08.12.1953
Sameinað þing: 22. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 447 í B-deild Alþingistíðinda. (431)

1. mál, fjárlög 1954

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Ég mun ekki tefja þennan virðulega þingfund með löngu máli. Þó er það ekki af því, að ég hafi svo lítið við fjárlfrv. ríkisstj. og till. fjvn. að athuga. Þvert á móti er það svo, að ég kysi að breyta velflestum liðum frv. Ástæðurnar fyrir því, að ég legg fram fáar og litlar brtt. og ræði lítið um hinar almennu hliðar fjárl., eru þær í fyrsta lagi, að ég til ástæðulaust að hnýta í fjárveitinganefndarmeirihluta þann, sem þjónar undir ríkisstj. Um hann má segja líkt og margir hafa hér sagt um þá menn, sem setið hafa í fjárhagsráði, að hversu mætir og ágætir sem mennirnir eru, þá geta þeir ekki gert góða hluti á þeim slæma grundvelli, sem starf þeirra byggist á, en grundvöllurinn er stjórnarsamstarf Framsfl. og Sjálfstfl. Í öðru lagi býst ég við því, að svar þeirra, sem hér ráða lögum og lofum, verði ekki ósvipað og það, sem Pílatus gaf á sínum tíma: Það sem ég hef skrifað, það hef ég skrifað. — Og breytir þá ótrúlega litlu, þótt rök séu leidd að brtt.

Engu að síður sé ég mig knúinn til þess að láta ekki með öllu undir höfuð leggjast að freista þess að ná fram fáeinum breytingum og flyt því á þskj. 277 nokkrar brtt.

Fyrst er sú, sem merkt er á þskj. með III, þ.e. brtt. við brtt. fjvn., sem skráð er á þskj. 240, þ.e. til hafnargerðar í Vestmannaeyjum. Brtt. er sú, að fyrir 250 þús. kr. framlag komi 750 þús. kr. framlag. Þetta er hækkun um 1/2 millj. kr., og þykir mér rétt að færa að því nokkur rök, þar sem hér er um óvenjulega háa fjárveitingu til einnar hafnar að ræða, ef samþykkt yrði.

Við, sem í Vestmannaeyjum búum, erum þannig í sveit settir, að við njótum ákaflega lítilla hlunninda af mörgum þeim útgjaldaliðum, sem eru hvað stærstir á fjárlögum ríkisins. Má þar einkum til nefna framlög til vegagerða og þó alveg sérstaklega framlög til brúargerða, sem aldrei koma okkur að neinu í Vestmannaeyjum.

Ég hef gert svolítinn samanburð á einu héraði, kjördæmi, þar sem búa snöggt um færri menn en í Vestmannaeyjum og þeir stunda flestir landbúnað. Í þeirra hérað voru á s.l. ári veittar 745 þús. kr. til hafnarbóta. Floti þeirra nam á s.l. vertíð 18 vélbátum, en frá Vestmannaeyjum gengu yfir 80 vélbátar og auk þess tveir togarar. Þeirra útgerð var minna en 1/5 partur af útgerðinni í Vestmannaeyjum, en hafnarbótaframlagið, sem þeir hlutu úr ríkissjóði, var 300% hærra en það, sem til Vestmannaeyja var veitt. Ég get einnig getið þess, að ef þessi samanburður á þessum tveim héruðum héldi enn áfram í ár, þá hefur enn dregið sundur, því að nú eru það till. fjvn., að á þennan tiltekna stað, sem ég hér hef nefnt, verði í ár veittar 830 þús. kr. til hafnarbóta, en framlagið til Vestmannaeyjahafnar verði látið sitja við það sama og var, 250 þús. kr.

Þetta dæmi var um hafnarmál, og þar er réttur Vestmannaeyinga til beztu kjara alveg skýlaus, ekki sízt af því dæmi, sem ég þegar hef nefnt, að sumir hæstu útgjaldaliðir ríkisins fara nær alveg fram hjá Vestmannaeyingum. (Gripið fram í: Hvaða sýsla var þetta?) Þetta er Snæfellsnessýsla, sem ég hef borið saman við Vestmannaeyjar.

Í þessum umr. hljótum við því að standa frammi fyrir þeirri staðreynd, að hér er algerlega ranglega skipt, og þó að brtt. mín, sem hér liggur fyrir, yrði samþ., þá komum við ekki einu sinni til með að njóta jafnréttis fyrir Vestmannaeyjar við það hliðstæða tilfelli, sem ég hef hér nefnt.

Þá hef ég flutt hér á sama þskj., 277, brtt., sem merkt er með VII. Það er brtt. vegna bókasafns Vestmannaeyja, þar sem ég legg til, að fjárveiting til þess verði hækkuð úr 6250 kr. upp í 13 þús. kr. Þau rök vil ég fyrir því færa, að sú breyting sé réttlát, að allir stærstu kaupstaðir landsins hafa svona hátt framlag. Akureyri hefur 13 þús. kr., Hafnarfjörður hefur 13 þús. kr., og meira að segja Ísafjörður, sem er miklu minni kaupstaður en Vestmannaeyjar, hefur 13 þús. kr. framlag. Ég geri ráð fyrir því, að einhverjir vilji því til svara, að bæði á Ísafirði og Akureyri sé um að ræða stiftsbókasöfn eða amtsbókasöfn, en ég vil taka það fram, að ég sé ekki, að bókasöfnum sé þörf á meiri rekstrarstyrk fyrir það, þó að þeim hafi í upphafi verið gefnar bækurnar, eins og gert hefur verið við amtsbókasöfnin.

Þá flyt ég enn á þskj. 277 brtt., sem merkt er með IX, þ.e. till., sem varðar leikfélag Vestmannaeyja, að framlag til þess verði hækkað úr 3000 kr. í 5000 kr. Ég get fært ósköp hliðstæð rök að því og fyrir till. minni um bókasafn Vestmannaeyja. Allir stærstu kaupstaðir landsins hafa hærra framlag en Vestmannaeyjar. Akureyri hefur 15 þús. kr., Hafnarfjörður hefur 5 þús. Ég get ekki fallizt á, að sanngjarnt sé að veita minna en 5 þús. kr. til leikfélagsins í Vestmannaeyjum.

Síðasta brtt., sem ég flyt á þskj. 277, er merkt með XIII. Hún er við brtt. frá meiri hl. fjvn. á þskj. 242. Þar gerir meiri hl. fjvn. það að sinni till., að 3/4 hlutar af hitakostnaði húsmæðraskóla og héraðsskóla í sveitum, þar sem ekki er jarðhiti, verði greiddur úr ríkissjóði. Ég fæ ekki komið auga á, að héraðsskólar í sveitum og kvennaskólar þurfi í þessum efnum að hafa nokkra sérstöðu frá almennu skólahaldi í landinu. Ef til vill hefur hæstv. fjvn. litið svo á, að það þyrfti að hita upp meyjarnar í húsmæðraskólum eða kvennaskólum alveg sérstaklega, og kann hún að hafa eitthvað fyrir sér í því. Ég hef ekki trú á því, að þetta séu neitt kaldari skólar en almennt gerist, og legg til, að þessi liður verði gerður almennur, þannig að greiddir verði úr ríkissjóði 3/4 hlutar kostnaðar við kyndingu allra þeirra ríkisskóla, sem ekki búa við jarðhita.

Ég læt þá útrætt um þessar brtt. að sinni, nema frekara tilefni gefist.