08.12.1953
Sameinað þing: 22. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 420 í B-deild Alþingistíðinda. (423)

1. mál, fjárlög 1954

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég ætla ekki að svara hér neitt frsm. minni hlutanna tveggja, sem talað hafa, og ekki blanda mér í þær umr., sem kunna að fara hér fram milli meiri hl. n. og minni hlutanna.

Þó vil ég, áður en ég vík að fjárlagaafgreiðslunni sjálfri, minnast á eitt atriði í ræðu hv. 3. landsk. þm. (HV), sem er frsm. 1. minni hl. Hann hélt því fram, að tekjur hefðu undanfarið verið vísvitandi of lágt áætlaðar, til þess að stjórnin gæti haft aðstöðu til að verja fé úr ríkissjóði, utan við Alþingi, án þess að samþykki Alþingis kæmi til. Hann hélt því fram, að tekjurnar hefðu vísvitandi verið of lágt áætlaðar í þessu skyni. Þetta er algerlega rangt hjá hv. þm. og ástæðulausar getsakir. Á síðustu árum hafa umframgreiðslur yfirleitt verið minni en nokkru sinni hefur áður tíðkazt. Meginkjarninn í stefnu fyrrverandi ríkisstjórnar og núverandi ríkisstjórnar er að afgreiða greiðsluhallalaus fjárlög og hafa greiðsluhallalausan ríkisbúskap. Af þessu leiðir, að það verður að áætla ríkistekjurnar fremur varlega en óvarlega. Ef ríkistekjurnar eru áætlaðar óvarlega, þá er nokkurn veginn víst, að það verður greiðsluhalli í framkvæmd. Það er óhugsandi, að það verði ekki alltaf á hverju ári einhverjar umframgreiðslur, hversu fast sem haldið er á fé. Fyrir þessu er svo löng reynsla, að það ætti að vera óþarfi að deila við hv. þm. um slíkt. Það er því alveg augljóst mál, að ef teflt er á allra tæpasta vað með tekjuáætlunina, þá er greiðsluhallinn vís. Tekjur ríkissjóðs hafa verið varlega áætlaðar undanfarið eingöngu til þess að reyna að koma í veg fyrir„ að það verði greiðsluhalli á ríkisbúinn, og eingöngu í því skyni. Í það eina skipti, sem nokkur verulegur greiðsluafgangur varð, þá var honum ekki eytt án samþykkis Alþingis, heldur var sett sérstök löggjöf á Alþingi um það, hvernig hann skyldi notaður. Það er þess vegna algerlega úr lausu lofti gripið, að afgreiðsla fjárlaga og áætlun tekna undanfarið hafi verið miðuð við að draga fjárveitingavaldið úr höndum Alþingis, og koma slíkar ásakanir mjög kynlega fyrir, þegar þess er gætt, eins og ég áðan gat um, að umframgreiðslur hafa verið minni undanfarið heldur en áður tíðkaðist. — Ég skal láta þetta nægja um það, sem komið hefur fram frá minni hl.

Ég vil leyfa mér að nota þetta tækifæri til þess að þakka hv. meiri hl. fjvn. fyrir mjög gott samstarf. Ég get ekki sagt annað en að hækkunartill., sem koma frá meiri hl., séu alveg nauðsynlegar, að ekki sé sagt óhjákvæmilegar, enda eru flestar þessar till. og allar þær veigameiri fluttar í samráði við ríkisstj.

Menn vilja ekki hækka skatta og tolla, og þá er ekki um annað að ræða en að mæta þessum hækkunartill. frá hv. meiri hl., sem hann hefur gert í samráði við ríkisstj., með hækkaðri tekjuáætlun. En þá kemur spurningin, hvort óhætt sé að hækka tekjuáætlunina. Um það vil ég fara fáeinum orðum og þá örfáum orðum um horfurnar almennt.

Á árinu 1952 urðu ríkistekjurnar samtals 420 millj. Þá giltu sömu skattalög og sömu tollalög í öllum atriðum eins og gilda nú í dag, að því undanskildu, að síðan hefur verið felldur niður tollur á sykri og kaffi, en að öðru leyti er á yfirstandandi ári stuðzt við sömu tekjulöggjöf og þá, sem gaf 420 millj. árið 1952. Í fjárl. fyrir yfirstandandi ár, árið 1953, eru tekjurnar áætlaðar 418 millj., og fljótt á litið mætti margur undrast, að þingið síðasta, sem hér sat, skyldi þora að áætla tekjurnar 418 millj., þegar það lá fyrir, að tekjur ársins, sem var að líða, voru aðeins 420 millj., eða m.ö.o. að ganga frá tekjuáætlun þá, sem gerði ráð fyrir jafnháum tekjum og þær urðu 1952, þannig að ef það hefði orðið sams konar tekjuár í ár eins og 195'?, þá hefði ekki verið nokkur einasti eyrir til þess að mæta ófyrirsjáanlegum útgjöldum eða umframgreiðslum, en slíkt hlýtur alltaf að nema verulegum fjárhæðum eins og nú er orðið. Hvernig stóð á því, að þingið treysti sér til þess að hafa afgreiðsluna svona? Það var einungis vegna þess, að menn áttu von á verulegum óvenjulegum tolltekjum af innflutningi til virkjananna stóru og til áburðarverksmiðjunnar. Það var í trausti þess, að þessar tolltekjur gæfu nokkrar umframtekjur, að fjárl. voru síðast afgreidd. Nú hefur það tvennt farið saman, að þessar tolltekjur af efni til stóru fyrirtækjanna koma inn á þessu ári og nema í kringum 25 millj. og að þetta ár verður eitt hið allra bezta tekjuár fyrir landsmenn og þar með ríkissjóð. Hver elnasti maður hefur fulla atvinnu, og margir hafa óvenjulega góðar tekjur. Nú er ekki hægt að sjá það alveg fyrir vist enn þá, hvað miklar ríkistekjurnar verða í ár, en einhvers staðar á bilinu frá 470–485 millj. gætu þær orðið. Ef við drögum þar frá 25 millj., sem eru óvenjulegar tekjur, sem ekki koma aftur, af virkjununum, og í staðinn fyrir virkjanirnar kemur ekkert á næsta ári, vegna þess, að vélar til virkjananna voru ekki greiddar af okkar eigin tekjum, þær voru greiddar af lánsfé og gjafafé, þá verða tekjur af núgildandi tekju- og skattalöggjöf í ár, eftir þessari áætlun, 445–460 millj. kr. Nú er tekjuáætlun meiri hl., sem hér liggur fyrir, komin upp á 443 millj., m.ö.o., að sáralitlu munar, að búið sé að áætla tekjurnar upp í topp eins og þær verða væntanlega á þessu einhverju hinu allra bezta tekjuári. Nú eru nokkrar heimildir, sem gert er ráð fyrir að verði á fjárlfrv. Þetta þýðir það, að verði ekki jafnmikið góðæri næsta ár og er í ár, þá mun verða halli á ríkisbúskapnum.

Þessi fjárlagaafgreiðsla, sem nú á sér stað, byggist á því, að það verður að treysta á góðærið, og ef út af því ber, þá er hallinn vís. Hér er því teflt á tæpasta vað um fjárlagaafgreiðsluna, þó að stjórnarandstæðingum sýnist ekki svo, þar sem þeir stinga upp á, að tekjurnar séu áætlaðar enn hærri, nánast byggt á því, að á næsta ári verði enn aukatolltekjur, svo að milljónatugum skiptir, af innflutningi, sem átti sér stað í ár til stóru fyrirtækjanna, og svo eru gjaldatill. þeirra að sjálfsögðu í „samræmi“ við þetta eins og vant er.

Hér er sannarlega teflt á tæpasta vaðið um fjárlagaafgreiðsluna og fullkomin ástæða til þess fyrir hv. Alþingi að staldra við og horfa fram í tímann, einmitt í sambandi við þessi mál eins og þau liggja fyrir núna. Nú er fyrirhuguð og ákveðin nokkur lækkun á beinn sköttunum, og verða. upplýsingar gefnar um þær fyrirætlanir í sambandi við 3. umr. fjárl., og fer ég ekki nánar út í það hér. En af þessu öllu sjáum við, að það er fullkomlega hæpið, að hægt sé að treysta því, að núverandi tolla- og skattalöggjöf geti til frambúðar staðið undir óbreyttum ríkisútgjöldum, þar með óbreyttri útgjaldalöggjöf, eftir að búið verður að lækka beinu skattana.

Það er þess vegna eitt af þeim verkefnum, sem nú liggja fyrir, að láta fara fram athugun á öllu útgjaldakerfi ríkisins og gera sér grein fyrir því, hvort hugsanlegt væri að breyta löggjöfinni þannig, að ríkisútgjöldin gætu lækkað, og þá fella niður eða draga saman eitthvað af þeirri þjónustu, sem ríkið nú lætur þegnunum í té. Í því sambandi munu reynast léttvægar þær yfirboðs- og yfirborðstill., sem hér hafa verið á ferðinni frá hv. stjórnarandstæðingum og orðaskak þeirra um það, að þessi vandi geti orðið leystur með því að koma fram sparnaði einvörðungu á því, sem í daglegu tali er kallað bein rekstrarútgjöld ríkisins. Með slíku verður aldrei neinu stórfelldu komið til vegar né stórfelldum straumhvörfum valdið um útgjöld ríkissjóðs. Það þekkja allir, sem nokkuð hafa kynnt sér þessi mál. Til þess að valda breytingum, svo að um muni verulega, þarf miklar breytingar á gildandi löggjöf í fjöldamörgum greinum og breyta til um marga þá þjónustu, sem ríkið nú veitir þegnunum.

Ég lét það verða mitt fyrsta verk, þegar ég tók við þessum málum nú í haust á nýjan leik, að rita meðráðherrum mínum í ríkisstj. og fara fram á, að þeir létu byrja á slíkri athugun. hver á sínu sviði, og þannig tel ég að þessi athugun eigi að byrja, en fer ekki nánar út í það hér, hvernig hyggilegt væri að koma henni fyrir að öðru leyti, en fjmrn. mun beita sér fyrir því, að slík athugun fari fram.

Ég vil svo endurtaka þakklæti mitt til meiri hl. í fjvn. fyrir ágæta samvinnu, og eins og ég tók fram áðan, þá er ekki hægt að kjósa á betra samstarf en tekizt hefur milli mín og meiri hl. um afgreiðslu málsins.