08.12.1953
Sameinað þing: 22. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 446 í B-deild Alþingistíðinda. (430)

1. mál, fjárlög 1954

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér eina brtt. við fjárlfrv., og er hana að finna á þskj. 277,l. Þessi brtt. er við brt1. meiri hl. fjvn. á þskj. 240 og er um það, að til læknisbústaða og sjúkrahúsa séu veittar 2 millj. kr. í stað 1500 þús., sem fjvn. leggur til.

Ég get ekki neitað því, að ég undraðist það mjög, þegar ég sá fjárlfrv. og sá, að það var ekki ætluð nema 1 millj. kr. til allra sjúkrahúsa og læknisbústaða á landinn fyrir utan Reykjavík og Akureyri, því að mér var kunnugt um, að þetta mundi ekki vera nema lítill hluti af því, sem nauðsyn ber til lögum samkvæmt að leggja til þessara hluta. Nú hef ég fengið upplýsingar um, að það eru í byggingu 5 sjúkrahús, sem þarna koma til greina. Það er í Hafnarfirði, á Seyðisfirði, í Bolungavík, á Blönduósi og í Neskaupstað. Auk þess er mér tjáð, að það sé í undirbúningi að hefja sjúkrahúsbyggingu á Sauðárkróki á næsta ári. Nú er það vitað, að til þessara bygginga ber ríkissjóði lögum samkvæmt að leggja í kaupstöðum 2/5 og í sveitahéruðum 2/3. Ég hef fengið upplýst, að viðkomandi ráðuneyti hefur lagt til, að til þessara hluta yrði varið á þessum fjárl. 3 millj. kr. sem lágmarksupphæð, og er það mjög skiljanlegt eftir þeim rökum, sem fyrir því eru færð, að af því mundi ekki veita.

Nú er því eðlilega ekki að leyna, að ég ber mína till. fram vegna sjúkrahússins á Blönduósi, sem er í byggingu. Um þá byggingu er þannig háttað, að hún er áætluð að kosta 3 millj. kr., og af því ber ríkissjóði lögum samkv. að leggja fram 2 millj. Þetta hús er komið undir þak, og hefur gengið mjög vel með bygginguna fram að þessu, og mundi, ef ekki strandaði á fjárskorti, vera innan handar að ljúka þessari byggingu að fullu á næsta ári, og er náttúrlega, eins og komið er högum, hægt að vinna í henni í allan vetur alveg óhindrað. Eins og ég tók fram, þá ber ríkissjóði að veita í þetta 2 millj. kr. Af því er þegar búið að borga 400 þús. kr., svo að það eru eftir 1600 þús. kr., sem ríkissjóði bæri samkv. áætlun að borga til þessa sjúkrahúss, og sjá allir, að það er meira en upphæðin, sem ætluð er til allra þeirra sjúkrahúsa og læknisbústaða, sem eru í byggingu á landinu.

Nú er það svo, að þegar um slíkar byggingar er að ræða sem sjúkrahús og læknisbústaði, þá er það þýðingarmikið mál, að byggingin geti baldið óhindrað áfram og gengið sem fljótast, vegna þess að á þann hátt verður hún miklu ódýrari en ella, en með því að vera að mylgra í svona byggingar smátt og smátt og draga það kannske 4–5 og upp í 10 ár að inna af hendi þær greiðslur, sem ríkissjóði ber til þeirra að greiða, þá verður öll framkvæmdin gerð miklu dýrari en ella þyrfti, auk alls þess óhagræðis, sem af því stafar að greiða vexti í stórum stíl og hafa alla þá fyrirhöfn, sem því fylgir að vera með þessar byggingar og fá þær ekki í not fyrr en seint og síðar meir.

Ég hef nú ekki viljað fara hærra í minni till. heldur en það að fara fram á, að þetta yrði hækkað upp í 2 millj. kr. Og síðan ég flutti mína brtt., hef ég séð, að annar þm., hv. 11. landsk., hefur flutt sams konar till., og að sjálfsögðu er það á sama hátt tengt við sjúkrahúsbyggingu í hans kaupstað. Ég vil þess vegna mega vænta þess, að hv. fjvn. og hæstv. heilbrmrh. athugi það nánar en gert hefur verið að þessu, hvað það er, sem hér er um að ræða, og sjái um það, að mín till. verði tekin til greina, hvort sem það verður við afgreiðslu við 2. umr. eða þá 3. umr.