08.12.1953
Sameinað þing: 22. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 463 í B-deild Alþingistíðinda. (439)

1. mál, fjárlög 1954

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umræður, og mun ég þess vegna ekki nema að mjög litlu leyti fara út í þær brtt., sem hér liggja fyrir, enda hef ég ekki nema takmarkaða aðstöðu til þess, vegna þess að ýmsar þeirra hafa ekki verið til neinnar athugunar í fjvn., og get ég af þeim sökum ekki fyrir nefndarinnar hönd tekið neina afstöðu til þeirra.

Út af orðum hv. 8. landsk., sem hér talaði áðan, þar sem hann hélt því fram, að ég hefði sagt, að tekjuáætlun þeirra væri það há, að tekjur ársins í ár mundu ekki nægja til þess að vega upp á móti henni, hvað þá tekjur næsta árs, þá get ég nú naumast trúað því, að ég hafi sagt þetta, vegna þess að mér er vitanlega mjög vel kunnugt um það af þeirri áætlun, sem gerð hefur verið, að það má gera ráð fyrir, að tekjur ársins í ár fari allt upp í 485 milljónir. Það er ósköp einfalt reikningsdæmi að leggja saman það, sem veitt er í fjárlfrv. og till. þeirra hv. þm. Þjóðvfl., þannig að ef ég hef sagt það, þá hefur það verið algert mismæli.

Ég hirði ekki að fara frekar út í bollaleggingar þessa hv. þm. um tekjurnar. Hann benti á, að tekjur hefðu alltaf farið fram úr áætlun undanfarin ár og hlyti þess vegna svo að verða áfram, en það getur nú auðvitað verið, að einhvern tíma komi að þessu tæpasta vaði, sem að vísu oft hefur verið talað um, en ýmis atvik hafa valdið því, að það hefur alltaf komið betur út en jafnvel menn hafa þorað að gera sér bjartastar vonir um, þannig að ég hygg, að það verði erfitt að lifa á þeirri hugsun endalaust, að þar sem það hafi verið svo í fortíðinni, þá hljóti um alla framtið að verða um hliðstæðar hækkanir að ræða.

Hv. þm. taldi, að andmæli mín gegn því, að fé það, sem veitt er til tæknilegrar aðstoðar, verði afhent raunverulega til ákvörðunar Iðnaðarmálastofnunar Íslands, hefðu verið ástæðulaus og ekki hrakið hans skoðun varðandi þetta atriði. Um þetta má auðvitað endalaust þræta, en ég held því ákveðið fram, og það er mjög auðvelt að sýna fram á það. Ég hef að vísu ekki hér fyrir höndum nákvæma skýrslu um það, hvernig þetta fé hefur verið notað og hvernig því hefur verið ráðstafað, en mér er svo kunnugt um það, að ég veit, að það gæti ekki heyrt nema að tiltölulega litlu leyti undir þessa stofnun og ástæðulaust með öllu þess vegna að setja það sem eitthvert sérstakt skilyrði, að notkun þess sé háð samþykki þessarar stofnunar, sem er vissulega ágæt og þörf stofnun, en þarf ekki fyrir þá sök að vera hæfilegt, að hún hafi með þetta verkefni að gera.

Ég gat í ræðu minni áðan um fjárframlögin til læknisbústaða og sjúkrahúsa. Það hefur komið hér fram till. frá hv. þm. A-Húnv. um, að þessi fjárhæð verði hækkuð upp í 2 millj. Fjvn. hefur ekki séð sér fært að hækka upphæðina það mikið, en hefur hins vegar, eins og ég gat um, hækkað hana um 1/2 millj. frá því, sem er í frv.

Varðandi það, sem hv. þm. Vestm. sagði hér, og þar sem hann leggur til á þskj. 280, að bætt verði við liðinn, að viss upphæð skuli fara til heilsuverndarstöðvar í Vestmannaeyjum, þá hygg ég, að erfitt sé að fallast á það af þeirri einföldu ástæðu, að þá hlyti auðvitað að koma til greina skipting á þessu fé. Það er fjöldi aðila, sem hér á hlut að máli, og mörg héruð eiga inni upphæðir og telja sig eiga kröfu á fjárframlögum, og þeir mundu auðvitað koma með alveg sömu röksemdir um það, að það væri nauðsynlegt að taka það fram, að þeir ættu að fá svo og svo háa upphæð, og þá væri farið inn á nýja braut í þessu, sem ég hygg að sé mjög varasamt að ganga inn á, þótt hins vegar þessi hugmynd um kaupin á heilsuverndarstöðinni sé vitanlega allra góðra gjalda verð, og fjvn. hefur vissulega haft fullan skilning á þörfum fyrir þá ráðstöfun, þótt hún treysti sér ekki til þess að mæla ákveðið með henni, þar sem hún hefur, eins og ég gat um í minni frumræðu, ekki haft þann sið að skipta fjárveitingunum.

Varðandi liðinn „endurbygging þjóðvega“, sem hv. 1. þm. Eyf. hefur borið hér fram, skal ég geta þess, að það voru uppi skoðanir um það í fjvn., að æskilegt væri, að þessi liður væri hærri. Þessi till. hefur nú verið tekin aftur til 3. umr., og ég geri ráð fyrir, að n. sé mjög ljúft að íhuga, hvort unnt væri að koma til móts við þær óskir, því að hér er vissulega um miklar þarfir að ræða.

Fjvn. mun ekki geta fyrir sitt leyti fallizt á breytingar á úthlutun fjár til hafna eða vega eða brúa. Það mun nú ekki vera, held ég, um að ræða nema brtt. við fjárveitingar til hafnargerða. Það hefur verið reynt að samræma þetta svo sem auðið hefur verið, og þess er auðvitað enginn kostur að fara nú á þessu stigi málsins að hrófla við þeim fjárveitingum, þar sem n. er bundin við ákveðna upphæð og það hlyti því að ganga út yfir einhverja aðra aðila, ef ætti að fara að gera breytingar hér á.

Það eru hér ýmsar till. um hækkun fjárveitinga til bókasafna, til leikfélaga og ýmissar slíkrar menningarstarfsemi. Það má kannske segja, að það skipti litlu máli fyrir ríkissjóðinn, þó að þessar fjárveitingar væru hækkaðar svo sem hér er óskað eftir, en það ber þó að íhuga í því sambandi, að það eru mjög margir aðilar, sem hér eiga hlut að máli, og það má gera ráð fyrir, að hækkun hjá einum mundi þegar leiða af sér hækkun hjá öðrum aðila, þannig að hætt er við því, ef á að fara að raska við þessu, að það verði erfitt að fóta sig á því, hvar eigi að nema staðar. Og ég er hræddur um, að það komi óskir frá fleiri hv. þm., ef það ætti að fara að taka inn hækkanir á einstökum liðum án þess að hækka þá hlutfallslega, eins og hefur stundum verið gert og — ef ég man rétt — var gert á síðasta þingi, að hækka nokkuð framlög til þessara ýmsu þátta í þessari menningarstarfsemi. Þessi starfsemi er vissulega mjög góðra gjalda verð og ástæða til þess að styrkja hana svo sem hægt er. En ég vil aðeins benda á þetta atriði, sem gerir það að verkum, að n. hefur viljað vera mjög varfærin í að fara að hækka einstaka liði, þó að óskir hafi komið fram um það.

Ég vil aðeins geta þess hér í sambandi við till. frá hv. 4. landsk. þm. varðandi leikstarfsemi á Siglufirði, að ég geri ráð fyrir, að n. muni taka til athugunar að breyta a.m.k. orðalagi á þessum lið, þar sem þarna er um að ræða tvo aðila, sem leikstarfseminni halda uppi, en hins vegar hafa orðið erfiðleikar varðandi skiptingu þessa styrks.

Varðandi brtt. frá hv. þm. Skagf. vil ég taka það fram, að mér sýnist vera með öllu útilokað að fallast á þá till. eins og hún er orðuð. Það eru uppi kröfur frá mörgum aðilum, mörgum bæjarfélögum, varðandi hliðstæðar fjárveitingar og er búið að vera nú um nokkurra ára skeið, vegna þess að þrátt fyrir ákvæði í lögum um fjárveitingar í þessu skyni hefur það ekki verið tekið upp í fjárlög nú um nokkurra ára skeið og ekki greiddar þær kröfur, sem borizt hafa í sambandi við þessar boranir. Þetta hefur verið til athugunar í fjvn. og er nú ekki endanlega afgreitt þar, en það er augljóst, ef á að taka þessa fjárhæð upp, að þá verður að hafa það almennt til greiðslu á þessum skuldum, og síðan verður að greiða þær eftir einhverjum svipuðum reglum og fylgt er í sambandi við skólabyggingar og annað, sem er veitt í einn lagi til, því að það er ekki hægt að fara að taka út úr einn stað. Þá verður að taka inn í alla þá aðra aðila, sem hliðstæðar kröfur gera.

Ég vil aðeins í tilefni af því, sem hv. 1. þm. Árn. sagði um kaup á jörðunum Kirkjubæ vestri og eystri, taka það fram, að það mun ekki hafa verið formlegt erindi um þetta í fjvn. Hins vegar var þetta rætt í n., og n. hefur ekki talið sér fært að mæla með því, að þetta væri gert. Áð öðru leyti skal ég ekki ræða um þessa till.

Það hefur ekki verið sérstaklega mælt hér fyrir till. á þskj. 281, og mun ég því ekki víkja að þeim.

Ég held þá, að tilefni gefist ekki sérstakt til þess að ræða nánar um þessar till., og engin önnur atriði hafa komið fram, sem ástæða er til að svara, og mun ég því ekki hafa þessi orð mín fleiri.