri ræðu minni. Og nú vil ég segja það við hv. landsk. þm., að ég skora á hann að finna á einum stað - það væri alveg nóg, þó að það væri bara á einum stað — þau ummæli, sem hann hafði eftir mér hér áðan um ríkisútgjöldin og sparnaðinn. Ég skora á hann að finna ummæli þessi orðrétt eða bara efnislega rétt, sem hann hafði eftir mér. Þau eru ekki til. Ég hef aldrei sagt neitt í þá átt, eins og ég gerði hér áðan grein fyrir í minni framsöguræðu. Hitt hef ég sagt, að það er ekki hægt að lækka beinan kostnað ríkisins svo mikið, með hversu mikilli ráðdeild sem að væri farið, að hægt væri að hafa áhrif á dýrtíðina með þeirri lækkun einni saman eða veruleg áhrif á heildarútgjöld fjárl. Ég hef sagt það, sem satt er og ég stend við, að ef það ætti að gera slíkt, þá yrði ríkið að kippa að sér hendinni um margs konar þjónustu og margs konar framlög, sem það heldur nú uppi og þessi hv. þm. og aðrir kalla ekki eyðslu, heldur framlög til almenningsþarfa. Það hef ég sagt, en hitt ekki. Hitt er bókstaflega blekking og rangt eftir haft. Og það er ekki þessi hv. þm. einn, sem hefur gert sig sekan í þessu. Mörg blöð, ýmsir stjórnmálamenn aðrir, jafnvel heilir fundir hafa ekki haft meiri sómatilfinningu en svo, að þeir hafa gert mér upp orðin og ályktað út frá þeim. Þegar svo þessi hv. þm., eins og hinir, hefur bölsótazt vild sína út af því, hvað ríkisútgjöldin séu há, þá byrjar hann að lesa upp kröfulista flokks síns um framlög úr ríkissjóði í allar áttir. Nú hefur þessi hv. þm. átt mestan eða mjög mikinn þátt í því, að auka hefur orðið niðurgreiðslurnar eða að auknar hafa verið niðurgreiðslurnar stórkostlega, hvorki meira né minna en um 20 millj., og heimtar nú, að það sama fé sem varið er í því skyni, raunar í eins konar samráði við hann, sé látið ganga til nýrra framkvæmda. En að þessi hv. framsögumaður frekar en aðrir reyndi að greina frá því, hvernig hans flokkur vildi hafa fjárl., nei, það kom ekki til mála.

Ég þarf ekki að hafa mörg orð um ræðu hv. landsk. þm. Ásmundar Sigurðssonar. Hann lýsti hér þungbærum sköttum og þungbærum tollum, þeir ykju dýrtíðina og minnkuðu þjóðartekjurnar og væru einsdæmi, að því er manni skildist, í veröldinni. Það rétta er nú, að það er álíka mikið af þjóðartekjunum hér, sem gengur til opinberra gjalda, eins og t.d. í Noregi og Svíþjóð. En hver eru svo úrræði þessa hv. þm. og flokks hans? Úrræðin eru þau að krefjast nýrra framlaga í allar áttir, eins og hinir, en bara miklu stórfelldari, því að þegar hinir segja einn, þá segja þeir venjulega tveir eða þrír og krefjast afnáms flestra skatta og allra tolla, sem innheimtir eru, að ég nú ekki tali um söluskattinn. Á móti kemur svo ein tillaga, og það er raunar sú fyrsta, sem ég hef heyrt úr þessum herbúðum um það, hvað eigi að gera. Það á að þjóðnýta gosdrykkjaiðnaðinn og sælgætisiðnaðinn. Með því á að leysa allt. Ef það er gert, þá standast allar till. flokksins, að mér skilst, tillaga um að fella niður 90 millj. kr. söluskatt, tillaga um að bæta hundruðum milljóna nýrra útgjalda inn á fjárl. Þetta stenzt allt. Það er bara að þjóðnýta gosdrykkja- og sælgætisiðnaðinn. Ég held nú, að þótt gosdrykkja- og sælgætisiðnaðurinn yrði þjóðnýttur, þá mundi það hrökkva lítið upp í söluskattinn einan, hvað þá heldur til þess að greiða öll þau milljónahundruð, sem kommúnistar krefjast að lögð séu fram úr ríkissjóði til viðbótar við það, sem fyrir er. Auðvitað gerði þessi hv. þm. ekki hina minnstu tilraun fremur en hinir til þess að bregða upp heildarmynd af því, hvernig hann vildi hafa fjárl. Það er nú kannske vorkunnarmál, því að sú mynd hefði ekki orðið fögur né sérlega aðlaðandi.

Í sambandi við það tal, sem hér hefur orðið um lækkun ríkisútgjalda, er ekki úr vegi að minnast þess, að á hverju Alþ. rignir útgjaldafrumvörpum og tillögum úr öllum áttum, sem krefjast stórfelldra útgjalda úr ríkissjóði. Í því sambandi er yfirleitt aldrei minnzt á það einu orði, að aukin ríkissjóðsframlög kalli á hækkun skatta og tolla. Og þarna eiga margir óskilið mál En ofan á þetta bætist svo, að stjórnarandstaðan, sú sem nú er, ræðst með heift, eins og ég hef litillega rakið hér á undan, á móti framlengingu mikils hluta ríkisteknanna, á sama tíma sem hún krefst stór- og síhækkandi framlaga af ríkisfé. Í þessu er auðvitað engin heil brú til, og gegnir furðu sú bíræfni, sem málflutningur þessi og málatilbúnaður allur er byggður á. Það er eins og því sé treyst, að almenningur í landinu taki þessi blygðunarlausu yfirboð og þennan þrotlausa loddaraleik fyrir góða og gilda vöru. Þessi framkoma er orðin blátt áfram móðgun við þjóðina.

Ég hef minnzt á það áður, að hér varð mjög mikil stefnubreyting í fjármálum 1950. Fram að þeim tíma hafði sigið mjög á ógæfuhlið í fjárhagsmálum landsins, eins og flestir eða allir viðurkenna. Það hefur lítillega verið minnzt á aðdraganda þessarar stefnubreytingar af fulltrúa Sjálfstfl. Í því sambandi vil ég taka fram, að það stóð aldrei á Framsóknarflokksmönnum að fylgja þeim till., sem fram komu frá fyrrv. fjármálaráðherrum úr Sjálfstfl. til þess að halda jöfnuði á ríkisbúskapnum. Það stóð aldrei á okkur í því etni. Stefnubreytingin á árinu 1950 hefur áreiðanlega orðið mjög þýðingarmikil fyrir þjóðina, og grundvöllurinn að þeirri stefnubreytingu var einfaldlega sá, að Framsfl. krafðist þess í stjórninni 1949, að upp yrði tekin ný stefna, og vildi ekki sitja áfram í þeirri stj., sem þá var, nema það yrði gert. Flokkurinn framkallaði kosningarnar haustíð 1949, sem leiddu til þeirra ráðstafana, sem voru gerðar 1950 og næstu ár í fjárhags- og atvinnumálum landsins.