15.12.1953
Sameinað þing: 26. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 540 í B-deild Alþingistíðinda. (461)

1. mál, fjárlög 1954

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Þeir, sem eru svo langminnugir, að þeir muna blaðaskrif og ræðuhöld núverandi stjórnarflokka við síðustu kosningar og lögðu trúnað á orð þeirra, hafa án efa orðið allmjög undrandi, þegar þessir flokkar eftir hæfilegan meðgöngutíma mynduðu stjórn að nýju. Lýsingar þessara samstarfsflokka hvors á öðrum voru á þann veg, að óhugsandi virtist, að samstarf gæti hafizt að nýju, ef hugur fylgdi máli. Fjárdráttur, óhæfileg álagning og okur einstaklinga og stofnana, sem flokkarnir á víxl héldu verndarhendi yfir, var daglegt umræðuefni beggja. Þessar umr. sýndu ljóslega, hvílíkar feiknafjárhæðir loða við fingur þeirra, sem hafa með höndum verzlun og viðskipti þjóðarinnar. Þær sönnuðu, svo að ekki verður um villzt, að það, sem Alþfl. hefur sagt um milliliðagróðann, er fremur of en van. Það var ekki deilt um, að gróðinn væri stórkostlegur, heldur hitt, hver væri frekastur og fengsælastur að draga gróðann til sín af stjórnargæðingunum. Eftir kosningarnar féllu þessar umr. og ádeilur niður með öllu. Síðan hafa blöð stjórnarflokkanna ekki minnzt á olíuverðið, flutningsgjöldin, álagningu heildsala eða Sambandsins með einu orði og ekki heldur saltfiskeinkasöluna eða gróða hraðfrystihúsanna. Þótti þá glöggum mönnum sýnt, að hverju mundi draga, enda gekk það eftir. Flokkarnir mynduðu stjórn á ný og nú undir forustu hæstv. forsrh., Ólafs Thors.

Hæstv. forsrh. og hæsta. fjmrh., Eysteinn Jónsson, viku báðir nokkrum orðum að samstarfi flokkanna í ræðum sínum í gærkvöld. Hafa þeir að sjálfsögðu ekki talið vanþörf á því að skýra nokkuð fyrir þjóðinni, hvað ágreiningnum liði og hvernig hann hefði verið jafnaður. En skýringarnar virtust mér heldur ófullnægjandi. Ólafur Thors sagði, að stjórnarflokkana greindi á um margt, einkum þó um þau atriði, sem snertu trúna á hið frjálsa framtak einstaklingsins, þar skorti Framsókn því miður nokkuð á hina réttu trúarvissu. Auk þess sagði hann, að mikið djúp væri staðfest á milli framsfl. og Sjálfstfl., því hefði Framsókn stungið upp á því, að mynduð yrði þriggja flokka stjórn til þess að leysa stjórnarskrána og liðka kjördæmaskipunina, en þegar íhaldið sagði nei, þá var Framsókn auðvitað góða barnið, lét allt þetta tal niður falla, ákvað að láta Steingrím rýma fyrir Ólafi og myndaði svo tveggja flokka stjórn undir forsæti hans. Svo fór nú um sjóferð þá. Öll stóru orðin voru strikuð út og gleymd. Sifja skal meðan sætt er.

Kosningaúrslitin voru þungur áfellisdómur um starf ríkisstj. og stefnu hennar og flokka hennar. Þrátt fyrir stórkostlega aukningu atkvæða lánaðist stjórnarflokkunum ekki að fá jafnháa atkvæðatölu nú eins og 1949. Íhaldið bætti að vísu við sig 93 atkv. — segi og skrifa 93 atkv., en Framsfl. tapaði aftur á móti 729, þannig að sameiginlegt atkvæðatap stjórnarsamsteypunnar nam 636 atkv. En sé aftur á móti, sem rétt er, miðað við hlutfallstölur, þá var tapið gífurlegt, langtum meira. Samanlagt hefur stjórnarsamsteypan nú að baki sér 59% af atkvæðamagninn, en þegar fyrri stjórnin var mynduð 1950, eftir síðustu kosningar, hafði hún 64% að baki sér. Þetta er dómur þjóðarinnar um stj. og flokka hennar. Þetta er stórkostlegur ósigur. Hinn verður ekki neitað, að úrslitin voru nokkurs konar sigur fyrir peningavaldið í stjónarsamsteypunni, og sýnilegt tákn þessa sigurs eru einmitt mannaskiptin í sæti forsrh., og áþreifanlega raunverulegt tákn þess eru þau mál, sem nú eru borin fram hér á þinginu og eiga að auka gróðamöguleika gæðinga flokkanna.

Eini stjórnmálaflokkurinn, sem jók atkvæðatölu sína að marki, var Alþfl. Hann bætti við sig á fimmta hundrað atkv. og fékk nú 12100 atkv. Kommúnistar misstu flest atkv., 1629, eða 12% af þeirra fylgi. Er þar að finna skýringuna á samstarfsvilja Brynjólfs Bjarnasonar, sem hann var svo fjölorður um í gærkvöld, þegar hann flutti harmatölur sínar yfir því, að enginn teldi kommúnista lengur eða Sósfl. um neitt samstarfshæfan nema að vinna gegn her í landinu.

Annað vekur sérstaka athygli í sambandi við úrslit kosninganna. Þótt Alþfl. einn hinna eldri flokka bætti við sig atkv. og fengi 12100 atkv., fékk hann aðeins einn kjördæmaþm. kjörinn. Þetta sýnir ljóslega, hve fjarri lagi núverandi kjördæmaskipun er. Jafnvel þótt uppbótarsæti bæti hér nokkuð úr, jafni metin að nokkru, fer því alls fjarri, að nokkuð nálægt jöfnuði náist á milli flokkanna. Að baki hverjum þm. Alþfl. eru 2015 atkv. Hver þm. Framsfl. hefur til uppjafnaðar 1060 atkv., eða helmingi færri að baki sér. Ef Alþfl. hefði þm. í sama hlutfalli við atkvæðamagn og Framsfl., ætti hann að hafa 12 þm. í stað 6 nú. Sjá allir, hversu fjarri allri sanngirni og eðlilegum lýðræðisreglum slík kjördæmaskipun er.

Þó er ekki hægt að loka augunum fyrir því, að enn er möguleiki á því að auka þetta misrétti og rangsleitni. Talsvert hefur verið rætt um það meðal stjórnarflokkanna að taka upp kosningar í einmenningskjördæmum eingöngu. Hugsanlegt er, að þá verði hægt að skipta Reykjavík svo í einmenningskjördæmi, að Alþfl., þótt hann enn bæti við sig — sem hann gerir — fengi engan þm. kosinn og enginn af andstöðuflokkum stj. með yfir 40% af atkvæðamagninu fengi nokkurn þm. kosinn á þing.

Enn er eitt athyglisvert í sambandi við úrslit kosninganna. Það er það, sem Morgunblaðið kallar sigra Sjálfstfl. Hann bætti við sig tveim þm. og á nú. 22 menn á þingi. En hvernig líta þá þessir sigrar Sjálfstfl. undanfarið út? Árið 1933 fékk hann 48% atkvæðanna, 1937 fékk hann 41%, 1946 fékk hann 39% og 1953, sigurárið seinasta, fékk hann 37%. Allan þennan tíma, síðustu 20 árin, hefur Sjálfstfl. sífellt verið að tapa fylgi. Á þessu árabili hefur kjörfylgi hans lækkað úr 48% og niður í 37%, eða um 1/4 hluta. Samt hafa áhrif flokksins á Alþ. farið vaxandi hin síðari ár eftir stríðið og mest nú síðast, þegar atkvæðahlutfall hans er orðið lægst. Aðstaða hans sem stærsta flokksins og feimnislaus beiting fjármagns og áhrifavalds ásamt núverandi kosningafyrirkomulagi og kjördæmaskipun veldur þessu. Þetta er furðuleg öfugþróun í lýðræðislandi. Það er lygilegt, en það er satt samt. Og sagan er þó ekki öll sögð. Fyrir kosningarnar taldi Sjálfstfl. sig hafa líkur til að ná hreinum meiri hluta á Alþ. án þess að auka atkvæðamagnið sem nokkru næmi. Þá fór Morgunblaðið háðulegum orðum um samsteypustjórnir, spillingu þá og hrossakaup, sem slíkum óskapnaði væri samfara. Í grein um þetta efni í Morgunblaðinu 23. júlí s.l. var sagt á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„344 atkvæði. Aldrei fyrr hefur Sjálfstfl. átt eins glæsilega sigurmöguleika og í væntanlegum þingkosningum. Ekki skortir sjálfstæðismenn nema 344 atkv. frá andstæðingum sínum til þess að vinna 10 ný kjördæmi og með því hreinan meiri hluta á þingi þjóðarinnar. 344 atkv. standa í vegi fyrir heilbrigðu, ábyrgu meirihlutastjórnarfari á Íslandi í atað pólitískra hrossakaupa samsteypustjórnanna.“

Það er valið nafn á hæstv. ríkisstj., sem er getið þarna fyrir fram. Síðan á eftir þessu fylgja svo greinargerðir yfir það, hver þessi 10 kjördæmi séu og hvað mikið þurfi að vinnast í hverju, til þess að Sjálfstfl. nái hreinum meiri hl. Og tölulega er það rétt reiknað. Þegar búið er að gera grein fyrir þessum 10 kjördæmum, þá er augljóst, að þangað var áhrifavaldinu, þangað var peningavaldinu beint í kosningunum, sem þá fóru í hönd. Og óneitanlega fékkst nokkur árangur. Flokkurinn vann fjögur kjördæmi, þó að hann aðeins bætti við sig í heild 93 atkv. á öllu landinn. Slík eru áhrif peningavaldsins, áhrifavald flokksins, þegar kjördæmaskipunin er eins og hún er og kosningafyrirkomulagið. Hins vegar missti hann tvö uppbótarsæti, þannig að þingmannatalan er nú 22.

Alþfl. hefur lengi verið það ljóst, hver óskapnaður núverandi kosningafyrirkomulag er. Með óbreyttri flokkaskipun veitir það stærsta flokknum og fjársterkasta alveg óeðlilegt áhrifavald. Kommúnistar hafa sjálfir dæmt sig úr leik með sinni alkunnu hlýðnisafstöðu við Rússa og afneitun lýðræðislegrar stjórnmálabaráttu. Því er að óbreyttu ekki unnt að mynda þingræðisstj., þ.e.a.s. með meirihlutastuðningi, án þátttöku Sjálfstfl., eins og þingið nú er skipað. Þess vegna taldi Alþfl. fyrir sitt leyti. að rétt væri að skorast á engan hátt undan því að ræða um möguleika á myndun þriggja flokka stjórnar eftir kosningarnar, sem til þess væri mynduð að færa kosningafyrirkomulag og kjördæmaskipun í lýðræðislegra horf, t.d. með því að taka upp hlutfallskosningar í fáum stórum kjördæmum, eins og ýmsir sjálfstæðismenn höfðu stungið upp á fyrr. Hann var einnig reiðubúinn til þess að ræða um málefnasamning við Framsfl. og um samkomulagskosningar þegar í haust, ef Framsókn gengi ekki til stjórnarmyndunar með íhaldsflokknum. Umr. þessar strönduðu þegar á íhaldinu, því að það var ákveðið í því að halda í núverandi kosningafyrirkomulag og kjördæmaskipun og léði ekki máls á að gera þar breytingar á, enda þótt ýmsir af áhrifamönnum þess hefðu áður haft orð á því. Og Framsókn gat ekki til þess hugsað að ganga til kosninga nú í haust. Þá var Alþfl. ekki önnur leið opin en sú að flytja frv. um breyt. á kosningalögunum, þar sem stjórnarskrárbreyt. í þessa átt var sýnilega algerlega ófáanleg.

Frv. um þetta efni er á þskj. 121 og er flutt af öllum þm. flokksins í Nd. Meginefni þess er í sem stytztu máli það, sem ég nú skal greina. Stjórnmálaflokkunum er heimilað að gera með sér kosningabandalag. Sé það gert, skal leggja saman atkvæðatölu þeirra flokka, sem bandalagið mynda, ef enginn frambjóðandi þeirra nær kosningu í kjördæminu án þess. Verði þessi atkvæðatala hærri en nokkurs annars frambjóðanda í kjördæminu, reiknast öll atkvæðatalan þeim frambjóðanda bandalagsins, sem hæsta atkvæðatölu hlaut, og nær hann þá kosningu. Kjósandi segir til með merki á atkvæðaseðli, ef hann vill ekki fallast á bandalagið og styðja það, og telst þá atkv. hans að sjálfsögðu ekki með. Að sjálfsögðu er það skilyrði þess, að slíkt kosningabandalag verði myndað, að þeir flokkar, sem að því standa, komi sér saman um málefnasamning og stjórnarmyndun, áður en kosningar fara fram. Ella er enginn grundvöllur fyrir slíku bandalagi.

Ef frv. þetta nær fram að ganga, er stórt spor stigið í þá átt að skapa ákveðnar, hreinar linur í íslenzkum stjórnmálum. Á þann hátt yrði stefnt að því, að tveir flokkar eða bandalög kepptu um meiri hl. á þingi, án þess að leggja höft á starfsemi flokkanna. Á þann hátt yrði aðstaða bandalagsins til áhrifa á Alþ. jöfn og jafnstórs flokks. Með því er kjósendum sýnd full hreinskilni. Þá yrði Framsfl. að segja til um það, hvort hann vill halda áfram sambúðinni við heildsalaflokkinn, sem hann nefnir svo, eða breyta stefnu sinni í þá átt, að hann styðji kjarabaráttu verkalýðsins og viðurkenni sameiginleg hagsmunamál bænda og launþega í landinu. Og þá yrðu þeir tiltölulega mörgu kjósendur, sem ekki eru kommúnistar, en hafa þó kosið kommúnista eða Þjóðvörn til þessa, að gera það upp við sig, hvort þeir vilja vinna gegn íhaldinu eða styðja það með því að fleygja atkv. sínum til ónýtis á annan hvorn þessara flokka. Þá mundu kjósendur vita, áður en þeir greiða atkv., hvaða mál þeir eiga að styðja og hvers konar ríkisstj. tekur við, ef bandalagið vinnur sigur í kosningunum. Þá mundu kjósendur ekki lengur þurfa að kaupa köttinn í sekknum, eins og þeir hafa orðið að gera við tvennar síðustu kosningar, með þeim ömurlegu afleiðingum, sem sárbeitt reynsla síðustu ára hefur leitt í ljós og fært sönnur á.

Hv. 7. landsk. þm., Eggert Þorsteinsson, mun gera grein fyrir nokkrum öðrum frv. og till., sem Alþfl. hefur flutt á þessu þingi.

Ég get dregið saman niðurstöðuna af viðleitni stj. siðan 1950 í mjög fáum orðum. Ríkisstj. sagði, þegar hún tók við völdum, að um tvennt væri að velja, gengislækkun eða greiðslur vegna dýrtíðar. Hver hefur reynslan orðið? Við höfum fengið gengislækkun, og við höfum líka fengið sívaxandi greiðslur vegna dýrtíðar. Stjórnin sagði, að það væri um að ræða gengislækkun eða tvöfalt gengi. Hver hefur reynslan orðið? Hún hefur orðið sú, að við höfum fengið bæði gengislækkun og tvöfalt gengi, bæði gengislækkun og bátagjaldeyrí með öllu því, sem honum fylgir. Og ríkisstj. sagði þá, að þjóðin ætti um að velja vaxandi skattabyrði eða gengislækkun. Hver hefur reynslan orðið? Hún hefur fengið hvort tveggja. Hún hefur fengið gengislækkun og sívaxandi skattabyrði. Niðurstaðan af björgunarstarfsemi ríkisstj. hefur því orðið ekki gengislækkun og batnandi hagur, heldur gengislækkun, bátagjaldeyrir, sívaxandi skattar og sívaxandi atvinnuleysi, svo framarlega sem flugvallarvinnan ekki bjargaði.