08.12.1953
Sameinað þing: 22. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í B-deild Alþingistíðinda. (422)

1. mál, fjárlög 1954

Frsm. 2. minni hl. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Ég hef ekki treyst mér til að skila sameiginlegu nál. með meiri hl. fjvn. og hef gert nokkra grein fyrir því í nál., sem ég hef gefið út á þskj. 262. Aðalorsökin til þess, að ég hef ekki getað orðið samferða meiri hlutanum um nál., er sú, að við sósíalistar erum í meginatriðum andvígir þeirri fjármálastefnu ríkisstj., sem fjárlfrv. fyrir árið 1954 er byggt á. Við teljum, að þar sé í öllum höfuðatriðum farið í aðra átt en við hefðum talið æskilegt, og bendum á það nú eins og áður, hvað við teljum að hefði átt að vera á annan veg, en þar er í ýmsum atriðum svo miklu að breyta, að það verður ekki gert nema með almennri lagasetningu og verða því okkar till. nokkuð að miðast við það. Ég skal nú víkja að þessu með örfáum orðum í aðalatriðum.

Tekjubálkur fjárlfrv. byggist á því, að aðaltekjur ríkissjóðs séu tollar, söluskattur og gróði af áfengis- og tóbakssölu. Allar aðaltekjur ríkissjóðs eiga að innheimtast af landsmönnum á þennan hátt. Við sósíalistar erum andvígir þessum tekjuöflunarleiðum. Við höfum hér á Alþ. margsinnis lagt fram till. um það að fella niður söluskattinn, teljum hann óréttlátan, koma mjög óþægilega niður, einmitt harðast niður á þeim, sem sízt skyldi í þjóðfélaginu. Við höfum einnig lagt hér fram á Alþ. till. um að afnema með öllu tolla af nauðsynjavörum, en þessar till. hafa ekki náð fram að ganga, og stefna ríkisstj. hefur verið látin gilda í þeim efnum að byggja á þessum liðum sem aðaltekjuöflunarleiðum fyrir ríkissjóð.

Þó að farið væri eftir till. okkar sósíalista um að fella niður söluskattinn og afnema tolla af brýnustu nauðsynjavörum, þá eru eftir sem áður til nægar tekjuöflunarleiðir fyrir ríkissjóð eins og við höfum líka margsinnis bent á. Í því efni vil ég aðeins minna á, að nú er hinn mikli milliliðagróði og þá alveg sérstaklega gróði heildsalanna, sem fara með innflutningsverzlunina, að sáralitlu leyti skattlagður af ríkinu. Það væri auðvelt fyrir ríkissjóð að tileinka sér verulegar tekjur á hverju ári með því að handsama þennan milliliðagróða. Það væri líka auðvelt fyrir ríkissjóð að afla sér mikilla tekna á hverju ári með því að skattleggja hina auðugu olíuhringa.

Það má benda einnig á það, að sala öll á lúxusvarningi, sem fram fer hér í landinu, er í höndum einstaklinga og félaga, en ríkið ætti auðvelt með að taka þetta í sínar hendur og hafa af sölu slíks varnings miklar árlegar tekjur.

Einnig má benda á það, eins og hér hefur komið fram oft áður, að fasteignabrask á sér stað í landinu og þeir aðilar, sem það leika, raka saman gróða á hverju ári, og væri auðvelt fyrir ríkissjóð að skattleggja slíkan rekstur eða koma á eðlilegri skattlagningu á fasteignir í landinu og þá einkum þær fasteignir, sem hækka árlega í verði fyrir opinberar aðgerðir.

Af þessum ástæðum, sem ég hef nú tilgreint, er það líka, að við flytjum ekki nú við afgreiðslu þessa fjárlfrv. neinar brtt. við tekjuhlið frv. Við erum, eins og ég sagði, í höfuðatriðum andvígir þeim tekjuöflunarleiðum, sem frv. byggir á, en ef þar ætti að verða breyting á, þá þyrfti að breyta þar ýmsum lögum og samþykkja ný lög um nýjar tekjuöflunarleiðir ríkissjóðs. Hitt vil ég svo láta í lj;ós sem mína skoðun, að allar líkur benda til þess, að tekjur ríkissjóðs samkvæmt þeim lögum, sem þar um gilda, verði allmiklu meiri í reyndinni heldur en gert er ráð fyrir í frv. ríkisstj. og í till. meiri hl. fjvn.

Nokkuð svipað er að segja um gjaldabálk fjárlfrv., að í ýmsum meginatriðum erum við sósíalistar andvígir þeirri stefnu, sem þar kemur fram. Þetta fjárlfrv. ber það með sér á svipaðan hátt og önnur fjárlfrv., sem hér hafa legið fyrir á undanförnum árum, að verulegum hluta af tekjum ríkissjóðs er á hverju ári varið í hið gífurlega mikla embættisbákn. Útgjöldin af hinum ýmsu greinum í ríkisbákninu fara hækkandi frá ári til árs. Kostnaðurinn af störfum ríkisstj. eykst, kostnaður við dómgæzlu og lögreglustjórn hækkar alltaf, og eins er það yfirleitt með annað, sem tilheyrir ríkisbákninu sjálfu, embættiskostnað í sambandi við ráð, nefndir, sendimenn o.s.frv. Þetta hækkar í sífellu, eins og öllum hv. alþm. er kunnugt. Á sama tíma sem útgjöldum ríkissjóðs er þannig háttað, blasir það við, að útgjöld ríkissjóðs til verklegra framkvæmda, eins og t.d. útgjöld til vegamála, til brúabygginga og til hafnargerða og annars slíks, fara raunverulega alltaf lækkandi með hverju ári, þegar tekið er tillit til heildarútgjalda ríkissjóðs. Sem dæmi um þetta má nefna það, að árið 1945 námu fjárveitingar til vegamála um 16.7% af útgjöldum ríkissjóðs, en nú nema þessi útgjöld um 8.5%. Það er alveg augljóst, að framlögin til verklegra framkvæmda lækka jafnóðum og útgjöldin til embættisbáknsins fara sífellt hækkandi. Við sósíalistar erum andvígir þessari stefnu og teljum, að þarna þurfi gersamlega að breyta um.

Það er svo aftur á móti hægara sagt en gert að flytja till. hér við afgreiðslu fjárlfrv. um breytingar til lækkunar á embættisrekstrinum. Embættiskostnaðurinn kemur fyrir svo að segja á öllum greinum fjárlfrv. og í mjög mismunandi myndum, og það er varla á valdi annarra að sjá um, að þarna verði breyting á, heldur en ríkisstj. sjálfrar, einstakra ráðuneyta, þegar viljayfirlýsing Alþ. liggur fyrir um það, að úr þessum kostnaði eigi að draga.

Ég skal svo víkja að nokkrum brtt., sem ég flyt á þskj. 261 við frv.

1. brtt. mín er um það, að varið skuli á næsta ári 2 millj. kr. í styrk til byggingar sjúkrahúsa og læknisbústaða. Á fjárlfrv. var ráðgert að verja í þessu skyni 1 millj. kr. Meiri hl. fjvn. hefur lagt til að hækka þá upphæð upp í 11/2 millj., en mín till. á þskj. 261 er miðuð við það að verja til þessara mála 2 millj. Ég veit, að hv. alþm. þekkja það, að viða um landið er nú verið að byggja sjúkrahús. Framkvæmdir í þeim málum hafa verið nokkru seinni á sér en framkvæmdir í ýmsum öðrum framfaramálum í landinu, og fjárveitingar ríkisins til þessara framkvæmda eru gersamlega ónógar. Þær eru þannig, að það stendur mjög upp á ríkið með að greiða að jöfnu sitt hlutfall af byggingarkostnaðinum á móti bæjar- og sveitarfélögum. Þó að þessi upphæð yrði hækkuð í 2 millj. kr., eins og mín till. gerir ráð fyrir, þá er greinilegt, að enn þá stendur upp á ríkið allmikið í þessum efnum, og hér er því mjög hóflega í sakirnar farið, en tillöguupphæðin líka miðuð við það frá minni hálfu, að það mætti e.t.v. fá hana samþ. hér á Alþ.

2. brtt. mín er um það, að framlag ríkissjóðs til byggingar á barnaskólum verði hækkað úr 2.1 millj., sem ráðgert er á frv., í 31/2 millj. Eins og áður hefur komið fram hér við þessar umr., þá skuldar ríkissjóður nú til byggingar barnaskóla víðs vegar um landið um 10 millj. kr. Fjárveiting, sem aðeins nemur 2.1 millj., þýðir það, að það raknar nálega ekki neitt úr í sambandi við þessi mál, og það má telja reyndar nokkurn veginn fullvíst, að skuld ríkissjóðs við þá aðila, sem eru nú að byggja barnaskóla viða um landið, mun vaxa enn úr þessum 10 millj., ef fjárveitingin verður ekki nema 2.1 millj.

Ég vil í sambandi við þessa till. minnast aðeins á það, að þó að það sé allalgengt, að ýmsum hafi þótt mikið lagt á undanförnum árum til skólamála og m.a. til byggingar skólahúsa, þá verða menn þó að hafa það í huga, að enn þá eru fjöldamörg fræðsluhéruð í landinu, sem búa við algerlega ófullnægjandi skólakost. Þar verður kennslan að fara fram í húsnæði, sem ég hygg að meira að segja flestir alþm. vilji varla trúa að sé notað nú í dag. En staðreyndirnar eru sem sagt þessar, að þó að mikið fé sé búið að leggja til byggingar á skólahúsum víða í landinu, þá verður samt sem áður ekki komizt hjá því að bæta einnig úr vandræðum þeirra, sem nú eru að hefjast handa um framkvæmdir í þessu efni.

3. till. mín er varðandi byggingu gagnfræða- og héraðsskóla. Á fjárlfrv. er gert ráð fyrir að verja í þessu skyni 1 millj. 250 þús. kr., en mín till. er, að varið verði í þessu skyni 2 millj. Skuldir ríkissjóðs í sambandi við byggingu gagnfræða- og héraðsskóla eru nú röskar 3 millj. kr.

4. till. mín er um það, að varið verði til íþróttasjóðs 11/2 millj. kr. í staðinn fyrir, að ráðgert er á frv. að verja aðeins 600 þús. kr. Íþróttasjóður mun nú skulda orðið í sambandi við byggingu íþróttamannvirkja víða um landið, aðallega byggingu sundlauga og annarra slíkra mannvirkja, sem mikið hefur verið unnið að á undanförnum árum, rösklega 4 millj. kr., svo að það virðist ekki vera til of mikils mælzt, þó að ríkið leggi íþróttasjóði nú á þessu ári 11/2 millj., þegar svona stendur á.

5. og 6. brtt. mín eru um það að hækka nokkuð frá því, sem ráðgert er í frv., framlög til raforkuframkvæmda og raforkusjóðs. Hæstv. ríkisstj. hefur lýst því yfir sem stefnumáli sínu, að nú eigi að leggja sérstaka áherzlu á framkvæmdir í raforkumálum. Ég verð að segja það, að þær till., sem hún gerir í þessu efni um fjárframlög, eru ekki ýkja stórar. Í fjárlfrv. ríkisstj. er gert ráð fyrir, að varið verði til nýrra raforkuframkvæmda 3 millj. 860 þús. og til raforkusjóðs 7 millj. kr., eða alls 10 millj. og 860 þús. kr. Ég þykist vita, að hæstv. ríkisstj. afsaki þetta að nokkru með því, að hún ráðgeri að útvega allmikið lán til raforkuframkvæmda og það eigi að koma þarna auk þessa, en þegar aftur á móti er tekið tillit til þess, að heildarútgjöld ríkissjóðs eru komin upp í um 400 millj. kr., þá verður maður að segja, að það er vægast sagt mjög lítið að verja aðeins 10 millj. eða þar um bil til þeirra mála, sem ríkisstj. vill gera að sínum aðalmálum. Vegna þess hef ég flutt till. um að hækka þessar fjárveitingar talsvert, eða upp í 15 millj. kr. samtals.

Þá legg ég til, að tekinn verði upp nýr liður, 1 millj. kr., til verðlækkunar á rafmagni til almenningsnota frá dieselrafstöðvum samkvæmt ákvörðun ráðh. Þessa till. flyt ég m.a. vegna þess, að hæstv. ríkisstj. hefur lýst því yfir sem stefnumáli sínu að gera nú þegar ráðstafanir til þess að lækka raforkuverðið þar í landinu, sem raforka er nú seld almenningi við hæstu verði, og það er öllum ljóst, að þar sem menn verða enn að búa við raforku frá dieselrafstöðvum, er raforkan á langsamlega hæstu verði, þar verða menn að borga tvöfalt og upp í þrefalt verð á við það, sem annars staðar þekkist á landinu, og öll bæjarfélög, sem verða að reka slíkar raforkustöðvar, eru í mestu vandræðum með reksturinn. Ég hef áður flutt till. um sama efni hér á Alþ., og hún hefur ekki fengið náð fyrir meiri hl. Alþ. En nú, þegar liggur fyrir yfirlýsing frá hæstv. ríkisstj. um, að þetta sé hennar stefnumál, hún hefur beinlínis lofað þessu, þá vil ég vænta þess, að þessi till. nái samþykki meiri hluta þingsins.

7. brtt. mín er um að veita Tryggingastofnun ríkisins viðbótarframlag, 6 millj. kr., en meiri hl. fjvn. hefur lagt til í till. sínum að veita viðbótarframlag til Tryggingastofnunarinnar 2 millj. og 400 þús. Með því að aðeins eru teknar upp sem viðbótarframlag til Tryggingastofnunarinnar 2:1. millj. kr., þá er gert ráð fyrir að innheimta það, sem á vantar af því, sem Tryggingastofnunin telur að hún verði að fá til viðbótar í tekjur, eða um 4 millj. kr., með hækkandi iðgjöldum einstaklinga og bæjar- og sveitarfélaga og atvinnurekenda. Ég tel, að eins og nú er komið sé með öllu óviðunandi að hækka iðgjöld einstaklinga til Tryggingastofnunarinnar, og það sama má segja um framlög bæjar- og sveitarfélaga, það er með öllu óhugsandi að ætla að hækka gjöldin á þessum aðilum til trygginganna. Ég álát því, að ekki sé um annað að ræða en að ríkissjóður taki að sér þessa óhjákvæmilegu hækkun og taki að sér að greiða Tryggingastofnuninni alla þá upphæð, sem hún telur sig vanta, en það eru röskar 6 millj. kr. En mín till., sem er um 6 millj. kr., er bundin því skilyrði, að iðgjöld einstaklinga, sveitarfélaga og atvinnurekenda verði ekki hækkuð. Ég vil í þessu efni benda hv. alþm. á það, að afgreiði Alþ. þetta mál þannig að leggja Tryggingastofnuninni sem viðbótarframlag aðeins 2.4 millj. kr., eins og meiri hl. fjvn. leggur til, þá þýðir það í raun og veru samþykki við það um leið að hækka persónuiðgjöldin til Tryggingastofnunarinnar og hækka álögin á bæjar- og sveitarfélögum og atvinnurekendum sem nemur fullum 4 millj. á næsta ári.

Þá hef ég samkv. 9. og 10. till. á þskj. 261 lagt til, að tveir útgjaldaliðir á fjárlfrv. verði felldir niður. Annar þeirra er um það að verja 1 millj. kr. til ráðstafana í sambandi við ófriðarhættu. Þó að mörgum komi það einkennilega fyrir sjónir, þá er það nú svo, að það er búið að vera á fjárl. hér líklega í 3 ár, að varið hefur verið 1 millj. kr. á ári til undirbúnings í sambandi við ófriðarhættu, og ég hygg, að það sé fleirum en mér svo komið, að þeim þyki þessi fjárveiting harla einkennileg og vera meiri ástæða til þess að verja þessum peningum til einhvers annars en þessa, og af því hef ég lagt til að fella niður þennan lið. Og hinn liðurinn er, að fellt verði niður framlag Íslands til Atlantshafsbandalagsins.

Þá legg ég til samkv. 11. till., að ríkisstj. verði heimilað að taka lán og endurlána til byggingarsjóða kaupstaða og kauptúna eða til verkamannabústaðabygginga samtals 10 millj. kr., til lánadeildar smáíbúða 16 millj. kr. og til byggingarsamvinnufélaga 5 millj. kr. Við sósíalistar álítum, að það sé óhugsandi, að ríkissjóður geti skotið sér undan því að sinna hinum aðkallandi húsnæðismálum með því að taka ekki a.m.k. að sér hliðstæðar skuldbindingar og hann hefur gert á undanförnum árum í þessu efni, t.d. eins og með því að útvega lánadeild smáíbúða 16 millj. kr. Það er jafnhá upphæð, sem ráðgerð er á næsta ári, eins og var veitt í þessu skyni á yfirstandandi ári. En einnig er nauðsynlegt að útvega byggingarsjóðum kaupstaða og kauptúna nokkurt fé og eins byggingarsamvinnufélögum, en byggingar á vegum þessara aðila eru nú að stöðvast vegna fjárskorts.

Þá hef ég einnig tekið hér upp till. um það, að ríkið verji 1 millj. kr. sem beinu framlagi í sambandi við byggingar samkv. 3. kafla l. um útrýmingu heilsuspillandi íbúða. en fé í þessu skyni hefur ekki verið veitt á fjárl. á undanförnum árum, þó að hins vegar sé aðkallandi að veita nokkurt fé til þessara framkvæmda einnig.

Þá er hér síðasta till., sem ég flyt á þskj. 261, um það að veita ríkisstj. heimild til þess að verja allt að 10 millj. kr. til eflingar atvinnuvegunum á þann hátt, sem hún telur heppilegast. Meiri hl. fjvn. hefur lagt til, að varíð verði í þessu skyni 5 millj. kr., en ég tel, að sú upphæð sé mikils til of lág eins og nú háttar og að það verði ekki komið til móts við bæjar- og sveifarfélög víða úti á landi, sem örðugt eiga með að ráða fram úr atvinnuvandamálum fólksins þar, með minni upphæð á næsta ári en 10 millj. kr.

Ég hef þá gert grein fyrir aðaltill., sem ég flyt hér til breytinga á frv., en auk þess skal ég taka fram, að ég er samþykkur ýmsum þeim till., sem meiri hl. fjvn. hefur lagt hér fram, eins og t.d. tillögunum um að hækka rekstrarstyrk til sjúkrahúsa allverulega frá því, sem verið hefur, og eins þeirri till., sem ég gerði hér grein fyrir áður og miðar í þá átt að hækka að nokkru leyti byggingarstyrkinn til sjúkrahúsa. Ýmsum fleiri till. fjvn., sem ég hirði ekki um að telja hér upp, hef ég einnig verið samþykkur, en þar eru einnig aðrar till., sem ég er algerlega ósammála.

Þá skal ég taka það fram, að ég hef tekið þátt í því í fjvn. að vinna að skiptingu þess fjár, sem veitt er til vegaframkvæmda og brúabygginga og hafnargerða, og ég er eftir atvíkum samþykkur þeirri skiptingu, sem þar er lögð til grundvallar, þó að ég hefði kosið, að meira fé hefði verið varið til þessara mála en samþykkt hefur fengizt um í fjvn.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess hér nú við þessa umr. að hafa mál mitt lengra.